(Bad) Neighbors 2

Framhöld af grínmyndum hitta óvenjulega sjaldan í mark, en (Bad) Neighbors 2 er ein af þeim fáeinu sem slær í sólid forvera og fer rétt að formúlu sinni. Áhorfendur vilja oftar en ekki meira af því sama, innan marka, en það sem framleiðendur/stúdíó túlka oft úr því er að endurtaka og blóðmjólka sömu djóka eða kópera alla framvinduna. En þegar rétt er gert þarf ‘meira af því sama“ ekki að vera alvondur hlutur.

(Bad) Neighbors 2 er vissulega í heildina sama mynd og sú fyrri í breiðum skrefum en endurtekur sjaldan sömu brandara. Á sinn sniðuga, reykta og elskulega máta tekur hún nýjan vinkil á þann gamla og þrepar upp kynslóðastríðið kostulega, leikandi sér að umræðum um kynjamyndir, foreldrahlutverk og bílhlassi af kannabisplöntum. Það sem heldur henni líka sífyndinni er að hugað er ögn meira að karakterum en aðstæðum.

Seth Rogen og Rose Byrne ná enn frábærlega saman og mynda viðkunnanlegt, skemmtilegt og sannfærandi par sem feisar nú annað ábyrgðarstig í sínu lífi auk hraðahindrunar þar sem nýskipaða systrafélagið í næsta húsi setur þau í enn erfiðari aðstöðu en Zac Efron og félagar síðast. Það munar þó um allt að hafa Efron núna í bandalaginu og stígur alnokkur barnaskref í áttina á því að vera fullorðinn sjálfur. Dave Franco þótti mér annars makalaust stela fyrri myndinni og fær hann lukkulega eitthvað smápláss hér, nú á allt öðru stigi í sínu lífi en fyrrum bróðurfélagi sinn.

Efron hefur ekki ætíð passað þangað sem hann er settur, en í þessum Neighbors-myndum er hann dýrmætur sem köttaði partídrengurinn með ljúfa, týnda hjartað og sinn litla heila. Bró-bondið hans við Rogen setur bestu senur þeirra áður á hressara level. Chloë Grace Moretz tileinkar sér drottningu systrana í nágrannahúsinu og passar ljúft í hlutverkið, en slær hennar teymi alveg ekki í sama vinalega sjarmann sem andstæðingarnir gerðu í fyrri myndinni – en halda líklegast hugmyndaríkari þemapartí. Þær eru ekki eins vel skrifaðar og uppgjör „stríðsins“ lendir ekki alveg.

Neighbors 2 heldur öllu gangandi á fínum, fitusnauðum hraða og á bakvið sukkið, stóner- og greddugrínið finnur maður fyrir sláandi hjarta. Rogen og co. sjá til þess að karakterarnir séu enn samkvæmir sér sjálfum og ekki bara eingöngu notaðir sem peð fyrir brandaramaskínu. En rísandi aðstæðurnar mega vera eins yfirdrifnar og þær vilja á meðan okkur er ekki skítsama um alla. Af „gagnslausu“ framhaldi að vera – og með þennan efnivið – er varla hægt að gera mikið betur. Báðar tvær fara stórfínt saman.

7

Besta senan:
Bílskúrsbrómantíkin.

Sammála/ósammála?