Alice Through the Looking Glass

Af óskiljanlegum ástæðum náði Alice in Wonderland frá 2010 að slefa yfir milljarð dollara í heildaraðsókn, mynd sem er enn í dag sú versta, ljótasta og þurrasta frá Tim Burton. Hönnunin ágæt en maðurinn sóaði spikfeitu tækifæri til þess að gera eitthvað áhugavert, fjörugt eða spennandi úr efnivið sem allir héldu áður að smellpassaði honum. Í staðinn fylgdi bara drasl handrit, persónur sem ekki alveg virkuðu, óbærilegur Depp-trúður í of miklum forgrunni og leikarar sem blönduðust ekkert of vel við fínu bakgrunnina og brellurnar í kringum þá. Ég veit svosem ekki til þess að margir hafi beðið um framhald af henni – Burton aðdáendur hvað síst – en það er ekki eins og sé ekkert hægt að leika sér með þennan heim, og þurftu ekki mikla töfra til að slá út forverann.

Burton skellir á sig framleiðendahúfuna og sest Muppets-leikstjórinn James Bobin þarna í staðinn, til að viðhalda sama stíl og andrúmslofti en beita eitthvað af sínum brögðum. Hins vegar er úr takmörkum efnivið að sækja, kaldhæðnislega. Fyrri myndin var í sjálfu sér framhald að fyrstu sögu Lewis Carroll, og tók sitt og hvað úr bókinni Through the Looking Glass. Nú bætist við framhald af því, sem á varla neitt sameiginlegt með sögutitlinum sem það sækir í og vippar upp „frumsaminni“ tímaflakkssögu þar sem Alice er bókstaflega í eltingarleik og baráttu við Tímann, eða persónugervingu hans – leikinn af Sacha Baron Cohen.

alice-through-the-looking-glass-tv-spot-600x338

Fyrir mér er annars grátlega erfitt að detta inn í söguþráð sem í grunninn snýst um að bjarga lífi hattarans hans Johnny Depp. Ég skil ekki enn hvað þeir Burton voru upphaflega að pæla með þennan andsetta, skrækjandi aulatrúð en fáum handritum er viðbjargandi þegar honum er gefið svo stórt hlutverk í sögunum. Það allra jákvæðasta sem ég get sagt um hann í framhaldsmyndinni er að hann tekur ekki eitt einasta dansspor.

Í Alice Through the Looking Glass má finna ýmis flott concept-art, jákvæð gildi og ágætan boðskap, þó svo að allar fjölskyldumyndir sem snúast um að slást við tímann hafa hið sama að segja („nýttu hann vel“, o.s.frv. – Spy Kids 4 tók t.d. nákvæmlega sama vinkil, bara verr). Bobin reynir í það minnsta að bæta á (vonda) forvera sinn og reynir að vera náttúruleg framlenging frekar en að velja ódýrri, endurtekningarleiðina. Breytir því þó ekki að Alice Through the Looking Glass er alveg jafn sjarmalaus, innantóm og ó-skemmtileg og hin var, en ef líf mitt ylti á því að ég þyrfti að horfa á aðrahvora þeirra aftur, þá myndi ég frekar velja þessa. Munar um hársbreidd á ketti.

Alice_Through_LookingGlass_trailer2

Mia Wasikowska er prýðileg leikkona en aldrei finn ég fyrir miklum neista eða hálfri orku í hennar performans. Helena Bonham Carter fyllti öskurkvótann sinn í fyrri myndinni en það stoppar hana ekki frá því að endurtaka sig. Anne Hathaway fær reyndar ögn meira til að spila með, eins lítið og það segir.

Baron Cohen sækir meira í gamla takta frekar en að móta eitthvað fyndið eða minnissætt við ‘Tímann’ sem hann leikur, en hann er allan daginn líflegri en flestir í kringum sig sem eru ekki of háfleygir. Cohen leikur ekki þetta týpíska illmenni, og í rauninni er það sá karakter sem ég skildi hvað mest því það er borderline sjokkerandi hvað Alice tekur sjálfselskar og brenglaðar ákvarðanir í þessari mynd til þess að peppa lífsviljanum aftur í idjótinn sem Depp leikur.

Sacha Baron Cohen is Time in Disney's ALICE THROUGH THE LOOKING GLASS, an all new adventure featuring the unforgettable characters from Lewis Carroll's beloved stories.

Útlitslega séð er umgjörðin enn heldur töfralaus. Bobin tekur sömu nálgun en hleypir aðeins meiri litadýrð í sína útgáfu. Fínir, súrir rammar annað slagið en vandinn er hinn sami; hönnun brellnanna kemur þrælvel út en hefði miklu frekar þá bara átt að gera söguna að beinni teiknimynd – leikararnir síast skelfilega oft í þessi umhverfi og finn ég alltaf fyrir grænu/bláu tjöldunum.

Þegar allt kemur til alls er efniviðurinn og sérstaklega karakterarnir mjög ósamkvæmir þeim sem Carroll skrifaði, eins mikið og lúkkið og veröldin kallar sig í stíl. Alice Through the Looking Glass er sandpappírsþunn undir allri glans-grafíkinni og með allan þessar baksögur sem hún hleður upp virkar hún meira bara sem blanda af framlengingu og uppfyllingu frekar en heilsteypt og skemmtileg saga. En… ég býst við því að þetta sé ekki of mikil tímasóun ef kynni að viðkomandi sé a) aðdáandi fyrstu myndarinnar og b) með brennandi þörf á því að vita svörin við spurningum eins og: hvernig stækkaði höfuðið á Hjartadrottningunni? Hvernig var æska og föðursamband Hattarans? Hvernig leit Chersire-kötturinn út sem kettlingur?

En fyrir okkur í meirihlutanum, pass.

bladn

Besta senan:
Af sentimental ástæðum vel ég þessar nokkru setningar sem Alan Rickman fékk.
Þetta er seinasta myndin sem hann tók þátt í
Bömmer.

Sammála/ósammála?