Captain America: Civil War

Hér er kominn sólid pakkadíll fyrir Captain America; Winter Soldier-framhald, Avengers-samkoma, ídealógísk ágreiningarsaga og Spider-Man trailer rúllaður upp í hasarblaðafjör með dekkri, fullorðinslegri þemu en Marvel-myndirnar hafa kennt sig við, þannig séð.

Captain America: Civil War sækist í það að henda út eins mörgum nördaglaðningum og hún getur á móti því að rífa ljúft í hjartarætur allra strangtrúuðu MCU-fíklana. Tekin er pása frá því að setja heiminn í hættu og snúast núna stóískar hetjur gegn sér sjálfum, yfir sáttmála sem krefst þess að Avengers-teymið svari (aftur) til yfirvalda. Ekki eru allir á sama máli með það og persónur alflestar á viðkvæmum stað fyrir, sér í lagi Steve Rogers og Tony Stark sem standa á sitthvorum endanum, og gera sitt besta til að leyfa ekki hvatvísinni að ráða. Ágreiningurinn magnast hressilega og snýst allt um hvert strögglið mun flytja karakterana andlega… eða hvert þeir þurfa að vera komnir þegar Infinity War hefst.

20264196-mmmain

Persónulega hefði ég viljað sjá dramað og átökin rista dýpra, en það er erfið krafa þegar þarf að halda svona mörgum karakterum á lofti. Gengur þó ágætlega að halda kafteininum og hans lykilörk í fókus, þó ekki er alveg hægt væri að segja það sama um félaga hans, Bucky, sem er öll miðjan í stærsta conflict’i sögunnar.

Tony Stark myndar annars góðan „andstæðing“ og gengur almennt vel að balansa flesta aðra í söguþráðinn. Þetta jaðar við það að vera of mikið og dregur ofhleðslan úr dramabyggingunni sum staðar, sérstaklega í undarlega flýttum og léttum eftirmála. Megingalli myndarinnar kemur að samantektinni og hvað viðburðir eða útkoma sögunnnar virðist hafa (þannig séð) lítil áhrif á status-quo‘ið í stærri Marvel-heiminum.

Marvel's Captain America: Civil War..L to R: Captain America/Steve Rogers (Chris Evans) and Black Panther/T'Challa (Chadwick Boseman)..Photo Credit: Zade Rosenthal..? Marvel 2016
Civil War er önnur myndin í lengjunni hjá Russo-bræðrunum, sem aftur sanna hvað þeim er annt um efnið sitt, ekki síður kafteininn. Bræðurnir eru að auki góðir með leikara sína og sýndu í Winter Soldier að þeir fara létt með að skjóta einhvern flottasta praktíska hasar sem hefur sést frá Marvel. Í þessari mynd förum við frá íbúðarblokk Buckys yfir í eltingarleik á götunni í einum brjáluðum hasarsekvens sem varla tekst að toppa í adrenalíni (og Bucky að flippa mótorhjólið er alsvalasta skotið í allri myndinni).

Tökustíll bræðranna er flottur en ekkert ógurlega stílískur (og það er eitthvað útlitslega óspennandi við það að 99% af hasarnum og myndinni gerist í dagsbirtu… ódýrari tökur eflaust?). Bræðurnir eru að öðru leyti býsna sterkir í því að viðhalda dramatískum tón án þess að kippa undan með of mörgum „upp-úr-þurru“ bröndurum. Bardaginn á flugvellinum er sá eini sem fer aðeins yfir línuna með djókana, þar af leiðandi breytast frekar alvarleg átök hratt í ótrúlega vel útfærðan „gannislag“.

ca3-9

Civil War græðir almennt séð á því hvernig hún byggir ofan á marga forvera sína, fyrir utan vissar gloppur, en hasarinn heldur manni vegna þess að karakterarnir eru alflestir skemmtilegir. Chris Evans og Robert Downey Jr. hafa staðið sig eins og höfðingjar í því að gera sín hlutverk að þeirra eigum og báðir tveir eru algjörlega upp á sitt besta hér. Downey sérstaklega fær meira til að leika sér að með brotnari Stark en áður.

Elizabeth Olsen nær að heilla með skýrara, betur skrifað hlutverk hér sem Scarlet Witch en í Age of Ultron, eitthvað sem væri gaman að geta sagt um Vision. Paul Bettany er frábær en hann er skuggalega vannýttur og virkar sama og aðgerðarlaus út megnið af átökunum. Það er magnað hversu litlu hann nennir í söguþræðinum.

Aðrir eru í fínum málum. Scarlett Johansson, Anthony Mackie, Sebastian Stan, Don Cheatle, Jeremy Renner og fleiri. Daniel Brühl mótar ekki mest grípandi skúrkur MCU myndanna (sjokker!) en sökum lítils úrvals er hann með þeim sterkari. Áherslan er auðvitað öll á kafteininum og Járna og eru ekki mikil þörf á Brühl, utan þess að tengja saman plottpunkta A til B, en það eru smáatriði í frammistöðu hans sem gefa makalaust heppna illmenninu sem hann leikur einhverja dýpt. Enginn kemur annars vegar betur út í myndinni en Chadwick Boseman sem Black Panther. Hann er ágætlega þræddur í plottið og fylgir sinni eigin örk, hefði e.t.v. mátt vera ögn meira af honum í miðbikinu. Paul Rudd hlýtur þó heiðurinn á því að vera stærsti senuþjófurinn.

the-civil-war-aftermath-1461879691

Nýi Spider-Man tekst annars vegar að rokka áheyrnarprufu sína stórglæsilega. Tom Holland er flottur Spidey sem smellpassar í Disney-Marvel heiminn en ég hef á tilfinningunni að hefði þetta verið einhver önnur hetja kynnt til leiks svona seint í myndinni hefði verið auðvelt að fórna henni í stærra samhenginu (og gert þá meira við pardusinn í staðinn, eða Bucky). Spider-Man spilaði vissulega lykilhlutverk í Civil War-myndasögunni sem hér er vægast sagt lauslega sótt innblástur í. Þetta er persónuleg saga en undarlega ó-epísk miðað við hráefnið og aðrar Marvel-sögur – og eins gott að farið var sparlega með því að sýna flugvallarbardagann aldrei í of víðum skotum.

Captain America: Civil War er ekki eins þrumugóð og Winter Soldier – sem gat næstum því staðið sem sjálfstæð eining – en gerir samt margt af því rétt við sinn þungt pakkaða efnivið sem t.d. Batman v Superman gerði rangt með sínar hetjur, hugsjónir og leiðir til þess að strá út fræjum fyrir áframhaldið. Myndin er þétt, skemmtileg og nær örfáum tilfinningahöggum í smáu atriðunum.
En gangi Russo-bræðrunum vel þegar þeir þurfa næst að bæta við fimmfalt fleiri karakterum.

 

7

Besta senan:
Með Bucky í byggingunni, og allur eltingarleikurinn í framhaldi af því.

Sammála/ósammála?