Ratchet & Clank

Nú er ég forvitinn að vita hvað harðkjarna eldri-kynslóðar Ratchet & Clank aðdáendum finnst um þessa mynd (s.s. aðáendurnir sem myndu aldrei leggja í íslensku þýðinguna). Ég er ekki einn þeirra en það litla sem ég hef spilað af leikjunum var miklu ánægjulegra og fyndnara heldur en sjálfumglaða þunnildisfroðan sem þessi bíómynd er.

Ofhlaðin en samt svo ofureinföld, köld, drukknandi í leiðinlegum aukakarakterum og ekki eins snjöll og hún telur sig vera. Myndinni og örugglega upprunanum til varnar reynir hún samt ekki að vera dæmigerð og eingöngu ætluð smákrökkum, þó hún ósjálfrátt lendir í þeim flokki þegar innihaldið skýtur eintómu lofti í bröndurum. Plottið skiptir svosem litlu en þegar vantar alla sálina og maður finnur ekki fyrir miklu samspili hjá titildúóinu, þá stendur ekki mikið eftir.

ratchet

Leikstjórinn Kevin Munroe er augljóslega mikið – en á sinn hátt elskulegt – nörd sem velur skemmtileg verkefni en gerir lítið fjörugt úr því sem blæðir út fyrir kjarnamarkhópinn. Hann veður bara úr einum hasar til þess næsta og virðist lítið kunna að sinna því sem heldur því saman. Það og brandararnir hans hitta fyrir mér aulalega sjaldan í mark. TMNT-teiknimyndin hans og Dylan Dog eru gott merki um getu hans í þessu, og Ratchet & Clank rís aldrei upp úr styrkleikjum sem koma að öðru en grafíkinni, en jafnvel hún er rétt svo á pari við það sem hefði litið glæsilega út fyrir 15 árum. Tel það heldur ekki vera gild afsökun að segja að hún sé í stíl við tölvuleikina, þó hönnunin og stíllinn fái vissulega eitthvað prik fyrir það. Annars er makalaust fúlt að heyra Rosario Dawson, Paul Giamatti (…), John Goodman (!) og Sly Stallone (!!) svona djúpt sóað.

Titilkarakterarnir eru viðkunnanlegir lítilmagnar, en í allri fyrirsjáanlegu ringulreið klisjanna kemur ekkert minnisstætt impressjón frá þeim. Allt það pósitífa við myndina gerir það bara frekar að verkum að maður vill frekar spila leikina í staðinn – eða ekki. Myndin er allavega flöt, með þreytandi sjálfsmeðvitund (og skítnóg af „fan-service“ djókum, virðist vera), en á móti áhrifalaus, morandi í klisjum og leiðinleg. En…! Skal gefa henni það að hún hittir aðeins einu sinni óborganlega í mark með brilljant brandara á kostnað Wilhelm-öskursins fræga.

Tel það ekki gott merki að Munroe hafi einnig verið fenginn til þess að gefa Sly Cooper sína eigin bíómynd, leikur sem ég er aðeins betur skólaður í.

 

vond

 

PS. Textaþýðingin á ensku útgáfunni sem ég á var nógu slæm til þess að ég samhryggist öllum sem þurftu að leggja í íslenska talið.

Sammála/ósammála?