Hail, Caesar

Fyrir Coen-unnendur er alltaf að gaman að sjá þá létta svona hressilega af sér eftir þyngri bitana (Inside Llewyn Davis í tilfellinu síðast), eins og bræðurnir leyfi sér bara að njóta sín með romp-myndum þar sem skrautlegir karakterar sjá svolítið að um sig sjálfa. Hail, Caesar er ekki mynd sem fer með neinu móti í hágæða Coen-flokk, en ef þú fílaðir t.d.Burn After Reading og ‘stefnulausa’ farsagang hennar – og annarra mynda þeirra – þá er hún eitthvað til að dýrka. Eða í það minnsta margt til að dýrka í henni.

Gegnumgangandi þemu bræðrana eru hér að finna (peningagræðgi, listsköpun vs. málamiðlun o.fl.) og myndin hefur greinilega meira að segja en hún ræður við miðað við innihald, en hér snýst þó fyrst og fremst allt um trú, í ýmsum djókformum. Allt er síðan filterað gegnum kostulegan períódufarsa og hugmyndasúpu (pólitíska, trúfræðilega… nefnið það) sem gengur út á að sýna fjölbreytta kraft kvikmyndanna, fantasíusjal þeirra og dásamlega kaósið innan veggja stúdíóanna í gamla daga. Það er rökræðusena snemma í myndinni þar sem Josh Brolin, sem fer með aðalhlutverkið sem „reddarinn“ í kvikmyndaverinu, sest niður með fjórum ólíkum prestum til að kanna hvort túlkunin á Krist í nýjustu stórmynd þeirra, ‘Hail, Caesar’ sé innan sómasamlegra marka eða ekki. Gjörsamlega brilljant samtal sem gefur góðan tón fyrir afganginn.

hail-caesar-alden-ehrenrich-ralph-fiennes-1

Það er nóg af litlum eða löngum senum í þessari mynd sem eru bráðfyndnar, snjallar og bara hreint æðislegar út af fyrir sig – og eiginlega allt sem viðkemur Ralph Fiennes og virta leikstjórann sem hann leikur er snilld („Would That It‘were So Simple“). En þannig er öll myndin, bara samansafn af lauslega tengdum, mislitríkum – og sumum langdregnum – atriðum sem hnoðast ekkert í voðalega fullnægjandi söguheild.

Karaktersamskiptin, samræðurnar og auðvitað þetta þéttpakkaða cast‘ið fær toppeinkunn en að frátöldum Brolin koma bara persónur, hanga smá og hverfa (og sumir af þekktari leikurum hópsins eiga ekki nema eina senu, þar á meðal Jonah Hill og Frances McDormand). En allir leikarar með tölu hafa miklu við að bæta; Brolin er góður, sömuleiðis George Clooney, Scarlett Johansson, tvöföld Tilda Swinton og Channing Tatum, sem fær tækifærið til þess að sýna hversu vel hann púllar sig í gamaldags söngva- og dansnúmeri, og ómótstæðilega hómóerótísku að auki. Guttinn hann Ehren Aldenrich (úr Tetro og Beautiful Creatures) gæti hins vegar verið senuþjófurinn.

maxresdefault (4)

Hverfur ekki þessi tilfinning eins og Coen-bræður séu bara að slaka á og hlæja með þessum skemmtilega hópi, en bræðurnir í afslökun bjóða yfirleitt upp á útpældara handrit heldur en finnst oft frá síðri gæjum sem leggja allt undir. Bræðurnir maukfylla sýningartímann líka með tilvísunum í þekktar bransa(slúður/kommúnista)sögur og stjörnur og persónulegri útreið. Tæknivinnslan er líka öll til mikillar fyrirmyndar og Roger Deakinsfangar tímabilið glæsilega á kamerunni, en oftast þarf maður ekki annað en bara að vita að hann er á vélinni og það er ávísun á óaðfinnanlegt lúkk.

Sérstakur pakki samt. Hail, Caesar er vel skrifuð, þrælfyndin, lifandi ‘sketsamynd’ en í senn púlslaus á tíðum, drollar smávegis og skilur á endanum lítið eftir sig yfir. Þó skín einhver eðalsjarmi í gegnum þennan þvælda en huggulega óð til bransafarsans á gullaldartímunum. Gott sprell.

 

7
Besta senan:
Laurence Laurentz missir þolinmæðina.

Sammála/ósammála?