X-Men: Apocalypse

„Við getum öll verið sammála um eitt, þriðja myndin er alltaf verst,“ segir Jean Grey í fyrri helmingnum. Þarna talar hún um Star Wars seríuna en ekki er erfitt að lesa á milli línanna að Bryan Singer skýtur föstu skoti á Brett Ratner fyrir að hafa neyðarlega hrasað á því að halda gæðastandardinum sem hann setti. Singer áttar sig ekki alveg á því að hann verður sjálfur fórnarlamb síns eigin brandara. X-Men: Apocalypse meira eða minna lokar þessum óformlega þríleik á teinunum sem First Class og Days of Future Past lögðu og ekki alveg með sömu lendingu.

Apocalypse er þó alls ekki léleg, reyndar fjandi góð en laus við pólitísku rauntengingarnar (Kúbudeilan í FC, móralshrörnun bandaríkjanna eftir Víetnamstríðið í DoFP), dýpri persónumómentin og skipulagða sögustrúktúrinn sem gerði hinar áhugaverðar – en hún er helskemmtileg, metnaðarfull og með nægilega góðan hasar, karakteráherslur og „edge“ til að skera hana aðeins út úr. Hún inniheldur líka hiklaust nokkur af sterkustu atriðum sem þú finnur í allri X-seríunni. Við heyrum líka Beethoven-nótur hrökkva í gang í kafla sem væri helber snilld ef ákveðið cameo hefði ekki troðið sér þar inn.

xmen0002

Nýta hefði kannski mátt ’80s períóduna betur (Singer missti þarna af gullnu tækifæri til þess að koma með allegoríu á AIDS-faraldurinn…) en stíllinn er aðeins öðruvísi í Apocalypse, og flottur. Tekst henni líka undarlega vel að skipta tónum úr dökku yfir í eitthvað líflegra eða e.t.v. teiknimyndalegra. Yfirdrifinn alvarleiki, mátulega svo.

Hún fer byggir sig hægt og notalega upp í stærri, grimmari kaótíkina og heldur meðalgóðum taum á brandaralegu hlassi af karakterum. Jean GreyStormCyclops og Nightcrawler (æðislega leikinn af Kodi-Smit McPhee) stíga hnökralaust inn í teymið og ég trúi varla að nokkur manneskja til sem getur neitað því að Quicksilver sigri myndina með sínum orkuríku og í senn sultuslöku töktum. Singer tókst þarna meistaralega og (sökum ómetanlegs lagavals) hressilega að toppa stærstu senu hans úr seinustu mynd, senu sem er svo mergjað skemmtileg og vel samsett að afgangurinn kemst varla í tæru við hann.

Nicholas Hoult er áfram góður Beast og James McAvoy og Michael Fassbender koma fyrirsjáanlega höfðinglega út, Fassbender sérstaklega tappar inn á hugarsvæði, komplexa og þjáningu hjá Magneto sem gerir hvaða volgu frasa sem handritið gefur honum að Óskarsklippum. Myndin verður átómatískt ónæm því að verða of aum þegar Fassbender er á skjánum. Atriðið með honum í skóginum er stórkostlegt, og sárt.

Xmen-Apocalypse-Magneto-Horseman-Death

Hinir óheppnu í hópnum samanstanda t.d. af Angel (Ben Hardy) og Psylocke (Olivia Munn), sem eru býsna svöl en gera fátt annað en að pósa. Jennifer Lawrence lítur símeira út eins og hún nenni ekki Mystique-hlutverkinu lengur. Sannfærandi eins og hún er, jafnvel á sjálfsstýringu, þá leikur hún flestar senur eins og hún sé nývöknuðs.

Miðað við stærðargráðu og hugsjónir skúrskins Apocalypse er hann ekki fyllilega að virka. Ógnandi, jú, og stóískt húmorslaus – enda sparkar hann í gang eyðileggingarklámi og dauðsföllum sem X-serían hefur aldrei áður séð – og ótrúlegt hvað Oscar Isaac gefur honum sterka nærveru í búningi og með farða sem kemur sjaldan vel út í of víðum skotum. Það er kredit til Singers að hann verði aldrei of kjánalegur. Hann sleppur en staðallinn ætti að vera hærri.

X-Men-Apocalypse-Trailer-Apocalypse

X-Men: Apocalypse er bæði að sinna því að gera upp forvera sína og stilla upp nýju teymi. Þetta eru margir boltar á lofti en framvindan og atburðarásin er svo einföld að það gengur ágætlega. Umdeilanlega flækir hún sig m.a.s. að óþörfu í miðbikinu þegar góðkunningi seríunnar dúkkar upp, af ástæðum sem hafa lítið með kjarnann að gera. Aðalsagan sest nánast á bið á þeim tímapunkti og gerir Apocalypse og hans fylgdarlið bókstaflega lítið annað en að standa á kletti pósandi þangað til að sviðsljósið er farið af gestarullunni. Afleiðingar allra tortíminganna eru líka merkilega oft látnar liggja og hefði verið öflugri leikur að sýna önnur og fleiri perspektíf þegar bókstaflega öll plánetan verður fyrir áhrifum.

Bestu X-Men myndirnar finnst mér hafa almennt glæsilega tekist að taka sig alvarlega og léttar á réttum stöðum – ofurhetjumyndir eru yfirleitt vanar því í dag að hallast of mikið í aðrahvora áttina. Ef maður treður göllunum til hliðar er fjölmargt gott að finna í Apocalypse, í afþreyingargildinu, samspili skemmtilegra karaktera og sterkum þemum. Hún gerir sjálfsagt minna fyrir þá sem eru ekki löngu dottnir inn í seríuna eða heiminn á þessum tímapunkti, en eintakið er meira en í lagi fyrir okkur hin.

 

7

Besta senan:
Quicksilver-kaflinn („innkoman“ þ.e.a.s).
Dö.

Sammála/ósammála?