The Angry Birds Movie

Þrátt fyrir að þessi mynd virðist vera fjórum árum of sein til þess að vera nógu ‘relevant’, þá er vandræðalegt hversu ágætisflipp er hægt að teygja í fulla lengd þegar grunnhugmyndin er byggð á appi. Þú kastar mislitríkum fuglum úr teygjubyssu í virki grænna grísa, búið.

Eins mikið og Angry Birds Movie er grautþunn peningamaskína umfram allt, sem mótar allan söguþráðinn með risastórri afsökun til þess að lokaþriðjungurinn geti spilað tölvuleikinn fyrir þig í brenglaðri grafík, þá svínvirkar þetta. Rétt svo. Teikningin er fjörug, víbrant í litadýrð og karakterarnir hæfilega flippaðir án þess að vera of háfleygir eða pirrandi.

Það er haugur af bröndurum, orðagríni („Pluck Me…“) og furðulegu músíkvali. Þetta hittir ekki allt í mark en það er allavega séð til þess að alnokkrir fullorðinsdjókar fari beint framhjá kjarnamarkhópnum. Sömuleiðis er rennslið hratt og raddirnar ánægjulegar. Jason Sudeikis er fínn sem síönugi Red, Bill Hader er trúlega bestur sem svínakóngurinn og það er húmor út fyrir sig að heyra Sean Penn ítrekað urra sem stærsti, reiðasti fuglinn.

Yngstu meðlimirnir munu í það minnsta éta þetta upp og verandi bíómynd að vera sem sækir í einfaldan, meðalgóðan, stórvinsælan tímaþjóf stenst hún ágætlega þær litlu væntingar sem má gera til hennar. Hún er skörp með það að taka sig ekki vitund alvarlega og heldur sínu rugli uppi. Gat orðið verra, og klárlega betri „tölvuleikjamynd“ heldur en Ratchet & Clank. Sorglegt það.

Og enn er ég að bíða eftir Worms-myndinni minni…

 

fin

Besta senan:
Fuglastríðið.

Sammála/ósammála?