Deadpool

Þrátt fyrir að aðdáendur hafi lengi betlað eftir almennilegum Deadpool, í kjölfar þeirrar epískt misheppnaðu túlkunar sem karakterinn hlaut í X-Origins: Wolverine, gæti þessi bíómynd varla komið á betri tíma. Þegar ofurhetjugeirinn gerir fátt nema að vaxa, víkka út og slást um leikfangasölur kemur ein lítil mynd og inniheldur margt af því sem stúdíómyndirnar hafa vanalega ekki: stóran kjaft, sarp af typpabröndurum og gígantíska meðvitund fyrir sér sjálfri. Það tók ekki nema fjórar misheppnaðar hasarblaðarullur til þess að Ryan Reynolds gæti loksins smellpassað einhvers staðar og verið til mikils gagns í einni þeirra.

Deadpool-aðdáendur – í þeim yfirleitt unga aldurshópi sem þeir spanna – búast náttúrulega ekki við öðru en hér er mynd sem bara hlær að klisjum, pissar á formúlur, rýfur fjórða vegginn reglulega, segir hvað sem henni sýnist (leggur m.a.s. Fox í hressilegt einelti) og er sísnertandi sig yfir eigin ofbeldishneigð… og öðru.

deadpool-gallery-06-gallery-image

Hún kemur út eins og einhver hæper-reiður og kaldhæðinn unglingur hafi krotað ofan í týpískt origin-/hefndarsöguhandrit og tekist að fá stúdíó til að fjármagna niðurstöðuna, svartsýn, hégómafull og barnaleg eins og hún getur verið. En besta hrósið sem ég get gefið mynd sem var örugglega ekki hönnuð fyrir mig er að ég naut mín í fokkin’ tætlur.

Í myndasögunum (og fáeinum teiknimyndum) hefur Deadpool oftar en ekki verið betri í skömmtum. Það er þunn lína milli þess að gera karakterinn annaðhvort að frussandi snilld eða einstaklega pirrandi, þó svo að það sé meira eða minna tilgangurinn. En rakettan sem lyftir ræmunni upp skrifast öll á það hve mikið Ryan smellpassar þar sem hann er og gefur gæjanum allt sitt líf. Hann og fleiri eru í svo baneitruðu stuði; tónninn er þar að auki sæmilega balansaður. Myndin er fersk á réttum stöðum og verður aldrei fullyfirdrifin, níhilísk eða ódýr bara vegna þess að hún telur sig komast upp með það. Sándtrakkið smitar líka af sér helberri dásemd og nýtingin á ’80s slögurum frá Juice Newton og Wham! er meiriháttar kryddauki.

deadpool-upside-down.png

Myndin er öll útötuð í meta-narratífu en eitt það besta sem Reynolds gerir er að ná sínum sjarma gegnum yndislega ruglaðan og siðblindan karakter þegar þörf er á því. Samband hans og Morenu Baccarin er líka viðkunnanlega krúttlegt – innan marka – án þess að handritið geri þau mistök að breyta myndinni í annað en hún gerir grín að. Það stendur alltaf eftir aragrúa af línum eða skotum og hvort sem þau varða tímalínur, Ikea-húsgögn, Wolverine, manninn sem leikur hann eða hvers sem er, ég pissaði nánast úr hlátri yfir mörgum þeirra og sat sáttur með það að trailerarnir sýndu ekki helminginn af bestu brotunum.

Söguþráðurinn er skítþunnur, hlægilega beisikk reyndar og væri ekki fyrir stöðuga brandaraflóðið og attitjúdið væri lítið sem myndi aðgreina hana frá öðrum origin-sögum. Myndin líður líka hvað mest fyrir það hvað illmennið er mikið ‚bla‘. Við fáum skúrk sem virðist virka meira spennandi á blaði en ekkert slíkt skín gegnum hann Ed Skrein (ekkert á móti Skrein þó, nema þegar hann þykist vera Jason Statham). Eitthvað verður það samt að segjast merkilegt að T.J. Miller leiki trúlega mest ‘normal’ aðilann í myndinni.

deadpool-gallery-05-gallery-image

Við hvert tækifæri reyna samt handritshöfundarnir (sem eru þeir sömu og gáfu okkur Zombieland-reglurnar) að spila með stefnur og væntingar. Það núllast eiginlega strax út um leið og myndin byrjar (með hreinskilnasta upphafskreditlista allra tíma?) að þú eigir eða getir tekið hana eða titilkarakterinn of alvarlega. Nokkrir kaflar í myndinni og ýmsir straumar sem snúa að ástarsögunni vilja hins vegar að þú gerir það, en í svona mikilli djók-maskínu getur það orðið erfitt. En á móti tekst manni að halda með kjaftóðu fígúrunni, eða í það minnsta upp á hann, í stað þess að vilja sjá munninn aftur saumaðan.

Myndin heldur líka stórgóðu flæði og pakkar eins miklu og þor stúdíósins, formúlan og peningurinn leyfir í hálfan annan tíma. Hún dvelur líka aldrei of lengi á einum brandara, ef einn feilar er mjög stutt í þann næsta. Myndin reynir líka miskunnarlaust að afsaka innbyggðu galla sína (eins og af hverju X-mennirnir eru bara tveir) með því gera grín að þeim. Gallarnir standa samt eftir, en myndin er að minnsta kosti samkvæm sér sjálfri og skotin – og djókarnir – yfirleitt lenda.

Heldur má ekki skima yfir það hvað búningurinn er óvenjulega vel heppnaður. Fyrir utan töff hönnun, þessari sléttu kóperingu á myndasögulúkkinu, styrkir það karakterinn að notast við tölvubrellur til þess að gefa grímunni tjáningar í augnsvipunum. Lítið en mikilvægt smáatriði. Miðað við fjármagnið virka brellurnar almennt ágætlega, eitthvað óslípaðar við og við – eins og metnaðurinn að halda Colossus 100% tölvugerðum, þ.a.l. gerandi hann að algjörri teiknimyndapersónu.

Casdlb1WcAE5sU6

Samt, með því að ná að ná að troða sér aftur og propper inn í uppstilltan X-Men heiminn kemur Deadpool eins og nauðsynlegt rafstuð í sívaxandi ofurhetjugeirann – og ber höfuð og herðar með hreðjarnar yfir nokkru sem DisneyMarvel myndi þora að henda út. Með þessu eina litla hliðareintaki er X-Men serían allt í einu orðin örlítið svalari, út af einmitt þessum ástæðum.

Myndin er skemmtun og ekkert meira, en toppskemmtun, berþunn en hröð og skemmtileg ef þú veist hverju þú átt von á. Deadpool-karakterinn, eins og áður sagði, nærist á því að reyna á þolinmæði margra og hans síkjaftandi sjálfumgleði og rúnkþörf fyrir hörðu ofbeldi útilokar ýmsa hópa. Feginn er ég samt að vera ekki á þeirra meðal því ég vil endilega meira.

(létt átta)

gedveik

Besta senan:
„Heard of the one legged man in the ass-kicking contest?“

Sammála/ósammála?