The Huntsman: Winter’s War

Ég get bara ekki tekið ævintýraheim of alvarlega né myndað mér of sterk tengsl við hann þegar fýlupúkaleg Kristen Stewart er kennd við fegurstu stúlkuna í öllu landinu, hana Mjallhvíti. Það er svosem ekki eins og Snow White and the Huntsman – volga ölið sem hún var – hafi mikið betlað eftir framhaldi, en tilheyrandi trendi gagnslausra framlenginga eða spinoff-mynda skal ég mun fremur gúddera óþarft „forsöguframhald“ af henni þar sem Mjallhvíti er gefið miðfingurinn og fókusinn í staðinn settur á Chris Hemsworth, færri dverga og fleiri, miklu betri leikkonur.

Standardinn var ekki hár en The Huntsman: Winter’s War er alls ekki betri mynd að neinu leyti, en hún hefur aðeins meira skemmtanagildi, innan gæsalappa. Hin var grámyglulega alvarleg á meðan þessi hallast meira í camp-áttina. Hún hefði kannski náð svo-slæm-að-hún-er-brilljant status (hæ, Krull) ef hún væri aðeins meiri óreiða, og ekki bara svona mikið… bla.

Huntsman_Clip_FreyaConfronts

The Huntsman límir sig við tímalínu og atburði fyrri myndarinnar en gæti ekki verið meira sama um Snow White (hún bókstaflega gerir ekkert annað í sögunni en að þjást utan ramma). Það er smá fita á lengdinni (en á sama tíma er hún að þjappa alltof miklum efnivið í… ekki neitt) og manni er vel sama um karakterana þegar samtölin hlekkja þá alveg niður. Annars bara löt framvinda, þunn persónusköpun og pínlegar klisjur, en fluttar af meðalfínum sjarma hjá þeim fáeinu leikurum sem nenna þessu. Charlize Theron gaf fyrri myndinni næstum því allt það litla líf sem hún hafði, en hér er hún bara að geispa af sér rútínuna.

Jessica Chastain er sú besta á skjánum og virðist feika áhugann vel þar sem hún var samningsbundin því að gera myndina sem skiptidíll við Crimson Peak. Hér leikur hún harða og líflega hetju og nær að græja samspili hennar við Hemsworth smávegis auka. Emily Blunt leggur sig að öðru leyti eitthvað fram, sem hún gæti örugglega gert hálfsofandi, í rullu sem svipar til dramatískari og meira óspennandi Elsu úr Frozen. Má svosem telja það til afreks að einn leikstjóri skuli hafa Theron, Chastain og Blunt þrjár saman og geri óspart lítið við hæfileika þeirra. Ekki það að handritið hjálpi svosem. Við hverju býst maður samt þegar höfundarnir samanstanda af dúó gæja þar sem annar er þekktur fyrir spoof-myndir en hinn teiknimyndir sem hafa ratað beint á vídjó.

The-Huntsman-Winters-War-Wallpaper-12

Af og til koma kætandi eða svalir (pun intended?) litlir partar og krúttið hann Hemsworth treystir á sína áreiðanlegu töfra, sem hefur þó ekki haldið stjörnustatus hans uppi utan Marvel-heimsins (sjá tekjurnar á Rush, Blackhat, In the Heart of the Sea, og þessari!). Heldur get ég ekki sagt að dvergarnir hafi eitthvað miklu við að bæta, nema smá velkominn léttleika – en á móti kemur aftur gamli hausverkurinn yfir tilhugsuninni hversu dýrari og flóknari prósess það hlýtur að vera að breyta hlutföllum leikara frekar en að ráða kannski alvöru dverga!

Það eina sem Huntsman hefur sér að vopni eru ásættanlegar tæknibrellur og sjónrænn stíll sem hefur tileinkað sér meirihlutann af athygli leikstjórans (enda vann hann við brelludeild fyrstu myndarinnar). Þetta stoppar hana samt ekki frá því að vera ódýr í epíkinni og tölvuleikjaleg á milli. Innsiglar svolítið sterkt hvað froðan er eins metnaðarlaus og óspennandi og hún er extra tilgangslaus. Ég myndi ekki einu sinni segja hörðustu Snow White and the Huntsman aðdáendum til að kíkja á hana því hún hrækir á allt sem sú mynd stillti upp. Hún er enginn saur en bara abstrakt auðgleymanleg, og það er eiginlega verra.

Og já, titillinn lýgur, það er ekkert stríð!

bladn

Besta senan:
Brelluhlaðinn kisuslagur milli systra.

Sammála/ósammála?