Gods of Egypt

 

Með betri brellum væri Gods of Egypt trúlega mjög flott og liti ekki eins mikið út fyrir að soðin saman úr tölvuleikjabrotum og leikurum að pósa fyrir framan berar sviðsmyndir og auð tjöld. Með örlítið slakari leik og ýktari búningahönnun væri hún kannski afberandi klámmynd með engu klámi. Skemmtileg hasarfantasía er hún allavega ekki. Þetta er ein heit óreiðusteypa; ekki beinlínis pínleg eða leiðinleg til gláps og það eitt er gott hrós fyrir mynd þar sem hver kolvitlausa ákvörðunin á eftir annarri hefur verið tekin í framleiðslunni. En mynd sem gefur þér stríð milli guða, geimorma, risasnáka, þrautir, undirheima og heimsendi ætti nú að eiga meira líf í sér en þetta.

Jupiter Ascending þessa árs er að minnsta kosti fundin… ef tölvuvinnan þar hefði verið helmingi verri, leikaravalið slakara (og það er mikið sagt), en þar með samt vefst sama spurning fyrir manni hvernig í ósköpunum svona stór, mislukkuð travestía eins og hún fékk fjármögnun til að byrja með.

151128124440-gods-of-egypt-exlarge-169

Ástralski kvikmyndagerðarmaðurinn Alex Proyas var eitt sinn á meðal forvitnilegustu og efnilegustu stílísta sem reis á tíunda áratugnum; leikstjóri með áhuga á poppaðri, sjónrænni frásögn, stórum fantasíuhugmyndum og sjónarspili. Hann hélt þeim tón og metnaði að mestu gangandi en fór makalaust versnandi með árunum – en honum til varnar hafa alflestar stúdíómyndir sem hann hefur unnið að átt ólukkulega eftirvinnslu, og hann auðvitað þrælvanur því að stangast á við framleiðendur.

Proyas gaf okkur einu sinni sci-fi gimsteininn Dark City og The Crow, en hvorki I, RobotKnowing gerðu honum mikla greiða, þó hin síðarnefnda hafi verið of (eða nógu…) brjáluð og hallærisleg til að vera eitthvað vonlaus. En Gods of Egypt lætur Knowing til samanburðar líta út eins og meistaraverkið sem Roger Ebert kallaði hana (óskiljanlega) á sínum tíma. Hér er skólabókadæmi um stórmynd sem setur keyrslu og brellur fram yfir nokkuð annað, sem er efnislega ógurlega lítið miðað við hráefnið og goðsagnirnar í boði, og merkilegt hvernig flest allir leikararnir í myndinni eru alrangir í hlutverk sín – ótengt kynþætti eða þjóðerni þeirra.

gods-of-egypt_nws3

Mögulega að frátöldum Geoffrey Rush og Chadwick Boseman þarf að gramsa lengi eftir jákvæðum punktum við þennan leikhóp. Nikolaj Coster-Waldau hefur útlitsbyggingu og sjarmabros hetjuguðs en sýnir ekki alveg sínar betri hliðar. Gerard Butler er síðan absolút úti að aka og rembist við að minnast betri tíma þar sem hann öskraði og lék sér í sandölum og fantasíu sem skaut honum upp í frægð. Vond ákvörðun. Allt þetta snýr samt minna að liðinu á skjánum og meira leikstílnum og bjánalegum línum. Myndin veit aldrei almennilega hvenær hún vill taka sig alvarlega og hvenær hún vill flippa eða henda út gamaldags hasarfrösum á milli ofurstílíseðra hasarsena.

Ég skil heldur ekki hvernig svona umfangsmikil mynd með 140 milljón dollara prís nær ekki að fela áferðina eins og hún sé næstum öll tekin upp innandyra fyrir framan blá tjöld. Vissir bútar líta þokkalega út en heildarlúkkið er ljótt og þegar í stóru atriðunum hefur greinilega dúndurfínu concept-arti verið gerð skelfileg skil, eins með svona sólid míþólógíu.

1456319505_gods-egypt-upcoming-american-fantasy-film-featuring-ancient-egyptian-deities-directed-by-alex

Myndin er svo sannarlega yfirdrifin á besta máta (og á köflum svo slæm að ég byrjaði að fíla hana) en samt er hún ekki alveg nógu hlægilega glötuð til þess að haldast nógu í þessa tvo tíma, og ekki stakasta persóna í hinni viðheldur neinum sjarma til þess að hægt sé að halda upp á þær. En eftir ansi vandræðalega byrjunarkafla tekst henni að festa sig aðeins betur með sinni magnandi maníu, og það er næstum því gott afþreyingargildi hér að finna þegar reglur þessa heims eru gjörsamlega út um allt. Meira að segja lykilkarakterinn, Bek, getur gert hvað sem er ætlast til af honum, hnökralaust – og hann er ekki einu sinni með guðakrafta!

Ef froðan væri hálftíma styttri, stílískt flottari, með aðra leikara og betri tónbalans, þá jú, kannski hefði Proyas náð að lenda þessu með stæl. Í besta falli verður Gods of Egypt trítuð í framtíðinni sem költuð kjánahrolls-klassík. Í því verra týnist hún af yfirborði jarðar áður en nokkur getur sagt ‘Heilagur Ra’.

bladn
Besta senan:
Geimormurinn tryllist.

Sammála/ósammála?