Hardcore Henry

Fólki þykir misskemmtilegt að horfa á aðra spila skotleiki, eða síður skítlöng demó með engan stýripinna við hendi. Ef Hardcore Henry hefði algjörlega misst marks hefði hún spilast út eins og akkúrat það. Myndin byrjar í hágír, endar í hágír og ræðst á þig með fyrstu-persónu hasarrússíbana í 90 mínútur, leikandi sér að adrenalíninu, subbuskapnum, helbrjáluðum áhættutriðum – hatandi kvenfólk eins og reiður unglingur. Hún er ekkert meira en taumlaus, manísk og innantóm afþreying. það en á móti – og á aðeins jákvæðari nótunum – má líka stimpla hana sem eina af „frumlegri“ og óvenjulegri myndum síns geira í ágætan tíma.

Engin bíómynd hefur nýtt sér stíl í þessum fíling áður til fullrar lengdar (sáum einhverjar glefsur af þessu í Doom og Brothers Grimsby t.d.). Hardcore Henry er ekki gerð fyrir mikin pening en hún sér glæsilega um að henda öllu sem hún hefur á skjáinn og meira. Öll tekin upp á GoPro-vélar og stekkur maður bókstaflega inn í hverja geðveikina á eftir annarri. Gallinn við tökustílinn er þó að þessar blessuðu vélar bjóða ekki þarna upp á skýrustu gæðin í ákveðnum lýsingum, senurnar í dagsbirtunni mun betur út, þó keyrslan hljóti engan alvarlegan skaða við þetta. Það er mikill húmor í ofbeldinu og undirstrikar það t.d. vel með að skella Don’t Stop Me Now á fóninn í miðju blóðbaði (…en allir vita að Shaun of the Dead var löngu búin að mastera það).

Sharlto Copley stars in HARDCORE HENRY Courtesy of STX Entertainment

Margt, MARGT er til að setja út á og fólk ætti að læsast snöggt við niðurstöðu um það hvort þessi mynd sé að þeirra skapi eða ekki. Hardcore Henry er með bráðaofnæmi fyrir öllu sem kallar sig innihald; plott, karaktervinna o.þ.h. Beinagrindin er 100% tínd saman úr tölvuleikjamarkmiðum: finna leið út, hlaupa frá A til B, stökkva, finna vopn, verja þennan, plaffa þessa, elta hinn, vera eltur o.s.frv. Ætlunin er auðvitað sú að gera myndina eins ‘interaktíva’ og hægt er. Áhorfandinn á að setja sig í stað Henrys, ofurdráparann mikla með vélrænar viðbætur, til þess ætlaðar svo gæinn slátrist ekki áður en helmingur er liðinn.

Myndin reynir að leggja út einhverja brauðmola sem gefa þér baksögu en því fleiri svör sem þú færð, því meira eldsneyti tapar myndin með tímanum, eða áhugi þinn fyrir ‘karakternum’ per se. Kippir sér fínt upp á lokametrunum þó, en stígur aldrei yfir það hvað vondi(-enda)kallinn er lúðalegur. Tim Roth er líka sóað og fær ekki nema eitt lítið atriði, stakt skot í raun.

Hardcore Henry er eins heiladauð og hasarmyndir gerast og mætti ekki vera svo mikið sem smásenu lengri, en hraðinn er svo mikill og áhættuatriðin svo tryllt. Myndin hefði örugglega þreyst fyrr út hefði mér ekki þótt Sharlto Copley gefa henni svo skemmtilega aukaorku, meiri súrrealisma og vel þegið að fá hann í mörgum hlutverkum (það meikar sens í myndinni – eða ekki). Ræman er nógu hröð og hrá til þess að slá sig upp í meðalgott skemmtanagildi og leikstjórinn Illya Naishuller sýnir tæknilega takta sem verða þess virði að fylgjast með á næstunni. Flott stílæfing. Einnota gaman. Samt gaman.

 

fin

Besta senan:
Hesturinn.

 

Sammála/ósammála?