Batman v Superman: Dawn of Justice

Man of Steel var alls ekki erfið ræma til þess að slá út. Hún á sína verjendur en ég er á því að hún er glæsilega útlítandi sorp og með sitt heilalausa afþreyingargildi í lagi. Kannski ekki alveg hágæðarakettan sem DC unnendur vonuðust eftir en hvort sem þeim líkaði það betur eða verr opnaðist þarna glænýr, vaxandi bíóheimur sem flaug af stað með epískt auga.

Til er samt líka eitthvað sem kallast að hrasa í eigin metnaði, og það er stóra böggið við Batman v Superman: Dawn of Justice (þessi titill…). Það er sárt að mislukkast með sameiningu tveggja stærstu ofurhetja poppkúltúrsins frá upphafi. Glæsilegur efniviður til þess að gefa okkur eitthvað athyglisvert og töff, vandað fyrst og fremst, og á yfirborðinu er hún nákvæmlega það.

batman-v-superman-together-xlarge

Zack Snyder hugsar þó eingöngu í yfirborði. Hann er orðinn eins og Michael Bay hasarblaðamyndanna, og þegar leikstjórinn hugsar stöðugt „meira er meira“ minnkar krafturinn og aukast þunnildin í öllu flassandi sjónarspilinu. Útlitslega hefur hann reyndar ekki gert flottari mynd síðan Watchmen en einbeiting hans gagnvart karakterfókus hefur rýrnað með hverri bíómynd síðan. Hann tapar sér svo mikið í lúkkinu að handritið verður að aukaatriði. Maðurinn er líka frekar tónaheftur, en á móti eru fáir þarna úti með stærra hjarta fyrir pósandi fólki, myndasögurömmum, testósterónfýlu eða agressífum fetish-skotum í slow-mo. Skyndilega er Sucker Punch ekki lengur „ZackSnyder-legasta“ mynd í heimi. Dawn of Justice hirðir þann vonda heiður.

Snyder lofar ýmsu með þemunum sínum sem hann nær aldrei að efna, alveg týndur á því hvort hann vilji gera dýpri, persónu- og tilfinningadrifna myndasögumynd eða ofurstílíseraða typpakeppni handa 12 ára krakkanum í sér. Einkum er það sérstakt hvernig svona fjári löng mynd virðist vera of upptekin að öðrum hlutum en að þróa hetjurnar og ágreininginn sem áhorfandinn er kominn til þess að hella í sig.

batman-v-superman-trailer-screengrab-5

Warner/DC eru að gera sömu mistök og Sony með Amazing Spider-Man 2, með ofbakaðri fljótfærni og örvæntingarfullri tilraun til þess að eiga séns í nördastuðning og aðsókn í líkingu við Marvel heiminn. En útkoman er eins og tékklista-uppfylling þar sem finna má fyrir glefsum af kjötaðri sögu. Fyrir utan hálfbjánalega kreditlistaopnun fer myndin hörkuvel af stað. Við sjáum klímaxinn úr Man of Steel frá öðru sjónarhorni og kynnir nýja Bruce Wayne til leiks með stæl. Síðan stekkur narrafían áfram um tæp tvö ár og þá byrjar óreiðan að magnast hratt.

Ofurmennið sjálft gæti flogið gegnum allar holurnar í plottinu, sem margar hverjar hafa eflaust komið frá styttingum í eftirvinnslunni (Snyder hefur víst þegar lofað útgáfu sem er hálftíma lengri) og það sést alveg á hvernig sumir þræðir koma, fara eða týnast á miðri leið. Samsetningin er alveg skriðþungalaus þangað til þursarnir mætast. Síðan berjast þeir í þokkalega stemmdum slag sem endar þó á algerum brandara sem gengur undir þeim ranghugmyndum að vera tilfinningaríkt móment. En ég hló. Restin skánar ekki mikið eftir þetta.

Mikið er sagt þegar Man of Steel er farin að líta út eins og Batman Begins í frásögn sinni í samanburði, með sterkari keyrslu að auki. Það er þó ekki par skrítið að flæðið í BvS sé svona stappað og handritið í miklum mauki þegar Snyder hefur sterað yfir sig í metnaðinum og ætlað sér að troða a.m.k. fjórum stórum bíómyndum í eina; Man of Steel framhald (sem bæði kremur fyrir Lex og Doomsday-sögu), sóló Batman-sögu, Batman/Supes- mynd, Justice League-kynningu… Úr þessu verður auðvitað þá ekkert nema sjúklega langur og flottur trailer fyrir DC-heiminn. Eins pússaður á yfirborðinu og hann er kjánalega alvarlegur inn á milli. Myndin hlýtur líka að setja eitthvað fjöldamet í draumasenum (og hefur meira að segja draumasenu inni í draumasenu!), og fæstar þeirra hafa einhverju merkilegu við að bæta.

maxresdefault3

Þegar Ben Affleck var fyrst tilkynntur sem arftaki Batman-rullunnar snérist allt internetið á hvolf gegn honum (og ég var sjálfur ekkert über bjartsýnn) en kemur svo í ljós að hann er langsterkasti punkturinn við myndina, og það er jákvætt í ljósi þess að hún pressar Supes mikið til hliðar. Snyder er augljóslega Team-Batman hérna, það leynir sér ekki. Affleck gefur sig allan fram sem brotnari, reiðari Batman en við höfum áður séð. Sólid sem Bruce Wayne og trúlega í best heppnaða bíóbúningnum til þessa. Jeremy Irons er einnig frábær á móti honum sem Alfred, þó hann gæti verið aðeins of unglegur til að vera þarna á móti Bruce á silfurrefsárunum. Ég keypti það aldrei alveg að þetta væri uppeldisfaðir hans, en dýnamíkin á milli þeirra er gallalaus.

Henry Cavill þykir mér stórfínn Supes og fer jafnvel enn betur um hann hér en seinast. Það er mikið karisma í honum sem kemur frá honum sem báðar Superman-myndirnar hans hafa ekki leyft nægilega að skína (sjáið t.d. manninn í The Man from U.N.C.L.E. – brjálaður sjarmi þar). Amy Adams er sömuleiðis ágæt Lois Lane en alltaf eiga þessi handrit orðið erfitt með að vita hvað á að gera við hana.

Nálgun Jesse Eisenberg á Lex Luthor yngri er helvíti hugrökk, segjum það, en Snyder er svo týndur á tóni sínum að leikarinn er eins og stiginn af allt öðru bíósetti. Erfitt er að ná tökum á mótiveringum Luthors – og reyndar flestra – en múdið er svo húmorslaust og yfirdrifið í alvarleikanum, en alls ekki nógu yfirdrifið til að meðhöndla þessa háfleygu geðveiki sem kemur frá sítrollandi Eisenberg. Samt, ef það er eitthvað sem Snyder fær ALDREI nóg af, það eru karakterar að kýla hvorn annan, og ég sem áhorfandi beið hvað spenntastur eftir að sjá Eisenberg lumbraðan. Fékk ég ósk mína uppfyllta?

Því miður er lítið að segja um Wonder Woman, en aftur á móti hellingur að segja um hversu klunnalega myndinni gengur að stilla upp kynningum á komandi JLA meðlimum. Gal Gadot hefur mikla útgeislun en gerir varla annað en að mastera pósurnar og aðeins leika sér að kröftum sínum. Fínt cameo í besta falli.

2912327-batman

Batman v Superman býður upp á einhverja klikkuðustu ramma og lítil sekvensabrot sem hafa sést í katalógum beggja hetja á skjánum. Þess vegna er kannski svo bömmerandi hve litla spennu hún trekkir upp, hvað fyrri helmingurinn verður oft leiðinlegur eða hversu stórt kjánahrollshlass hún myndar. Handritslega séð er sagan sjálf í tómu rugli en díalógurinn sleppur, sem hann gerði síður þegar David Goyer sá einn um handritið. Myndin nær samt aldrei að vinna fyrir þessum dramatísku hápunktum sem hún dregur fram því við fáum tæpa og hálfbakaða innsýn inn í lykilkarakterana; Batman er hvatvís, grimmur og bugaður drápari og Superman er enn flatur og þarf alltaf að reiða á að aðrir segi sér hvað á að gera. Svo komum við að skorinu frá Hans Zimmer og Junkie XL, sem leyfir sér að vera öðruvísi og ögn súrt á köflum en drekkir almennt heilanum í bombandi, yfirþyrmandi tónum sem eru svo pínlega dramatískir að hallærisleikinn settlar fljótt inn.

Stærstu íkonin í DC-heiminum áttu klárlega skilið betur en ofhlaðið stílsjó sem er alveg úti á túni með karaktera sína, og það er nógu frústrerandi því í þau fáeinu skipti sem hún gerir eitthvað rétt, þá gerir hún það algjörlega rétt. DC heimurinn framundan er þó langt frá því að vera vonlaus (MCU heimurinn átti nú sjálfur við mikla meðalmennsku að stríða á sínum upphafsskrefum) og gæti ekki sjálfstæð Bafleck mynd komið nógu snemma, og helst án nokkurrar þátttöku frá Snyder. Justice League undir hans valdi er pínu niðurdrepandi hugsun á þessu stigi.

bladn

Besta senan:
Slagurinn var fínn, heimskulegur en fínn… þangað til í lokin.

*UPPFÆRT*
Ultimate útgáfan sem var gefin út í júlí gerir nokkur söbplottin örlítið skýrari og er flæðið aðeins snyrtilegra, en vondu elementin eru enn til staðar og viðheldur ræman ekki þriggja klukkustunda lengd. Myndi ekki breyta einkuninni, þó sú útgáfa sé tæknilega séð „betri.“

Sammála/ósammála?