The Hateful Eight

Titillinn á The Hateful Eight er ekki bara greinilegur og töff snúningur á eitt þekktasta vestrateymi allra tíma, heldur hrein og bein viðvörun. Það hefur komið mér smávegis á óvart þegar ég sé fólk gagnrýna myndina fyrir að vera andstyggileg, níhilísk og laus við siðgæðiskompás þegar allur grunnurinn byggist á því að sameina átta ómanneskjuleg kvikindi undir eitt þak í langri bíósetu (tæpir þrír tímar, takk fyrir) og sjá hvað skeður.

Engin tiltekin hetja í sögunni, enginn til að halda neitt sérstaklega með, allir bara misjafnlega ógeðfelldir og þar með er þetta að eðlisfari grimmasta myndin frá Quentin Tarantino til þessa. Það er mikið sagt, og eiginlega merkilegra þar sem myndin gerist mest öll í einum kofa – og farþegavagni.

quentin_tarantino_78887

Tarantino er þó að gera meira en bara að ögra, dást að eigin brögðum og reyna á þolinmæði þeirra sem horfa oft á myndir gegnum síma eða með öðru auganu, og umlykur hann öllum þessum samræðum með duldri karakterdýpt, kaþarsis-drifnum smágjörðum, gegnumgangandi kommenteríu á fordóma og mannlegt eðli. Períódan neglir það líka vel niður hvernig sumt í okkur hefur breyst gegnum tímann en annað ekki. Eins og það alflest frá leikstjóranum upplifði ég þessa mynd þannig að smáatriðin gerðu hana betri í öðru áhorfi.

Örugglega erfið mynd fyrir marga, pjúra djöfulleg fyrir suma og hægi bruninn getur reynst einhverjum pínlegur, en annars vegar er hún sjúkt fyndin og stöðugt skemmtileg ef þú kannt að meta taktinn hjá Tino. Hann veit alveg hvað hann syngur með þolinmæðinni, lengdinni og þessum (lyga)samspilum karaktera sem hann leikur sér að. Það er eins og hann sé aftur stiginn að indí-rótum sínum. Eftir aldamótin átti hann það svolítið til að stækka við sig í nýjum hasaráskorunum en The Hateful Eight er algjör leikhússaga, en kallinn stenst auðvitað ekki mátið að dressa hana upp með eins miklu stílpunti og hann getur.

the-hateful-eight-still-1

Robert Richardson klikkar ekki á vélinni frekar en áður. Snjóvestrafílingurinn rammar sig yndislega inn í útisenunum en innandyra gerir súper-víða (Ultra Panavision 70) breiðtjaldið þessu bíóleikhúsi extra góð skil og býsna frumleg skil, enda sérkennileg en samt fersk notkun á vélum sem voru upphaflega hannaðar fyrir umfangsríkari verk.

Quentin hefur annars verið duglegur að gera vandaða virðingarvotta og tribjút-senur sem snúa beint að spagettívestrum Sergio Leone, en The Hateful Eight er hans fyrsta mynd sem algjörlega tekur form vestrans og mótar sína eigin sköpun úr því. Sem áður sækir hann í vaxandi tensjón, senustrúktúr og langa spretti eins og meistari Leone, en hér er það snjóstormurinn, noja karaktera með tilheyrandi innilokunarkennd og glæsilega skeggjuðum Kurt Russell sem svipar mikið til klassíkinnar The Thing frá Carpenter – með Agötu Christie einkennum þarna stráðum inn. En blóðtengingin á milli tveggja stærstu áhrifavaldana er hjá tónsnillingnum Ennio Morricone, og hér er bæði stuðst við frumsamda músík frá kappanum og ónotað stef úr The Thing.

Að grípa gamla Morricone-tóna af lagernum er með því sjálfsagðasta sem þú finnur á ferli Tarantinos en örsjaldan hefur gefið tónsmiðum það „vald“ að semja eitthvað frá grunni sem fangar heildartón verksins. Inn á milli hefur hann þegið vissa búta, en Morricone sjálfur, átrúnaðargoð leikstjórans, fékk fullt frelsi til að móta aðalþema myndarinnar með smávegis auka, og brillerar að sjálfsögðu. Öll músíkin er svöl og viðeigandi drungaleg eða melankólísk. Á þessum sultuslaka hraða gefst líka meira en nægilegur tími fyrir tónlistina að troða sér hvar sem gefst og anda út.

The-Hateful-Eight-Trailer-Samuel-L.-Jackson-1024x371

Sem hans lengsta og trúlega einfaldasta mynd er The Hateful Eight smávegis í því að kanna mörkin um hve óbeislaður og örlátur leikstjórinn getur leyft sér að vera, en á sama tíma hefur hann ekki lengi sýnt eins mikinn aga fyrir að halda tóninum samheldnum, stað þess að flakka á milli. Algengustu kvartanirnar sem ég hef heyrt eru þær að myndin er lengi að drulla sér í gang en ég hefði ekki viljað skera hana niður um eina mínútu – en ég hefði ekki lengt hana heldur. Byggingin heldur sér og eftir ákveðinn tímapunkt sprettir afgangurinn hjá eins og flaug. Aðeins einn kafli nær ekki að halda sama gæðadampi og hinir, og hann heitir „The Four Passengers“, en það er aðallega því að veikasta persónan þarf að halda honum uppi.

„Plottið“ er sáraeinfalt en hver karakter er öðrum litríkari og sumir skemmtilega flóknir, því miður ekki allir og skyggir það á heildina. Nú er að vísu enginn Christoph Waltz til að stela senunni en á móti hefur fastari gestur hans, Samuel L. Jackson, aldrei fengið að skína betur (og sigrar alveg miðbik myndarinnar með ómetanlegum mónólog) enda enginn sem skrifar fyrir hann gullnar línur eins og Tino. Sammi fer létt með að dóminera myndina með viðveru sinni sem klárasta kvikindið í herberginu en litlu síðri eru Jennifer Jason Leigh (hvílík endurkoma!), Walton Goggins, Bruce Dern og helskemmtilegur Kurt Russell.

tim-roth-walton-goggins-hateful-eight-xlarge.jpg

Hressandi er líka að sjá gamla góða Tim Roth stíga aftur inn í Tarantino-víddina og kemur hann býsna vel út í b-liðinu með Damien Bichir (einn sem er ekki að leyna Tuco-eftirhermuna sína) og Michael Madsen (sem urrar eins og hann sé enn í Kill Bill-gírnum sínum). En þegar svona öflugt lið leikara fær að tyggja þennan stílíska díalog og sýna hvað þeir geta er kannski skiljanlegt að gæi eins og Channing Tatum haldi sér ekki alveg á pari, en allir sem hafa séð myndina vita að það er eitthvað ótrúlega erfitt við það að setja samt of mikið út á hans viðveru.

The Hateful Eight er minimalísk en skemmtilega yfirdrifin og illkvittin með bullandi stolti. Passjónið og skuggalega sjálfumgleðin lekur úr myndinni allri en með svona margar skemmtilegar samræður, sóðalega súbtexta, klikkaða karaktera, þeldökkan húmor, og þrælfallega umgjörð er það ekki kvörtunarefni frá mínum enda. Sem sterkur bónus er komin ný subbuleg og snæfríð hátíðarmynd í safnið, enda verður ræman sjaldan dýrmætari en þegar jólanóturnar eru slegnar.

„Startin‘ to see pictures, ain‘t ya?“

brill

Besta senan:
„Warm black dingus“

Sammála/ósammála?