Krampus

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Michael Dougherty er á hárréttri leið. Hann sýndi sína prakkaralegu færni fyrir fríkuðum hrolli og svartri kómík í költuðu hrekkjavökumyndinni Trick r Treat. En þar sem hún var sett saman úr smásögum væri stærsta áskorunin hans næst að geta fyllt almennilega upp í heila bíólengd með þetta hugmyndaflug sitt, og sem leikstjóri hefur hann einnig frábært auga fyrir grípandi römmum.

Krampus hefði nefnilega getað orðið að brilljant stuttmynd, kannski tuttugu mínútna langri eða svo, en ég tel það til mikils hróss til hennar að það skuli sjást þarna langar leiðir að báðar myndir komi frá sama manni, einhverjum sem þykir aldeilis gaman að taka dökkan vinkil á hátíðargoðsagnir, og er sömuleiðis óhræddur við að leika sér að öllum kjánaleikanum sem fylgir þeim.

krumpus-cover-1500x844

Jóladjöfulinn Krampus kemur úr austurrískri goðsögn, þó hann virki algjörlega á mann sem sköpun sem einhver leikstjóraskröggur myndi skapa. Þessi eiturhressi Satan-Sveinki kemur og refsar öllum (og fjölskyldum þeirra…) sem eru óþekkir yfir hátíðarnar; hann er stór, hokinn, loðinn, með langa tungu, hala og gengur á hófum, og þrammar því miður ekki einn á ferð. Myndin rekur söguna af býsna hversdagslegri og viðkunnanlegri fjölskyldu sem þarf að þola það nógu hart þegar ruddalegir ættingjar þeirra mæta í heimsókn yfir hátíðarnar. Mórallinn er glataður, rifrildi brjótast út og drengur nokkur segir sig skilið við hátíðarandann og trú sína á jólasveininn. Þetta er akkúrat tilkall sem kallar á Krampusinn, til að sýna fram á það með öllum mögulegum brögðum að til eru verri hlutir við jólin en að deila fríinu með ættfólki sem þú þolir ekki.

Í samanburði við Trick r Treat fölnar þessi mynd talsvert, og spyr maður sig hvort betra hefði verið að velja annaðhvort grínleiðina eða leggja allt í hryllinginn. Hún gengur ekki alveg upp sem bæði enda óskaplega lítið hrollvekjandi og aldrei neitt svakalega fyndin. Skemmtileg, jú, vel skrifuð á köflum, mátulega rugluð, með öfluga, drungalega andrúmsloft sitt alveg á tæru og svoleiðis hlaðin illkvittnum og jólalegum hrekkjum til að hverfa aldrei of langt af sporinu út þessar 90 mínútur.

krampus-003

Persónurnar eru mitt á milli þess að vera staðaltýpur og alvöru, manneskjulegri einstaklingar. Af leikurunum virðast allflestir smellpassa á sinn stað og gefa hlutverkum sínum eitthvað smávegis auka. Það er líka sama hve ýktar persónurnar eru sumar, allir taka aðstæðurnar nógu alvarlega til að hryllingurinn geti gengið án þess að tapa andlitinu. Toni Collette er ánægjuleg að venju og setur næga sannfæringu í þetta til þess að afskrifa alla ræmuna sem B-mynd. Gaman er líka alltaf að sjá Adam Scott leika geðslega góðan gaur til tilbreytingar. Aðalkrakkinn í myndinni, leikinn af Emjay Anthony, er makalaust ópirrandi og þeir krakkar sem eiga að vera pirrandi enda með því að ná því markmiði áreynslulaust, á besta máta. Bestu leikmennirnir eru annars vegar Conchata Farrell sem óbærilega kjaftfora frænkan á heimilinu og þýska amman, leikin af Kristu Stadler, sem í byrjun sögunnar er fullkunnug (og það er baksaga sem leysir sig út með glæsilegum teiknimyndakafla).

Frá mínum enda hefði alveg mátt ganga miklu lengra með allt hátíðlega kaosið (andsettu trúðarnir og piparkökukarlanir voru reyndar gott ‘touch’), en á móti höfum við hérna jólamynd í aðstöðu til þess að troða einni eða tveimur martröðum í unga krakka sem tæknilega séð mega ekki horfa á hana en munu gera það samt. Dougherty mjólkar hvern dropa úr þessum 12 ára/PG-13 aldurstimpil eins og hann getur, með stemmara sem minnir ekki lítið á hvernig Gremlins og gamla Poltergeist fóru að því.

krampus-

Eins og áður nefndi byrjar þetta aðeins að þynnast út. Myndin tekur fínan tíma í að koma öllu af stað og þegar lengra á líður gleymir hún því víst annað slagið að það sé ungabarn í sögunni, eða hvað á að gera við það. Hún líður líka fyrir það að blessaði Krampusinn er bara ekkert rosalega mikið að láta bera á sér. Býst við að það sé tilgangurinn með uppbyggingunni en kvikindið mátti alveg skína meira.

Krampus hefði getað gert villtari hluti við allt sem hún hefur til að föndra með. Hún fær að njóta sín þegar skuggalega stuðið hefur náð sér á skrið, eftir býsna langa bið en gleymir ekki hátíðarandanum eða þörfum boðskap sem biður þig um að vinsamlegast ekki vera fífl yfir hátíðarnar! Engin tilvonandi jólaklassík held ég – og ef það gerist er það út af takmörkuðu úrvali af góðum jólahrollvekjum, en gæti orðið flottur árlegur stemmari sem má brosa yfir og dást pínulítið að (enda stíllúkkar myndin út í eitt út frá tæknilegum hliðum!) og sérstaklega ef það eru nokkrir innan hópsins sem eru extra viðkvæmir. Góð fyrir börnin.

fin

Besta senan:
Forsagan.

Sammála/ósammála?