Star Wars: Episode VII – The Force Awakens

Fyrir stærsta keisara og tæknilega séð uppruna allra nútíma blockbuster/franchise-mynda var það ekki lítil áskorun að móta framlengingu á sögu þar sem frá var horfið fyrir rúmum þrjátíu árum, með tilliti til þess að svala þorsta eldri og elstu kynslóðar Star Wars nöttara, hinum yngri og auðvitað þeim áhorfendum sem koma glænýir að þessu með engan nostalgíufarangur. Standardinn var svo sem ekkert yfirþyrmandi hár eftir ástandið sem sjálfur skapari myndbálksins kom honum í með forsögufiktinu. En þökk sé því að hafa slitið sig frá öllu merkinu hefur hann opnað dyrnar fyrir einhverri dýrustu og án efa skemmtilegustu fanfiction-mynd sem gerð hefur verið.

Mætir þá J.J. Abrams, eldheitur eftir að hafa hitað upp með tveimur ‘Star Wars’ myndum fyrir (og hressilega stuðað hörðustu Trekkara eftir því sem á leið) og hættur að tapa sér með linsuglampana að þá sýnir hann í eitt skipti fyrir öll hversu mikill aðdáandi hann er, hvernig fólkið og áþreifanleikinn á skjánum sé það sem skiptir máli í þessum bíóheimi, ekki bara brellurnar og melódramað. Skaðar heldur ekki að vera meistarafagmaður á bæði tæknilegum levelum og listinni að herma eftir öðrum bíómyndum (Super 8 er besta dæmið þar). Með The Force Awakens nær Abrams býsna glæsilega að fanga klassíska Star Wars-fílinginn en gefa honum nýja orku um leið og forðast stafrænu ofhleðsluna sem sogaði mestallt lífið úr forleiknum.

star-wars-the-force-awakens-boyega-ridley

Abrams sýnir samt einnig, stórfurðulega, að þó George Lucas geti slitið sér frá Star Wars, þá getur Star Wars ómögulega núna slitið sig frá því að leyfa rímum hans að endurtaka sig. Það skaðar óneitanlega meira en bætir hvað gæinn er á köflum brandaralega hlynntur miklu hugmyndaleysi og vilja fyrir að stífkópera eldri formúlurnar, stíga líka aðeins oftar á bensíngjöfina heldur en hann þurfti auk þess að kanna allsvakalega hver mörkin eru fyrir því hversu mörgum veraldlega fyndnum tilvjiljunum Mátturinn getur galdrað upp í einum kafla (og Abrams virðist alltaf vera fastur á því að nokkrar persónur geti hist ofurheppilega á hvaða plánetum sem er, hann gerði svipað í Star Trek).

Það er alveg hægt að fyrirgefa holur og kjánagang í efninu þegar Star Wars eins og það leggur sig hefur aldrei verið annað en morandi í slíku, í einu formi eða öðru. Þar sem þessi myndbálkur hefur risið og fallið á sjónbrellum segir það sig sjálft að þessi gígantískt aðlaðandi fantasíuheimur hefur aldrei litið betur út en hjartað hjá þeim hefur alltaf oltið á því hvernig tenging okkar við persónurnar er tækluð. Það er styrkleikurinn sem ýtir The Force Awakens úr því að vera dæmigert og sterílt nostalgíurúnk á pari við Crystal SkullJurassic World eða Terminator Genisys, persónurnar. Því öll kúlstigin sem Abrams tapar fyrir að annaðhvort endurskapa eða „rímixa“ gömlu hráefnin með píndari máta, þá vinnur hún sér inn önnur með leikhópnum, sálinni og spennunni sem þeir einmitt gefa þessum kafla. Extra ánægjulegt líka að sjá geislasverðsbardaga sem er karakterdrifinn í stað þess að koma út eins og æfður dans með töff tónlist.

Star-Wars-7-Starkiller-Base-Weapon

Persónurnar misstíga sig ekki, heldur sagan. Þetta eru fullmargir boltar í einu á lofti þegar hún er bæði að lauslega endurgera A New Hope og gera upp allt sem gerðist síðustu 30 árin OG reyna að búa til pláss fyrir eigin nýjungar. En þær nýjungar sem Force Awakens hefur eru mestmegnis þrælgóðar viðbætur í seríuna, að utanskildri Gollum-keisarablöndunni hjá Andy Serkis.

Á þeim nótum hefði alveg mátt meira heyrast af nýrri tónum hjá John Williams. Nýtingin á þeim gömlu er úthugsuð og kætandi en lítið nýtt kemur á móti eða minnisstætt í samlíkingu við Duel of the Fates, Battle of the Heroes eða m.a.s. Across the Stars, allt úr seinni þríleiknum. Inniglar það svolítið meira hversu mikil ‘Best of’ upplifun þessi mynd reynir að vera. Feilsporin voru auðvitað mörg þegar Goggi hafði fulla stjórn, en hann að minnsta kosti reyndi að prufa ýmsa nýja hluti með míþólógíuna. Gekk ekki alltaf, en hann reyndi, sem er meira en Force Awakens gerir. Nýju pláneturnar líta allar glæsilega út en íkonógrafían er öll tekin frá eldri hráefnum. Hún stækkar heldur ekkert veröldina neitt sérstaklega en í versta falli sýnir hún okkur kunnulega hluti frá öðrum sjónarhornum.

Eitt það besta við þessa mynd er samt að sjá Harrison Ford loksins líta út eins og hann sé að nenna einhverju. Í áraraðir hefur hann urrað, pínt sig og sofið gegnum hlutverk og þó hann sigli kannski ekki alveg í höfn með endurvakninguna á Han Solo, þá er kjarni karaktersins hinn sami og hvergi nein slátrun í líkingu við fjórða Indy eintakið. Carrie Fisher er svipuð, stíf en hugguleg engu að síður. Og Mark Hamill. Já.
Mark Hamill…
Djarft.

renandrey-large

Daisy Ridley fíla ég í döðlur – virkar á mig eins og Keira Knightley, bara fallegri og með betri getu til að púlla það að vera svöl. Rey er sterkur og skemmtilegur karakter (aldrei eins vælin og Luke var í fyrstu umferð) og örkin hennar er meira en fullnægjandi. Það er grautfúlt hvað Oscar Isaac er lítið notaður, því hann er æðislegur þann tíma sem við fáum hann sem Poe Dameron og með þvílíka ‘óldskúl’ bíósjarma við sig. Finn er annars vegar uppáhalds karakterinn minn af þessum nýju, og hvað John Boyega (sem var frábær í Attack the Block) leggur mikið ofan á hlutverk Stormsveitarmanns með samvisku og þráir ekkert meira en að flýja frá þessu öllu. Boltaróbotinn BB-8 er líka hinn krúttlegasti senuþjófur og hleypur æðislega í skarðið fyrir R2-D2, sem situr hvort sem er þunglyndur út alla myndina.

Kylo Ren fannst mér svínvirka. Ég elska hvað það er mikill Anakin í honum; góðu, svölu hliðarnar þegar hann montar sig af Mættinum, grjótharður með grímu og líka hormónafullu reiðisköstin og óöryggið, eitthvað sem þetta handrit nær miklu betri tökum á heldur en Clones eða Sith gerðu með unga Höfða. Adam Driver er heldur ekki með, tja, ‘svalasta’ andlitið í heimi, og það er honum í hag hér á alla vegu. Illmennin í Star Wars myndum hafa líka sjaldan verið svo skemmtilega komplex, og tilbreytingin er ljúf að sjá skúrk í fyrsta sinn rembast við að bæla góðu hliðar sínar niður. Að utanskyldum Svarthöfða hafa illmennin verið ruglað yfirdrifnir, einhliða eða kjánalegir – og allt þrennt. Fræin eru að minnsta kosti til staðar til þess að gera líka eitthvað enn áhugaverðara úr honum í næsta kafla, eins og á svo sem við um alla.

 

(Ath. ! Harðir spoilerar í næstu efnisgrein…)

Abrams hefur alltaf verið maður til að fórna dýpt fyrir hasarrennsli en skilur þó alltaf eftir næga afganga til þess að orkusprettarnir þýði eitthvað. Með The Force Awakens kemur hins vegar minna út eins og persónurnar stýri sögunni, heldur eru plottpunktarnir að miskunnarlaust að reyna að strengja saman heppilegar leiðir til þess að framvindan geti komist frá einu til þess næsta (t.d. hvernig R2 bara hættir allt í einu að vera í lághlaða sjálfsmorðsskapinu, eða hvernig Finn var strax ekki slátraður í dúói gegn Ren). Dauði Han Solo er líka sterkur á blaði, en ansi hryllilega meðhöndlaður. Abrams mjólkar þetta móment eins og hann getur í stað þess að frekar gera þetta meira að höggi (hugsið um Serenity). Voða máttlaust allt, eins og þetta furðulega þyrluskot í blálokin. Aftur, töff hugmynd, bara undarlega unnin. Og eins og ég digga nú hönnunina og nafnið á Starkiller Base (sumsé túrbó-Helstirninu) þá er orðið fullmikið að núna höfum við þrjá kafla, tvo í röð, sem í grunninn eru byggðir í kringum sama klæmaxinn.

3502

Vonandi mun næsta saga ekki freistast svona oft til þess að blikka til aðdáenda. Hvernig þessi kafli verður metinn í gæðum næstu árin veltur algerlega á því hvernig Episode VIII mun halda á sínum spilum. Hef fulla trú á Rian Johnson (Brothers Bloom, Looper) og enn meir ef handritið er algerlega Abrams-laust. Hinu stjarnfræðilega lága gæðamarkmiði að toppa I-III hefur annars verið náð og þessi heldur betri dampi en Jedi að mínu mati. Hún nýtur einnig góðs af því að vera hugsanlega best leikna myndin í seríunni, hvað sem það segir.

The Force Awakens er stundum þvinguð, stundum bráðfyndin, eitthvað gölluð en með umhyggjuna á sínum stað líka. Sumsé, ljúffeng og tímabær huggunarfæða fyrir aðdáendur sem lagar eitthvað af gömlum sárum sem tímanum tókst ekki að gera. Poppkornsbíó með innbyggðri kærkominni bjartsýni, massífri kynslóðarsameiningu (munið, Star Wars er ekki bara fyrir börnin, heldur krakkann í okkur) og leikur sér af og til með föstu hefðirnar á milli þess að endurnýja þær.

 

7

 

Besta senan:
Fálkaflóttinn.

 

Ein athugasemd við “Star Wars: Episode VII – The Force Awakens

Sammála/ósammála?