Í fyrstu virðist allt ganga prýðilega fyrir sig í sambandi Hrings og Elsu, en það rýrnar óskaplega hratt þegar hann týnir sér í peningaskuld, ofan á neistinn bara ekki hinn sami og áður var. Á fljótu bragði sparkar hún honum út og díla þau bæði við aðlaganirnar og erfiðin við slíka sundrun, en bæði fara hratt leitandi að rébándi hvor í sinni átt.
Það eru auðvitað hversdagslegir og manneskjulegir straumar þarna hjá persónum myndarinnar, aðal- sem auka, en þeim er oft stillt upp með samræðum sem anga af hreinni tilgerð. Áhorfandinn á erfitt með að finna fyrir bömmernum í aðskilnaði þessa pars því fljótt þykir mér koma til skila að parið er á gerólíkri bylgjulengd og mjög erfitt að sjá sundrunina sem annað en jákvæðan hlut.
Það er ýmist sem Reykjavík vill vera, t.a.m. sambandsstúdía í Woody Allen-stíl (og ekki fyrsta íslenska myndin á þessu ári sem sækir í þann brunn, ef við teljum Fyrir framan annað fólk með) og hnyttinn, tragikómískur farsi en heldur ekki réttum fókus. Ákvörðunartökur persóna eru mikið úr takti við allan veruleika á köflum og kemur sjálfumglaður, týndur tónn á það sem virðist vera mjög persónuleg saga, sem ætti að vera viðtengjanlegri en hún er. Persónur birtast líka inn í söguna eftir þörfum handritsins, oft á pínlegan máta. Ísland er lítið, en ekki SVONA lítið.
Leikstjórinn Ásgrímur Sverrisson hefur augljóslega hjartað á réttum stað í leikstjórasætinu en skortir fókus með persónusköpun og narratífu. Annars stráir hann kvikmyndaþekkingu sinni og passjóni hressilega yfir allt handritið (og óbeint endurskapar misþekktar senur inn á milli, Annie Hall t.d.), en úrvinnsluna skortir alla súbtextana sem krefst af umfjöllunarefninu. Við komumst aldrei almennilega inn í hausinn á persónunum.
Spænski tökumaðurinn Néstor Calvo gefur myndinni kaldan, léttan en hroðvirknislegan svip en græðir á prýðis djasspíanótónum í andrúmsloftinu. Leikstjórinn kvikmyndar þó ekki titluðu höfuðborgina á aðlaðandi eða einkennandi máta þegar fínt tækifæri gafst til þess að gefa henni smá auka karakter. Við sjáum aðallega skot af höfninni og glefsur af miðbænum, og kemur m.a.s. á óvart hvað lykilhlutar gerast augljóslega í Kópavoginum, eða hvað (gamla) Elko lindum skiptir söguþræðinum miklu máli. Þessi mynd hefði svo innilega átt að heita eitthvað annað.
Hringur er reyndar leikinn af nærgætni, smá sérvisku og sympatíu af Atla Rafni Sigurðarssyni, karakter sem er á annan veg svo óviðkunnanlegur og óspennandi. Stúlknabrask hans, tilvistarkreppa eða breytingarskeið skilar ekki af sér sannfærandi örk (og lokasenan, þó svo að hún þematískt smelli, er algjör hörmung…). Framvindan gengur á notalegum hraða en dregur helbert tómarúm eftir sér þegar ekki einu sinni Elsa kemur út sem þrívíður eða heillandi karakter. Með meira í höndunum hefði Nanna Kristín getað skilið meira eftir sig, því vannýtt er hún. Gríma Kristjánsdóttir er sömuleiðis sætt andlit í leit að propper karakter, býsna klunnalega meðhöndlaðan miðað við mikilvægi. Aukaleikarar í heild sinni eru vægast sagt missannfærandi.
Hringur rakkar annars niður allt „bíódraslið“ og kýs innihaldsríkari, dýpri, listrænni og sannleiksríkari kvikmyndir sem sífellt gefa. En umræddur karakter er staddur í sögu sem verður fljótt að vondri klisju, og stöðugu tilvísanirnar í vandaðri myndir eða þær sem glittir í (þ.á.m. The Fountain, Brazil, Pulp Fiction, Santa Sangre… Vonarstræti, sem fær þarna gargandi plögg) freista mann meira um að beila á þessari og horfa á eitthvað annað í staðinn. Ásgrím væri ég þó alveg til í að sjá prufa sig meira áfram.