Spectre

Allir James Bond-unnendur eiga sér ekki bara einn leikara sem er – og verður alltaf – spæjarinn fyrir þeim, heldur hafa allir læstar og ólíkar myndir af því hvað gerir ‘alvöru’ Bond-afþreyingu góða. Sumir vilja hann hálf hallærislegan og flippaðan, aðrir aðeins meira röff og þjáðari eða einhvers staðar á milli. Daniel Craig tímabilið hefur ýmsum þótt þurrt og fullalvarlegt. En mér hefur sjálfum fundist hans nálgun vera athyglisverð, og almennt kúl pæling að strengja flestar myndirnar saman í eina ‘continuity’ röð – a.m.k. þangað til að Spectre kom og eiginlega klúðraði því.

Loforðið sem hófst með Casino Royale hefur farið upp og niður. Sú mynd var tilkomumikil endurræsing og hefur þróunin á Craig-seríunni hægt og rólega ýtt henni í ýkta, ofurkjánalega Bondinn sem við þekkjum og elskum, eða ekki. Quantum of Solace fannst mér aldrei eiga skilið hatrið sem hún fékk, en eðlilegt er að sjá hana ekki sem neitt nema ‘The Bond Ultimatum’. Skyfall var þó algjör veisla og klassaða krúndjásnið í Craig-seríunni að mínu mati; vel skrifuð, meistaralega skotin og óhrædd við að taka áhættu. Þar ákvað líka Sam Mendes að leyfa Bond ekki lengur að apa eftir Jason Bourne og kom með glæsilega nýstárlega, stílíska nostalgíublöndu sem viðurkenndi að gömlu hefðirnar eru stundum bestar.

spectre-james-bond-007-daniel-craig-monica-bellucci-lea-seydoux-movie-review-2015-spectre-christoph-waltz

Með Spectre er Craig í fyrsta sinn kominn í eintak sem er fullkomlega hlynnt vanaföstu Bond-formúlunni (og veiðir m.a.s. nokkrar senur úr From Russia With Love, You Only Live Twice og Live and Let Die). Þá meina ég sérstaklega camp-fílingnum. Úr verður þá kjánalega heimskuleg spennumynd sem stillir sér sem kaldur, dramatískur hasarþriller að auki. Áhugaverð blanda en þessi stíll hentar ekki alveg grafalvarleika Craigs, leikstjóranum við tauminn eða lengdinni og það eru alnokkrir sprettir þar sem myndin er í hættu að svæfa sig sjálfa. Það verður ekki minna fúlt þegar á það er litið að aldrei hefur verið gerð lengri Bond-mynd.

Fram að þessu hefur Craig verið afberandi góður Bond, trompandi Connery léttilega á sínum besta degi og á meðal fárra leikara í hlutverkinu sem hafði einhverja reynslu af tilþrifamiklum dramatöktum. En í Spectre kemur út eins og Craig sé algjörlega ekki að nenna þessu lengur, þannig að ekkert kemur þá til greina en að vera svipbrigðalaus og á sjálfsstýringu. Hentar svosem kalda morðingjanum í honum en ólíkt Casino og Skyfall er ekkert athyglisvert gert við hann eða hans sækólógíu. Hún reynir það að vissu leyti með nokkrum stórum en illilega hálfbökuðum fléttum og þar er einmitt myndin alveg úti á þekju. Hún virðist ekkert vita hvað á að gera við þetta illmenni sitt og SPECTRE-samtökin reynast ekkert ógnvægilegri eða merkilegri en þegar þau hétu seinast ‘Quantum’. Mendes ætti að vera sektaður fyrir það að nýta Christoph Waltz svona illa.

128vbfdhre0-apJ

Spectre fer samt ekki almennilega í klessu fyrr en í seinni helmingnum. Hún er á ágætisróli fram að því, með nokkrum dauðum pörtum á milli. En fjögurra mínútna „óslitna“ tracking-skotið í blábyrjuninni er geðbilaðslega flott – áður en grænu tjöldin sjást – og allar bestu hasarsenurnar bregða fyrir áður en öll svör formlega skýrast. Það er tekinn nýr, segjum persónulegri vinkill á bakgrunn Bonds sem er ekkert nema hlægilegur. Eins og ég nefndi þá fíla ég hugmyndina að halda gegnumgangandi tengingu milli mynda, en þarna fannst ekki alveg rétta leiðin. Ef eitthvað dregur þetta bara hinar myndirnar á lægri stall.

Í jákvæðari dúr er Lea Seydoux stórgóð. Samband hennar við Craig virkar ekki alveg (eins og einhverjar senur vanti) en þau spila vel á móti hvort öðru í nánari, smærri senunum. Leiðinlegt þó hversu lítið var gert við hina ávallt flottu Monicu Bellucci, en hún nýtir báðar sínar mínútur vel. Dave Bautista er einnig góður sem dæmigerður „þögg“ og ég get ekki í hálfa sekúndu sett út á það að Ralph Fiennes og Ben Whishaw – sumsé M og Q – fái stærri og virkari þátttöku í plottinu m.v. áður fyrr. Þeir eru þrælskemmtilegir báðir, eiginlega það besta við myndina sökum þess að mest allur húmorinn og fjörið komi frá þeim.

Útlitslega er margt til að dást að. Fínir tökustaðir við og við og Hoyt van Hoytema (Tinker Tailor Soldier Spy, Interstellar) heldur stílískt hrárri áferð á tökuvélinni sem hefði miklu betur passað við þriller með töluvert fleiri heilasellur. Einhvers staðar í þessari mynd er grafinn niðri heimskulega yfirdrifinn Roger Moore-ískur farsi (hvernig öðruvísi hefði skutlan hún Seydoux öðruvísi bara skyndilega útvegað sér glæsilegan kjól á miðjum flótta? og í lest!), en það er eins og kamerumaðurinn og leikstjórinn séu að ítrekað reyna að berja hann niður með holóttum alvarleika.

Review-Spectre-e1446210814907

Flestar Bond-myndir hafa aldrei reynt að vera hágæðakvikmyndir hvort sem er, nema með völdum undantekningum, en Spectre vill vera bæði fullnægjandi Bond-mynd og eitthvað miklu meira. Ég rétt næ að gúddera hana á pjúru – en teygðu – afþreyingarleveli sem Bond-mynd en þrillerinn sem hún ætlar sér að vera molnar alveg í sundur. Skortur á góðu replay-gildi gefur henni heldur ekki mjög langt líf í seríunni sem hún tilheyrir.

Heildarálit mitt á þessari mynd speglar svolítið hvað mér finnst um Sam Smith-lagið: ekki slæmt, ýmsir góðir partar en ferlega flatt í hæstu sveiflunum og skilur ekki fílinginn eftir sig sem það vildi. Craig hefði mátt klára vaktina sína í öflugri mynd en miðað við hvernig hnútarnir eru hnýttir er trúlega sniðugast að slútta þessu hér. Áhugaleysi Craigs sýnir annars bara að Kingsman (sem er enn skemmtilegasta njósnaramyndin frá 2015) gæti vel haft rétt fyrir sér, að komið er gott af alvarleikanum í bili og alveg kominn tími á nýjan tón, meira skemmtanagildi og fjölbreyttari hugmyndir.

 

fin

(Gjafmild sexa)

 

En ef fólki dauðleiðist yfir Spectre er í það minnsta hægt að nýta tímann til þess að bera saman hvað þær Mission: Impossible – Rogue Nation eru skuggalega líkar… en þá muntu hvort sem er bara vilja horfa á þá mynd aftur í staðinn – og af hverju ekki? Hún er umtalsvert sterkari. Sama get ég meira að segja sagt um hina dásamlega vanmetnu The Man from U.N.C.L.E.

 

Besta senan:
Opnunarskotið, og lestarslagurinn.

 

Sammála/ósammála?