The Brothers Grimsby

Augljóslega verður ekki allt að gulli sem Sacha Baron Cohen snertir, en maðurinn er án efa einn færasti og hugrakkasti grínleikari sinnar kynslóðar. Hann hefur magann í að spila með fólk og ganga þær leiðir sem flestir og ömmur þeirra myndu aldrei nokkurn tímann gera, og nánast alltaf þrætt saman ádeilu og sjokkhúmor, oftast í eftirminnilegum gervum. Oftast.

Cohen er þó yfirleitt sterkastur þegar hann leyfir fólki í raunverulegum aðstæðum að falla fyrir gríninu hans, en alltaf hefur maðurinn eitthvað að segja, sama hversu lág plön hann leggst til að koma því til skila. The Dictator sannaði það, en úr því kom samt fínasta sprell með semí-eftirminnilegum karakter. The Brothers Grimsby (sem er fyrsta bíómyndin síðan Ali G Indahouse þar sem hann vinnur ekki með Larry Charles) er aftur á móti frekar gjaldþrota í hugmyndabankanum. Hún keyrir sig meira á yfirdrifna sjokkgildinu og bömmerandi klisjum fram yfir bítandi kommenteríu eða óútreiknanleika. Stærsti vandinn er þó að fígúran sem Cohen hefur skapað sér nú, þ.e. nautheimskt bulluhyski með gott hjarta og veikleika fyrir bústnum dömum – Nobby að nafni – er bara ekkert sterkur eða minnisstæður karakter. Skrautlegur, já, og hefði best átt heima í styttra sketsaformi.

download (1)

Grínarinn hverfur ekki eins mikið í gervi sitt og hann hefur áður gert upp á sitt besta. Nobby stimplaðist fyllilega aldrei inn hjá mér sem fyndinn karakter heldur meira bara Cohen að reyna meira á sig en venjulega. Verður líka að segjast að subbulegu áskoranirnar sem hann leggur á greyið Mark Strong, og hann tekur þarna nokkrar hressilegar refsingar í ljótum nærmyndum, eru eitthvað sem ferill hans fær aldrei að gleyma. Hrós fær hann samt fyrir að viðhalda stóíska alvarleika sínum í atriðum sem myndu fá John Waters til að órga af gleði.

The Brothers Grimsby velur dæmigerðan flöt til þess að snara saman misfyndnar uppákomur. Plottið spyr spurninguna um hvernig það væri ef stælgæi í anda Bond ætti hálfþroskaheftan bróður sem flækist óvart með í hasarinn. Uppákomurnar eru eins „ofan-í-andlitið-á-þér“ ruddalegar og maður býst við af Cohen (og alræmdasta senan verður seinna meir eflaust þekktari en myndin sjálf) og missir þess vegna gjörsamlega marks þegar hún reynir að taka samband bræðrana alvarlega. Ekki það að sé ómögulegt að troða smá hlýju inn í mynd sem er stöðugt áskrifandi að typpa- og skitubröndurum, en þá þarf myndin svolítið að selja þér einlægni sína frekar en að troða því inn eins og hvert annað efni til að haka við af tékklistanum.

thumbnail_23719

Það virðist vera hjarta í handritinu og Cohen og Strong eru nógu miklir fagmenn til að halda uppi einhverri orku (og hasarleikstjórinn Louis Leterrier (Transporter 2, Clash of the Titans o.fl.) gætir þess líka grimmt að halda öllu bröttu og stöðugt á hreyfingu). Leitt þó hversu lítið finnst að gera fyrir Ian McShane, Penélope Cruz, Rebel Wilson og fleiri, en á móti sleppa þau við alla niðurlæginguna sem hleðst yfir á Strong – og Gabourey Sidibe býst ég við líka, þó hún sé greinilega með mikinn húmor fyrir þyngd sinni. Stóra, ónefnda cameo-ið í myndinni er annars massíft klúður. Stöðugt er yrt frægan leikara á nafn þegar fenginn var gaur sem var bara nákvæmlega ekkert líkur honum. Leim…

The Brothers Grimsby er ærslafull, smekklaus og með mikinn áhuga að testa þolmörk þín en um leið segja sitt um mikilvægi rasshausanna í samfélaginu (köllum þetta agressíft en sykursætt ástarbréf til lágstéttarhyskisins), og get ég a.m.k. sagt að úr því komi eitt alfyndnasta skot á Fast & Furious seríuna sem minnið rámar í. Þetta væri allt til þess að fagna ef rembingurinn og stereótýpufrussið kæmi ekki svona oft upp á móti, eða væri meira til að elska við Nobby eða bróður hans, en efniviðurinn rís aldrei upp úr sínum eigin athyglisbresti og sýniþörf. Þetta er svipað og að lenda á hrollvekju sem reiðir eingöngu á bregðuatriði. Grófir djókar eru auðveld leið til að fá viðbrögð úr stórum sal, en hvað stendur þá eftir? Fyndnustu brandararnir koma yfirleitt á milli stóru sjokk-atriðana, ef ekki beint eftirá. Og jú, ókei, ég hló reyndar þegar Nobby byrjar að fatta hversu gaman er að beita skotvopni í fyrsta sinn. Það byggir líka upp albesta djókinn, sem kemur rétt eftir að kreditlistinn byrjar að rúlla.

Fáeinir sprettir hér og þar bjarga þó ekki miklu, en rétt slá einkuninni upp í meðallagið. Cohen getur betur, og hvað sem Strong fékk greitt fyrir þessa mynd, það hefur alls ekki verið nóg.

mehh

Besta senan:
Stóra „idjót-„ræðan á heiðurinn.

Sammála/ósammála?