In the Heart of the Sea

Ron Howard er yfirleitt hárrétti maðurinn til að snúa sér að þegar kemur að glansandi, auðmeltanlegum og innantómum ‘Óskarsmyndum’/beitum. Það gerist að hann hitti algjörlega í mark (Frost/Nixon t.d.) og prufar hann sig áfram í einhverju öðruvísi, eða spennumyndum, gamanmyndum en með misjafnlega heppnuðum árangri. En fyrir mér hefur hann sjaldan nýst betur en sem sögumaðurinn í Arrested Development.

In the Heart of Darkness markar samt enn eitt tilfellið hjá Howard þar sem afbragðsefniviður verður að þunnildum. Það verður að segjast fúlt þegar hún fjallar um atburði sem voru kveikjan að Moby Dick, sem Herman Melville gaf út árið 1851Þetta er saga sem er sérstaklega þekkt fyrir krufningu sína á hefnd, þráhyggju, valdaleysi, trú, geðveiki, manni gegn náttúru – svo eitthvað sé nefnt. Hérna er aðeins rétt svo daðrað við þessa hluti á yfirborðinu. Howard gefur okkur bara spikfeit, tölvugerð hvalabein með engu utan á. Mannlegi þátturinn er alveg kjötsnauður. Myndin virkar ekki sem spennu- og ævintýrasaga, þar sem hún hefur engan púls fyrir slíkt, og síður dramatísk karaktersaga sem notfærir sér þemun gerðu skáldsögu Melvilles svo tímalausa.

hemmy

Howard segir okkur helling, sýnir okkur helling, hugar að skýrum skilaboðum og tapar sér í rándýra framleiðslugildinu, en hann *gefur* óskaplega lítið með frásögninni. Aðallega bara flotta leikara og fáeinar senur sem sýna karakter eða einhverja sál (áður en melódramað dettur á hættumörk). En þegar þú ert með sögu sem inniheldur risastóran hval í biblískum hefndarhug ætti afraksturinn aldrei að verða svona óeftirminnilegur, algjört bla.

Gallarnir skrifast vissulega ekki alfarið á leikstjórann, og án þess að benda á nein nöfn gæti það hafa verið vond hugmynd að leyfa handritshöfundi Seventh Son að eiga hlut í þessari mynd. Sagan er mjög breið og spannar langa períódu en til þess að þjappa niður og spretta yfir tímapunkta var tekin sú ákvörðun að stilla upp narratífuna í kringum Melville sjálfan, leikinn af Ben Whishaw, þegar hann punktar niður nótur fyrir bókina sína á meðan Brendan Gleeson, sem einn eftirlifendanna, rifjar upp atburðina. Hef ekkert út á leikaranna að setja en þetta er áhrifalaus aðferð til að útskýra hluti miskunnarlaust, og gefur heildinni mjög þvingaða römmun sem endinum vont eftirbragð.

BenWhishaw

Á blaði eru elementin til staðar, bara framkvæmdin sem er með áherslurnar í tjóni, en útlitslega þykir mér myndin alls ekki líta vel út. Atriðin á sjónum skorta alla áferð oft, þú finnur fyrir sviðsmyndunum, grænu tjöldunum og brellurnar eru misflottar í besta falli. Þessi gervilega „glossy“ stíll setur vondan blett á annars nokkuð flekklausa ferilskrá hjá kamerumanninum Anthony Dod Mantle.

Leikararnir eru það besta sem er í boði, án þess að það segi mikið. Aðalpersónurnar eru tæknilega séð montni yfirstýrimaðurinn og óöruggi skipstjórinn á hvalveiðaskipinu, tveir menn með ólíka bakgrunna sem eiga ekki beinlínis vingjarnlegt samband á skipinu. Flestir leikararnir tríta hlutverk sín eins og þau séu eitthvað meira, en í tilfelli þessa lykilsambands er aldrei komið almennilega inn á deilur þeirra og ósætti – oftast eru það aðrir sem þurfa að segja áhorfendum frá því.

IN THE HEART OF THE SEA

Miðað við hversu einhliða þessir tveir einstaklingar eru segir sig sjálft hvað öll áhöfnin skilur lítið eftir sig. Eina leiðin til þess að tengja sig við hana er gegnum leikaranöfnin, svo sem Cillian MurphyFrank Dillane (eða ‘unga Voldemort’), Tom Holland (‘næsta Spider-Man’) o.fl. Stjörnuafl Chris Hemsworth í hlutverki yfirstýrimannsins fær hann til þess að standa svolítið upp úr, ekki alveg á jákvæðan hátt. Hann er sannfærandi og með sinn stóíska sjarma en í hlutverki sem hefði hugsanlega betur hentað öðrum. Benjamin Walker (þessi sem lék vampírubanann Lincoln og lítur út eins og blanda af Liam Neeson og Jamie Dornan) er ágætur sem kafteinninn en sleppur ekki við það að vera heldur þurr, en – aftur – það er galli sem má mest megnis rekja til hvernig hans rulla er skrifuð á blaðinu.

Howard miðar svo sannarlega hátt með þessari sögu og virðist vera að gera margar myndir í einni, með atriðum sem minna á myndir sem hafa framkvæmt slík betur (upp í hugann koma Master & Commander, The Perfect Storm, Unbroken jafnvel, Alive… Pirates of the Caribbean?). Alltof einbeittur að lúkkinu og tilfinningunum án þess að huga að kjarnanum sem vekur þær. In the Heart of the Sea er því of „snyrtileg,“ leiðinlega auðgleymd en gæti þó alveg fengið einhvern til að slysast til að kíkja á bókina og séð hverju er verið að missa af.

fjarki

Besta senan:
Moby sýnir mótspyrnu.

Sammála/ósammála?