10 Cloverfield Lane

Ekki hefur gengið að fela það að hér hefur verið tekinn fantagóður, klástrófóbískur indí-þriller og þvingað á hann leið til þess að smella þekktu merki á. Ef ‘Cloverfield’ tilheyrði ekki titlinum hefðu eflaust miklu færri séð þessa mynd, en það er fúlt. Hún er algerlega sjálfstæð og styrkist lítið á systkinatenginunni. 10 Cloverfield Lane er tens, faglega gerð – í versta falli ekkert kvikindislega eftirminnileg og líður fyrir smáhluti en með þrælgott tríó, nokkur sterk karaktermóment í magnandi tilfinningaspennunni – og ekki snefill af fitu á lengd sem flýgur algerlega hjá.

Sagan gerist að megnu til í neðanjarðarbyrgi. Michelle (Mary Elizabeth Winstead) vaknar þar eftir alvarlegt bílslys. Eftir það skánar ástandið lítið þar sem hún er hlekkjuð og gefur eigandinn, Howard (John Goodman) ekkert of hlýjan tón. Hinn viðkunnanlegi Emmett (John Gallagher Jr.) er þarna líka til að veita þeim félagsskap en byrginu er lokað og haldið því með engum undantekningum. Michelle veit ekkert betur en áhorfandinn hvað er nákvæmlega það sem triggeraði árásirnar fyrir utan, en framvindan vekur hægt og rólega upp spurninguna um hvor kosturinn er verri; byrgið eða áhættan úti.

Við tekur þarna spennandi og úthugsað samspil milli þessara þremenninga. Winstead slær á réttu nóturnar sem Michelle, bætir aukalega við nokkrum lögum á karakter sem hefði getað verið þynnri á pappír. Kjötaðasta hlutverkið fær annars Goodman, sem er yfirleitt frábær en hérna gefur hann karakter sínum mikla dýpt sem spilar bæði með styrkleika leikarans sem ógnandi gæja og knúsanlegu föðurfígúruna sem hann hefur áður tileinkað sér. Gallagher spilar líka fínt á móti hinum – reyndar betri – liðsmönnum sínum.

10_cloverfield_lane_paramount_winstead.0.0

Leikstjóri myndarinnar, Dan Trachtenberg, hefur mikið sannað sig sem stálharðaur kvikmyndaunnandi (fyrir þá sem þekkja hann úr Totally Rad Show og fleiru) og sýndi fínt visjúal talent með Portal stuttmyndinni sinni. 10 Cloverfield Lane er gríðarlega skotheld frumraun hjá fyrrum bíórýninum þar sem einfaldleikinn er nýttur til hins ítrasta og hvert tækifæri gefið með handritinu til að halda spennunni, upplýsa haug með litlu og passa að aðgerðir persóna séu samkvæm þeim sjálfum. Trachtenberg hefur lítið rými til þess að leika sér með en passar að hrasa sig ekki á horror-þriller klisjum þar sem persónur taka hverja óskiljanlegu og nautheimsku ákvörðunina á eftir annarri.

Myndin er í heildina flott skotin, prýðilega hljóðsett. Almennt ófrumleg en fersk og meiriháttar góð mynd

…þangað til alveg í lokin.

 

Spoilerar, héðan í frá.

10_cloverfield_lane_paramount.0_1458669956707_1124854_ver1.0

10 Cloverfield Lane á sér sama og enga tengingu við upprunalegu Cloverfield. Telst það vera spoiler að segja það? Myndirnar tvær eiga allavega fáeinar „blóðtengingar“ en í heildina er þessi ekkert háð þeirri upprunalegu frekar en Super 8 er War of the Worlds gerast í sama heimi. Síðarnefnda myndin kemur reyndar sterkt upp í hugann um leið og Winstead er stiginn upp úr byrginu og mætt inn í geimveruhasar. Hún er sett inn í aðstæður og tekur hetjumúv ekki ósvipuðu því sem Tom Cruise gerði í klæmaxinum nema hún er nú vopnuð sneggri viðbrögðum, meiri heppni og molotov-kokteil.

Endirinn er ekki beint slæmur, hann smellur við karakterörk Michelle skítsæmilega (og á vissan hátt við þemu myndarinnar þegar á söguna sem má líta á sem allegoríu fyrir heimilisofbeldi) en úrvinnslan er dæmigerð og merkilega kraftlaus miðað við afganginn (myndataka og lýsing er heldur ekki alveg að gera sig og senurnar virka flýttar, eins og bráðnauðsynlega sé verið að passa að myndin sé ekki mikið lengri en 90 mínútur án kreditlistans). En stærstu leiðindin við ‘Cloverfield’ nafnið er að áhorfandinn býst frá upphafi við geimverum eða skrímslum á yfirborðinu. Þetta dregur úr mætti afhjúpuninnar eða sjokksins sem Michelle fær þegar hún sér að handan ‘skjólsins’ er ekki bara eitthvað allt annað en Howard spáði, heldur eitthvað umdeilanlegra enn verra og klikkaðra.

maxresdefault

Endirinn dregur myndina niður úr (segjum) sterkri áttu yfir í fína sjöu. Eins og áður sagði getur tengingin pirrað jafnmarga og hún laðar að, enda er auglýsingin tæknilega séð fölsk – líka miðað við hve sterk áhersla er lögð á ‘Cloverfield’ í byrjun myndarinnar, áður en afgangur titilsins bætist inn. Cloverfield-merkið siglir í það að vera ‘Twilight Zone’ skepnusagna með sci-fi kryddi, sagðar frá einkennilegum sjónarhornum. Skemmtilegt að upprunalega myndin hafi sagt epíska skrímslasögu gegnum mjög afmarkaðan ‘fyrstu-persónu’ stíl og Lane tekur hefðbundnari bíónálgun á mjög afmarkaða sögu þar sem stærri epíkin er öll utan ramma. Ef Abrams og liðið hans heldur rétt á sínum spilum gæti þetta merki farið að þýða meira.

En jafnvel þó þú fílir hina Cloverfield myndina ekkert sérstaklega – og ég er víst einn þeirra – á 10 CL skilið séns á að vera séð og metin sem skepna af sértýpu.

 

7

Besta senan:
Michelle hellir niður…

Sammála/ósammála?