Spotlight

Eitt það besta við Spotlight er hvernig hún stórgræðir á öllu sem hún kýs að ekki gera. Hún fjallar um grafalvarlegt málefni en ákveður aldrei að minna þig á það á óþörfu, t.d. með því að spila með tilfinningar áhorfenda, bjóða upp á rembingsfullar dramatíseringar eða segja þér hvernig skal líða að henni lokinni. Í staðinn velur hún mjög hversdagslega (nánast flugu-á-vegg…)- nálgun sem á móti gerir virkilega sterkt handrit mun kröftugra.

Staðreyndirnar sem hún hendir út gera hvaða heilvita manneskju andlega flökurt og/eða frústreraða en hérna er rakin rannsóknarvinna blaðateymsins Spotlight hjá Boston Globe og afhjúpun þess á barnaníði innan kaþólsku kirkjunnar. Myndin er þó ekki bara átómatískt sterk vegna þess að raunasagan er sjokkerandi. Það spilar auðvitað einhvern þátt jú, en úrvinnslan getur af sér faglega kvikmyndaðri og unninni endursögn, borin uppi af grípandi samræðum og leikstjórn sem heldur fullkomnum taum á tón og tæklun efnisins. Þetta er þolinmóð og hæg krufning á þöggun, valdamisnotkun sem og hugarfari, drífanda eða samvisku þeirra sem hylja yfir slíkt eða vernda gerendur.

Karakterstúdía er myndin ekki, narratífan snýst öll um afhjúpanir og andlegar hreinsanir. Við kynnumst ekkert blaðamönnunum helstu gríðarlega mikið í persónulega lífinu eða almennum prófíl, en þó nógu mikið til þess að vita hvernig þeir eru og fúnkera. Framvindan punktar niður áhrif, fórnir þeirra og tilfinningasveiflur í vinnu sinni, og við sem áhorfendur tengjum okkur beint við þeirra viðbrögð við nýjar fréttir af skandölunum. Allir leikararnir með tölu eru hátt í gallalausir – Michael Keaton, Rachel McAdams, Brian d‘Arcy James, Liev Schreiber, John Slattery en bestir að mínu mati eru hinir endalaust áreiðanlegu Mark Ruffalo (sem er býsna magnaður hér með sína litlu kæki) og Stanley Tucci.

Þó svo að þú veist niðurstöðuna í málinu og hvernig blaðamannahópurinn nær sínu markmiði á endanum (og brandarar um kaþólska presta fóru hratt fjölgandi eftir þetta tímabil) verður myndin samt sem áður spennandi allan tímann. Hún sjokkerar smá án þess að hafa of hátt um sig eða detta í ofkeyrð „bíómóment“ eða dramakafla sem auglýsa sig. Myndin er ekki einu sinni svo upptekin að eigin sitjanda að aldrei er nefnt það í myndinni að umrædda greinin eða grúppan á bakvið hana hafi fengið Pulitzer-verðlaun. Einnig er undarlega hressandi að sjá bandaríska mynd þar sem sagan skerst inn á tímalínu 11. September án þess að sé gerður mikill ‚díll‘ úr því. Á tímapunktinum þegar ég hélt að dramafaktorinn ætlaði að gefa undan er einfaldlega hlupið yfir það og aldrei týnist fókusinn á gegnumgangandi kjarnaþræðinum. Myndin er hæg en þú finnur alltaf fyrir hjólum hennar að snúast.

Þessi Tom McCarthy hefur átt áhugaverðan leikstjóraferil, með virta smátitla eins og Win-Win og The Visitor og seinast sorpmyndina The Cobbler með Adam Sandler. Sjaldan hef ég séð einn mann vippa sér svona sterkt á lappir eftir feilspor. Hér skrifar hann handritið ásamt Josh Singer en á bakvið kameruna módelar hann sig mikið við strúktúrinn á All the Presidents Men. Úrvinnslan er ekki alveg sama loftþétta meistaraverkið en með því að beisla sig svona og draga minni athygli á sér sjálfri tekst Spotlight að skilja heilmikinn dramakraft eftir sig. Að auki virðulegur óður til deyjandi prentmiðilsins og mikilvægi rannsóknarblaðamennsku.

Spotlight heldur þrusugóðu flæði og hreyfir við manni (eða skal maður segja snerta?) á réttum stöðum. Hún skapar samræður og tilgerðarlausi taumurinn gerir hana að mögnuðu stykki sem frá mínum enda á skilið allt sitt umtal og verðlaunahlassið sem hún hefur hlotið…
brill

Besta senan:
Ruffalo missir kúlið sitt.

Sammála/ósammála?