Anomalisa

Ekki er það lítið afrek að gera svona über-hversdagslega, tragíkómíska og manneskjulega litla sögu með brúðum. Segir sig líka sjálft að flest sem kemur úr hreinskilna, svartsýna en lúmskt heillandi heilabúinu hjá Charlie Kaufman sé alls ekki allra.

Þunglyndissýn Kaufmans spilar stórt hlutverk hér í handriti sem best má kalla bitra, skondna og súra stúderingu á manni sem er týndur í gráa fiðringnum og sér ekki fegurð eða ánægju nema í leiftrandi smáskömmtum, og þannig dulbýr sjarmi myndarinnar sig svolítið. Kaufman lagar þarna gamalt útvarpsleikrit sitt að stop-motion mynd í fullri lengd og deilir leikstjórakreditinu með Duke Johnson. Ferlega töfrandi blanda allt saman, fyrir utan þann mínus að leikritið hafi verið um helmingi styttra – og má alveg finna fyrir uppfyllingunum.

anomalisa-mag-02-1

Auðvelt er að dást að Kaufman fyrir einstöku, hugmyndaríku og óforskömmuðu rödd sína (og eins mikið og ég elska Adapatation eða Eternal Sunshine finnst mér Synecdoche, New York vera hans mikla meistarastykki). Anomalisa smellur hins vegar ekki alveg saman. Tek það ekki frá henni að stíllinn og umgjörðin er almennt stórkostleg og pökkuð alls konar smáatriðum. Raddleikararnir – allir þrír – eru góðir og það er harður og viðtengjanlegur áþreifanleiki sem Kaufman og Johnson skapa með nokkrum lykilsenum – og alnokkrum meinfyndnum mómentum – sem hitta beint í mark innan frústrerandi heildar.

Kaufman vill annars vegar að þú vitir alltaf að þú sért að horfa á brúður og felur ekki hönnunargalla þeirra (þó svo að það hefði ekki verið flókin vinna í eftirvinnslu að þurrka út línurnar sem brjóta upp andlitsföllin). Það var að vísu stílísering sem truflaði mig alltaf. Myndin reynir aðeins að kommentera á þetta, enda saga um gæja að brotna í sundur, en ekki nóg.

Þarna eru nokkrar fjöllaga senur, litlir súbtextar og öskrandi yfirtónar í henni en maður finnur sömuleiðis fyrir því að teygt hefur verið á sögu sem í grunninn er hvorki viðburðarrík né sérlega áhugaverð, og borin uppi af fullleiðinlegri aðalpersónu. Það eru til marglaga skíthælar og karakterar sem ná að vera skemmtilegir eða sjarmmerandi þrátt fyrir að vera viðbjóðslega gallaðir, en Michael Stone (talsettur með ágætum af David Thewlis), eins „mannlegur“ og hann er, er bara þurr, óviðkunnanlegur og þreytandi karakter.

1401x788-068-ANOMALISA-008R

Svo er það Lisa, sem Jennifer Jason-Leigh blæs ótrúlega miklu lífi í, en hún er heldur ekki mjög þrívíð eða spennandi persóna. Heillandi kannski, en ótrúverðug. Bestur er Tom Noonan í hlutverki allra annarra karaktera í myndinni, því fyrir Michael er heimurinn svo einsleitur að bókstaflega allir í kringum hann hljóma og lúkka eins.

Skilaboð sögunnar eru umræðuverð innan marka en undir yfirborðinu er ekki úr miklu að moða. Anomalisa kemur inn á einamanaleika, tengingarleysi og bölvunina að sjá veröldina frá mjög lokuðu sjónarhorni, en það er fátt og lítið sem Kaufman hefur að segja sem hann kom ekki þrefalt betur að í einum-tólfta af þemunum sem komu fyrir í Synecdoche, New York. Kannski verður hún betri því oftar sem ég sé hana, en tvær undanfarnar tilraunir hafa ekki gert mig vongóðan á það.
Og ekki að það eigi að skipta máli, en Team America er eiginlega búinn að skemma alla möguleika á því að hægt sé að taka ‘raunsætt’ kynlíf alvarlega í brúðumynd framar.

Leikararnir og samtölin standa samt upp úr, en þó svo að Kaufman komi þér áreynslulaust og vel í hausinn á manni eins og Michael þýðir ekki endilega að það sé hvorki forvitnilegur staður til að vera á eða spennandi bíósaga. En athyglisverð brúðusýning? sannarlega!

 

fin

Besta senan:
Michael mætir fyrrverandi.

Sammála/ósammála?