Steve Jobs

Það er ekki ástæðulaust að Aaron Sorkin þykir vera einn sá fremsti í sínu fagi, sérhæfður í samtalsdrifinni spennu, skemmtilegum drullusokkum og/eða listinni að sýna fólk með greind á við tvöfaldan stofuhita rammkjafta á góðu rölti. Handritið að Steve Jobs er eins „Sorkinískt“ og þú getur beðið um, en – annað en kom fyrir þurru og hreint og beint grútlélegu myndina með Ashton Kutcher í aðalhlutverkinu – er hér er ekki máluð upp mjög mild mynd af manninum í sviðsljósinu, heldur bítandi, athyglisverð og vel mótuð miðað við takmörk strúktúrsins sem höfundurinn setur sér.

Steve Jobs virkar á mig eins og „biopic“ myndin sem flestar slíkar myndir þora aldrei að vera. Til að byrja með neitar höfundurinn að festa sig við neina formúlukennda bókenda og í stað þess að búa til narratífu úr tættum Wikipedia-nótum eða skima yfir há- og lágpunkta frá upprisu til dauða, velur hann frásagnarnálgun sem er einkennilega ‘leikhússleg’ en krefjandi og í senn býsna djörf.

Sagan spannar 14 ár en Sorkin leyfir henni að spilast út gegnum aðeins þrjár langar senur, allar í rauntíma (u.þ.b. 40 mínútur hver). Hver kafli einblínir á lokametrana fram að tiltekinni vörukynningu og þar af leiðandi vissum tímamótum í lífi Jobs; fyrst byrjum við árið 1984 með afhjúpuninni á Apple Mackintosh, síðan er stokkið til ’88 þegar NeXT er að fara á loft og endum við á iMac sýningunni árið ’98. Aðeins fáeinir bútar eru brotnir upp með flassbökkum, en myndin rúllar að mestu eins og þrír óslitnir kaflar, sem allir hverjir eru geysilega fljótir að líða að mínu mati. Útkoman er eins og þriller… með orðum.

9c9aa8aedf

Með þessum ramma tekst Sorkin að innsigla líf, persónuleika, mistök og endurtekningar persóna með mjög afmörkuðum samskiptum. Þegar um þursa eins og Steve Jobs er að ræða geta skoðanir hvers og eins á manninum haft áhrif á því hvernig þeir koma að þessari tæklun, en Sorkin virðist ekkert láta það trufla sig að nýta sér ýmis skáldaleyfi til þess að bora fast, kalt og grimmt að ytri kjarna þessa manns, enda mjög „Shakespeare-esk“ tragedía á bakvið hann.

Afrekin og vörurnar eru sjálfsagður hlutur í legasíunni og handritshöfundurinn hefur mestan áhuga á að kafa ofan í brennandi drífanda þessa manns sem ætlaði sér að breyta heiminum, og hvernig fullkomnunaráráttan hefur áhrif á vinnufélaga og þá nánustu í kringum hann. Sem einstaklingi er Jobs stillt upp sem einstökum þjarki ….en umfram allt sem ferlega gallaðri manneskju; hrokafullur, erfiður og gerir lítið úr eða talar niður til allra í sínum radíus (vinir, óvinir, samstarfsmenn, dóttir hans…) án þess að depla auga.

MV5BMjE2NzYwNjYwMF5BMl5BanBnXkFtZTgwODkxMzI5NjE@__V1_SX640_SY720_

Handrit Sorkins er vissulega hnyttið og næstum brilliant á tíðum þar sem eldfimar samræður eru alnokkrum sinnum sinfóníum líkar, en samsetninguna hjá Danny Boyle má innilega ekki vanmeta. Það er hann sem finnur þennan magnaða ryþma í leikurunum og gefur flæðinu nauðsynlegan púls sem sér til þess að strúktúrinn gangi upp. Myndin er líka í svakalegri hættu á því að endurtaka sjálfa sig. Það er viljandi gert en það kemur misjafnlega vel út eftir persónum. Kjarninn og aðall innihaldsins súmmast þó allur upp að dóttur Jobs. Það er sniðugur fókus og heppnast býsna vel en reynir um leið að skapa hlýju sem myndin nær aldrei að vinna sér fyrir.

Alveg má færa rök fyrir því að hér er saga og bygging sem hefði betur notið sín á sviði (sérstaklega þar sem hún gerist nærri öll, bókstaflega, baksviðs), en björtu, hvössu stíltaktar leikstjórans og sífellt áreiðanlega orkan sem hann skapar herðir á tensjóninu og nýtir sér það til hins ýtrasta að vera með niðurteljandi klukkumótíf í hverju atriði. Boyle gefur þar að auki hverri „senu“ sinn eigin stimpil og períódunni sem hún tilheyrir. Fyrsti kaflinn er skotinn á 16mm, næsti 35mm og þriðji er tekinn upp stafrænt. Það er eitthvað brillerandi við þessa áferð og hvernig hún kemur tímahoppunum til skila með þessari formats-breytingu og hvernig tækniþróun svífur yfir allri áru myndarinnar. Myndatakan er almennt fagleg og trausta eyra Boyles fyrir músík bætir líka miklu við. Lokalagið er eina undantekningin.

steve-jobs-michael-fassbender-trailer-0

Ef Michael Fassbender er ekki löngu búinn að sýna fram á að hans sé meðal betri leikara sinna kynslóða í dag (eins og allar seinustu þrjár Steve McQueen hafa m.a. sýnt). Gæinn sekkur sér í þennan díalóg áreynslulaust og finnur réttu taktana til að gera Jobs svo áhugaverðan til áhorfs. Þarna sannast líka að litlu máli skiptir þótt leikarinn sé ekkert líkur þeirri frægu fígúru sem hann leikur svo lengi sem a) efniviðurinn smellur, og b) áhorfandinn öðlast einhvern smá skilning á því sem heldur honum gangandi. Kutcher var sóðalega líkur frumkvöðlinum en gagnaðist það honum sama og ekkert því lokavaran var drasl.

Í öðrum hlutverkum er varla neinn að finna sem ekki heldur höfði á móti Fassbender sem sjaldan fær að yfirgefa rammann. Katherine Waterston (Inherent Vice) er frábær sem barnsmóðir Jobs og Seth Rogen meira að segja, sem fer bara ósköp vel að leika hágreindan gæja einu sinni, loksins. Hann er hrikalega góður sem Steve Wozniak. Kate Winslet er líka æðisleg sem pólsk-ættaða aðstoðarkona Jobs og meðal örfárra einstaklinga sem hikar ekki að tjá sig upphátt við frumkvöðulinn æsta, þrátt fyrir að gleyma stundum hvaða hreim hún á að nota. Michael Stuhlbarg þótti mér þó alltaf stela sínum bútum sem einn af nánari „boxpúðum“ Jobs, og Jeff Daniels er hér með fyrirgefið að hafa týnt bæði sjálfum sér og vitinu í Dumb & Dumber To í fyrra.

Sama hvað þér finnst/fannst um manninn á bakvið makkann situr hér eftir lítil en hnífbeitt saga um tækniþróun og mannlega eðlið. Ég myndi ekki hika við að kalla þetta dúndurmagnaða mynd ef hún aðeins betur hysjað upp buxurnar á endasprettinum, eða betra, klippt í kreditlistann áður en tilgerðarlegri mýkt, vandræðalegu (auka) vöruplöggi og ósannfærandi skyndi-þróun er troðið inn og ekki alveg samkvæm restinni. En umrædda restin sýnir enga miskunn, grípur, dáleiðir og gleður til skiptis með þessum samræðuópus. Smágallar hér og þar en, þegar upp er staðið, merkileg og afberandi mynd um merkilegt, afberandi fífl.

gedveik

Besta senan:
Sculley og Jobs í hálsinum á hvor öðrum – á tveimur mismunandi tímalínum.

Sammála/ósammála?