Victoria

Því verður ekki neitað að það er gríðarlega spennandi að fylgjast með heilli bíómynd spilast út í óbrotinni töku, sérstaklega ef þú hefur áhuga á kvikmyndagerð. Þess vegna er Victoria ekki lengi að græja sér þau meðmæli að hún er, á tæknilegu leveli, gríðarlega aðdáunarverð, jarðbundin og lifandi upplifun.

Það er einmitt gallinn, mest allt lofið fer í það að slefa yfir samsetningunni og skipulagserfiðunum sem hefur farið í það að sýna tvo (+) klukkutíma í lífi einnar manneskju í skýrum rauntíma. Eftir því sem lengra á líður hverfur aldrei þessi tilfinning þar sem kemur upp þessi hugsun („vó, þetta er enn sama skotið!“) í stað þess að bakka frá henni og skoða hvað er gert við söguna sem verið er að segja þér.

victoria-2015

Victoria er dramatískur þriller sem hefur ákaflega lítið kjöt á beinunum, en það getur verið auðvelt að gleyma því á meðan kameran er endalaust glædandi í kringum leikaranna (sem hefðu ekki þurft nema að hnerra eða gleyma einni línu til að allt hefði þurft að enda á byrjunarreit). Manni líður eins og sé eigi að vera einhver æðri tilgangur með þessum stíl sem ristir dýpra en að sjá til þess að þér líði eins og þú sért á staðnum eða þá „visceral“ spennu sem reynt er að gefa þér með framvindunni. Ég fann samt lítið fyrir slíku, sama hversu gargandi geðveik tilraunin er. En meira en hún ekki, bara flott tilraun þar sem ein góð leikkona og metnaðarfullur tökumaður öðlast þrælmagnað tromspil á sína ferilskrá.

Margir gagnrýndu Birdman fyrir að þóknast sér sjálfri fullmikið með stíl sem strengdi saman margar langar tökur þannig að heildin virtist kom út sem óslitin. Því er ég alls ekki sammála. Fyrir utan semí-sambærilegar stílíseringar er kannski ekki sanngjarnt að bera Birdman saman við þessa (en gerum það samt!). Birdman hafði a.m.k. meiri áhrif með sinni nálgun og naut góðs af því að vera með brilljant handrit til að punta upp á. Myndin gerðist líka á nokkrum vikum og notaði löngu tökurnar sem leið til að ampa upp súrrealismann og vekja upp eins konar galsa í áhorfendum sínum. Victoria, aftur á móti, þjáist fyrir það að efniviður sem hefði mátt stytta verður að eðlisfari lengri vegna þess að við þurfum endalaust að elta karaktera frá punkti A til B.

Á 130 óklipptum mínútum ferðumst við á rúmlega 20 tökustaði. Verra er að gefst aldrei neinn brjálaður tími til að þróa persónurnar – og þær eru alls ekki margar. Hún stendur sig reyndar ágætlega í að stilla upp atburðarásinni en það tekur myndina langan tíma að komast í annan gír.

victoria-schipper

Leikstjórinn Sebastian Schipper hefði örugglega ekki fengið sömu athyglina ef hann hefði brotið upp innihaldið (hefðu t.d. þrjár langar tökur verið eitthvað tryllingslega minna magnað?) en það hefði getað hjálpað til. Þegar allt snýst kringum það að ná kvikmyndinni rétt í einni sveiflu er hægt að bóka það að Schipper hafi verið líklegri til að sætta sig við smágalla sem gagnstæða við það að hafa úr mörgum skotum að velja. Að auki er lykilákvörðun hjá titilpersónunni, satt að segja þessi sem hrindir stóru atburðarásinni af stað, einhver sem ég náði hreinlega aldrei að kaupa. Kaldhæðnislega, þegar innihaldið kemst á ról og við tekur stöðugur eltingarleikur leið mér eins og spennan hafi farið síminnkandi, oft tengt því að sumar ákvarðanir sem hún Victoria tekur – eða tekur ekki – hanga ekki alveg saman.

Laia Costa stendur sig feiknavel í hlutverki hinnar einmana en lúmskt heillandi Victoriu. Hún leyfir alvöru manneskju að skína gegnum sandpappírsþunnan karakter og gerir eins mikið úr henni og aðstæður leyfa okkur til að koma okkur betur inn í kollinn á henni. Að sama skapi er Frederick Lau mest megnis traustur sem nýi, vafasami vinur hennar sem verður kveikiþráður þess að líf hennar og framtíð gjörbreytist á skömmum tíma. Aðeins beislaðri leikstjórn hefði leyft okkur að sjá meira unnið úr sambandi þeirra beggja.

victoria-2015-film

Á kamerunni segir það sig sjálft að Sturla Brandth Grøvlen (hinn sami og skaut Hrúta) sé ein stærsta hetjan í framleiðslunni og gefur hann oft höfðingjanum Chivo Lubezki lítið eftir. Það er þó vandi að maður finnur oft fyrir myndavélinni á stöðum þar sem betra er að límast við mómentið sjálft. Þú finnur yfirleitt fyrir því þegar upptökumaðurinn stekkur í bíl, upp og niður tröppur eða reynir t.d. að fela þá staðreynd að aðalleikkonan kunni ekkert á píanó, þó svo að hún eigi að vera afberandi góð. Ég er ekki með næmasta auga í heimi þegar kemur að því að fylgjast með því hvort leikarar séu í raun að spila á hljóðfæri sín, en þessi mikilvæga sena er í sérflokki. Að sama skapi leyna sér ekki tilfelli þar sem fáeinir hljóðgallar koma upp.

Meðmælin ná bara upp að vissu forvitnismarki en afraksturinn er auðvitað útlitslega séð nokkuð einstakur. Nóg til að dást að, lítið til að hanga á.

5

Besta senan:
Partíið stoppar.

Sammála/ósammála?