The Revenant

Svakalegur þessi Leó. Hann aldeilis ætlar sér að fá þennan Óskar, sama hversu mikið hann þarf að öskra, skríða, misþyrma sér líkamlega, gretta sig eða horfa vítt framan í myndavélina, og það á ekki lengur bara við um bara Wolf of Wall Street og Django (mynd sem hann fékk – óskiljanlega – aldrei tilnefningu fyrir). En hvað sem þessi maður er ekki til í að sprengja sig út fyrir hverja áskorunina á eftir annarri, og ef hann gerir þetta bara til að sýna sig þá stendur hann sig óaðfinnanlega í því og oftast í höndum kröfuharðra leikstjóra. Í The Revenant lætur hann velta sér ítrekað upp úr kaldri drullu, étur hráa lifur, gargar, skríður og er sama og teygjandi öðrum arminum eftir gylltri styttu úr ramma.

Myndin er lauslega byggð á alvöru hremmingum og lífsbaráttu landkönnuðsins Hugh Glass í óbyggðum árið 1823 eftir að hafa orðið fyrir bjarnaárás. Eins og það sé ekki nægilega sympatísk staða er hann í kjölfarið skilinn eftir af liðsmönnum sínum, illa særður, vopnalaus og svikinn að auki. Hér er maður sem mun sérdeilis finna fyrir því hversu köld hefndin getur verið og hvað mun þurfa til að komast lífs af.

Eins og Glass er hér túlkaður er ekki mjög fjöllaga rulla í boði, né markar þetta það besta sem ég hef séð frá DiCaprio. Líka er erfitt að neita því að lamandi alvarleikinn gæti reynst pínu kómískur undir röngum glápskringumstæðum. Þessi tónn gerir það líka að verkum að það reynir á trúðverðugleikann hvað sumar aðstæður verða ansi yfirdrifnar, og fyrir allt það helvíti sem DiCaprio/Glass gengur í gegnum er oft með ólíkindum hve heppinn hann verður einnig. Ég útiloka það ekki heldur að einhver annar hágæðaleikari, kannski aðeins meira ‘röff’ að eðlisfari, hefði getað púllað þetta betur. Ekkert út á performansinn beinlínis að setja en ég er viss um að þú getir sett þriðja hvern einstakling í sumar þessar tökur úti í helkaldri náttúrunni og fengið út sannfærandi ströggl-svipi og þjáningsstunur. En þetta er Leó, sem þýðir að sjá hann standast sína mest krefjandi líkamsþolraun verður aldrei annað en nokkuð mögnuð sjón sama hvað.

revenant-snow-xlarge

Mexíkóski fagmaðurinn Alejandro Gonzáles Iñárritu (eldheitur enn eftir Birdman sigurinn) hefur ekki gert það auðvelt fyrir leikara sínum í náttúrunni frekar en öðrum þarna með honum, en áþreifanleikinn í strögglinu er meira eða minna tilgangurinn. Þessi einfalda litla saga flyst upp í eitthvað stórfenglegra með stílauga áferð leikstjóra síns (og auðvitað kamerumannsins) og beru, hægu frásögn um baráttu eins manns gegn náttúruöflunum og hversu þrautseig og viljasterk mannskepnan getur verið. Þeim þemum er svolítið þrýst ofan í okkur (að auki eru drauma- og flassbakksenur hér og þar sem ekki alveg virka í rennslinu) og Iñárritu er ekki óvanur því að mjaka sér upp úr örvæntingu linnulaust, en martraðartökurnar og framleiðsluvesenið virðist hafa skilað sér með einu brútalt grípandi atmódrama og spennuþriller í sama skríðandi pakkanum. Minnir á Malick-mynd, bara þrefalt meira spennandi, með skýrari fókus en miklu minna að segja. Það er líka þarna sterk DNA-tenging við Malick í tökustílnum.

Á tæknilegu leveli er The Revenant mikið meistaraverk (lúkk, sett, búningar, nefnið það…) en heilt yfir flott hefndarsaga. Ofan á það eru fáránlega mörg stórgrípandi atriði hér að finna, hvort sem það er meistaralega gerða bjarnaárásin, eitt grjóthart einvígi eða árásin í upphafinu sem sparkar myndinni í gang með ótrúlegu afli. Iñárritu er reyndar mikið fyrir það að blása út þessar metafórur en innihaldið býður ekki upp á mikla dýpt og lengdin aðeins örlátari en hún þurfti að vera.

279258

Við kynnumst ekki hinum fámála Glass neitt sérstaklega mikið, né nána sambandi hans við son hans, áður en framvindan fer í gang. Empatíkin og tengipunktur áhorfandans kemur allur frá þjáningu leiðangursins, því hún er átakanleg á tíðum, en umhyggjan sem slík er takmörkuð. Það er heldur ekki erfitt að sogast inn í mótiveringu hans þegar Tom Hardy er svona yndislega ógeðfelldur á móti. Af leikaravalinu er skiljanlegt að allir ræði mest um Leó, enda bókstaflega mest í fókus og krassandi nærmyndum út alla lengdina. Hardy fannst mér persónulega sterkari. Villimannslegur og óskýrmæltur eins og honum er lagið en hann fær athyglisverðari karakter (eins lítið og það segir) og dregur stóran „gritt“ fiðring með sér. Domhnall Gleeson og Will Poulter hafa líka miklu við að bæta.’

Það er leikstjóranum aldið sem hann hefur til að sjá til þess að áhorfandinn æfi rassavöðvana af spenningi honum öllum í hag. En stórt kredit myndarinnar skrifast líka á „Chivo“ Lubezki á tökuvélinni. Andrúmsloftið hjá þessum síáreiðanlega kamerusnillingi bindur þetta allt saman og fangar fullkomlega fegurðina og ljótleikann í innihaldinu. Vélin svífur í kringum leikaranna og aksjónið eins og maður finni aldrei fyrir henni (þangað til að eitthvað skvettist á linsuna… varð stundum stílískt truflandi). Öll skotin í náttúrulegu ljósi og andar út hráum realisma og draumkenndum væb. Myndatakan er löðrandi í löngum, flóknum skotum og römmum sem erfitt er að gleyma. Ég vildi að ég gæti sagt eitthvað sambærilega hæperbólískt um tónlistina, sem er oftar niðurdrepandi frekar en eftirminnileg.

Hvort sem fólk helst límt við hana frá fyrstu senunum eða geispar yfir endurtekningunum er öruggt mál að myndin sker sig úr og brennir sig í minnið með ýmsum hætti.  Hún kallar eftir sérstöku múdi áður en þú sest niður og horfir á hana. Samt er hún aðgengileg, sikk spennandi og þrátt fyrir nokkra óslípaða enda er upplifunin svo klikkaðslega kröftug á bestu stöðum. Kannski ekki alveg snilldarverkið sem Iñárritu vonaðist eftir (og meira að segja Tom Hardy sjálfur átti meira grípandi og töff ferðalag í annarri mynd frá 2015) en vægast sagt aðdáunarvert kvikindi.

 

gedveik

 

Besta senan:
Bangsaknús.

Sammála/ósammála?