Triple 9

Hvar er Nick Cave þegar maður þarf á honum að halda? Hann hefur verið eins og tromspil og stoður á sírísandi og lofandi ferlinum hjá John Hillcoat. Hillcoat hefur verið áreiðanlegur með titla sem boðið hafa upp á sterka leikara, nánast lykta af flottu, skítugu andrúmslofti og skilja eftir högg í ofbeldinu og karaktersamskiptum  – og yfirleitt í þeim tilfellum (sér í lagi The Proposition og Lawless) hefur Cave verið viðstaddur til stuðnings. Triple 9 heldur ágætishraða en er svo steríl að hún hefði innilega getað grætt á þannig kryddi. Á blaði hljómar eins og þetta getur ekki klikkað, en út kemur litlaus, glæpsamlega óspennandi spennusaga með stóran kjaft en sama og ekkert kjöt.

Handritið er rútína út og inn; stappfullt af volgum klisjum, stöðluðum, fókuslausum persónum, fyrirsjáanlegum svikamillum og fremur milt á spennu þó svo að púlsinn eða augabrúnirnar taka léttan kipp þegar heyrist svo mikið sem byssuhvellur innan um allt móralslausa hótunarhjalið. Það er meira kredit til leikstjórans og hráa stílsins sem hann skapar, en á efnislegu leveli er Hillcoat hálfsofandi, nema með fáeinum líflegum og beittum bútum, t.a.m. þrusuflottri upphafssenu sem vekur upp minningar af Heat eða The Town. Hillcoat nær henni síðan aldrei almennilega upp á sama level eftir það.

Leikstjórinn hefur ekki enn skilað af sér ómerkilegri og áhrifalausari mynd fyrr en nú. Það er hæpið að kalla Triple 9 leiðinlega þar sem hún er vel skotin og fullt af talentuðum leikurum slást um alvarleikann en umfram allt höfum við mynd sem spilast út eins og meðalgóður þáttur af The Shield og Wire, nema þér er skítsama um almesta fólkið. Leikarasúpan stendur sig þó, og Chiwetel Ejiofor og Woody Harrelson (eini maðurinn sem kemur tvíhliða karakter til skila) eru þar sterkastir og Casey Affleck sýnir mátulega hversu vanmetinn leikari hann getur verið.

Semsagt þolanleg afþreying, bitlaus og beisikk, eflaust geggjuð ef þú átt enn eftir að sjá brjálaðan haug af miklu betri löggumyndum. En skynsamlegra væri auðvitað að elta þær uppi fyrst, eða kíkja aftur á eldri katalóg Hillcoat-mynda.

mehh

Besta senan:
Byrjunarránið. Vei…

Sammála/ósammála?