Independence Day: Resurgence

Það er sama á hvaða aldri þú ert, því verður ekki neitað að Independence Day er absólút hornsteinn yfirdrifinna ’90s blockbuster-mynda; ófullkomin að eðlisfari en í heildina þrælflott poppskemmtun sem lagði sterka teina fyrir módel sem ófáar dýrar, sprengjuóðar Hollywood myndir myndu fylgja. ID4 tók ameríska væmni og einfaldað eyðileggingarklám á ‘Michael Bay-legt’ level áður en Bay fór sjálfur að venja sig á hið sambærilega. En þó gæðin séu umdeild finnst mér myndin umfram allt hlaðin skrautlegum leikurum, eftirminnilegum atriðum og pósitífum skilaboðum um samvinnu og „fokk-já-drepið-þær(!)“ krád-plíser gildi.

Nú eru tuttugu ár liðin síðan hún kom út. Aðdáendur biðu í öll þessi ár eftir framhaldi og fá í staðinn… mjög langan trailer fyrir næstu sögu.

Fyrri myndin leyfði sér annars að vera virkilega, virkilega heimskuleg, en Independence Day: Resurgence þrefaldar greindarskortinn, losar sig við öll æpandi þemu og mínimal persónusköpun, kýs þá í staðinn að vera rugl hröð, makalaust rugluð og metnaðarfull hasar-, rúst- og geislabyssuveisla. Fullt af karakterum, endalaus tortíming (enda eru geimverurnar að bókstaflega ryksuga jörðina í þessari lotu) en allt svo innantómt og stundum furðulega illa klippt og leikið ofan á það. En 9-ára-ég, þessi sem sá ID4 fyrst í bíó, hefði trúlega ELSKAÐ Resurgence.

Hvort það sé góður hlutur eða ekki, veit ei enn.

maxresdefault

Sem ‘schlocky’, glóbal-epísk spennufantasía er annars nóg af góðum pörtum í henni til þess að hún verði aldrei of leiðinleg, og það gerist líka þegar aldrei er dauð sekúnda í henni, sem skrifast einfaldlega á lengd (Resurgence er hálftíma styttri en fyrri) sem reynir að pakka fullmiklu í einn graut. Stefnurnar og hugmyndirnar í henni eru stórar, stundum áhugaverðar en oftast nógu brandaralega kjánalegar – eins og viðbjóðslega hentugu lausirnar sem handritið gubbar út – til þess að sé varla hægt að segja að hún komi ekki á óvart á köflum.

Annað en árið 1996 virðist þurfa miklu meira til þess að áhorfendur verði almennilega dolfallnir yfir tölvubrellum, sci-fi ævintýri eru þar í sérflokki og eins með heimsendamyndir. Í brelludeilinni verður margt gott til hér úr pixlahrúgunni en áferðin og almennt andrúmsloftið í Resurgence á ekki roð í það sem Emmerich púllaði með fyrri myndinni (stílískt séð hefur hann meira versnað sem kvikmyndagerðarmaður eftir að hann færði sig dýpra ofan í stafræna formið). Tónlistin er líka ekki að gera sig á pari við David Arnold músíkina áður fyrr, Harald Kloser er bókstaflega ekki að hitta á réttu nóturnar og ýtir ekki undir dýrðina og sjónarspilið eins og hefði mátt gera.

id4-gallery5

Leikaraliðið nær vægast sagt misvel að halda andliti yfir skítvondum díalog… sem myndin er mjög oft meðvituð um, blessunarlega. Jeff Goldblum er þarna vissulega fremstur á meðal allra, líkt og seinast, með sinn slánalega silfurrefssjarma og takta sem sjónlaust fólk getur ekki einu sinni tekið of alvarlega – hann er æðislegur. Aðrir í gamla hópnum eru umtalsvert flatari. Vivica A. Fox sóast í ónýtu gestahlutverki, Judd Hirsch er ágætur en sub-plottið hans hefði átt að hætta í miðbikinu. Síðan er Bill Pullman afleitur og strax skýst í hausinn á manni af hverju við höfum ekki séð þennan mann af viti eftir aldamótin. Hann rembir sig út en verður bara kómískur. Brent Spiner fær annars mörg tækifæri til þess að vera megahress, enda þrælvirkar hann í sínum gír og virðist fullkomlega var við hvers konar mynd hann er að leika í.

Nýliðarnir skipast til og fá. Jesse T. Usher lekur ekki af neinu karisma og stendur ‘föður’ sínum í fyrri myndinni ferlega langt að baki (og ef út í það er farið er hreinn og beinn brandari hvernig fór fyrir örlögum Wills Smith í sögunni). Maika Monroe hefur sínt ágætisgetu í The Guest og It Follows en hún skilur ekkert eftir sig frekar en mökkleiðinleg Charlotte Gainsbourg, annað en William Fichtner – sem á algerlega heima hérna! – og Liam Hemsworth. Hvað hann einmitt varðar virðist hann vera á meðal þeirra fáeinu í myndinni sem líta út fyrir að vera að skemmta sér konunglega. Hef sjaldan séð Liam svona peppaðan, kann við það. Svo týnast þarna inn enn fleiri einhliða spýtufígúrur, sumar fjörugri/þolanlegri en aðrar, en í það minnsta sjáum við afrískan stríðskóng höggva geimverur með sveðjum. Sveðjum!
Og já, gleymum ekki að þarna er hent hálfri Asíu ofan á Bretland.

id4-gallery1

Fyrri myndin var tæknilega séð grautþunn afþreying sem á pörtum og heilt yfir slysaðist til þess að vera býsna góð. IDR er það sama, augljóslega, en á annan veg svo mikið rusl í samsetningu að hún slysast meira til þess að vera býsna skemmtileg, sérstaklega því lengra sem á þvæluna líður. Eina sem myndin nær ekki fyllilega að graspa er hugmyndin um aðrar geimverutýpur, í þessu tilfelli háþróaðar vélverur sem líta út fyrir að vera hannaðar af Apple. En aftur, þetta tengist því að myndin er að troða öllu og eldhúsvélum í eina sögu þegar hún er sívalhoppandi milli haug karaktera, og við erum varla hálfnuð með það að gera upp seinustu 20 ár sögunnar og fótfesta þessa mynd sem alvöru framhald áður en við erum allt í einu komin að risabyggingu að einhverju miklu stærra og brenglaðra, sem við fáum svo ekki að sjá fyrr en í næsta kafla, tilvonandi.

En, ef gerð verður önnur hef ég ágætan áhuga að leggja í hana, sjálfsagt ef óalvarlega alvarlegur Goldblum snýr aftur í sínum fíling. Það er líka eitthvað svo fullnægjandi við það að sjá mannkynið lúskra á illum geimverum – sem fljúga á svo yfirdrifið stórum skipum að þessu sinni að þeim tekst að skreyta jörðina okkar með höfuðfati í fjarska, en eins og við öll vitum fær enginn að messa í okkar plánetu og rústa umhverfinu nema við sjálf!

En á blíðari nótum er aðeins búið að tóna niður ameríska vælið (með kínasleikjunni viðbættri í staðinn), þó Emmerich virðist alltaf vera jafn gefinn fyrir því að bjóða upp á leik sem heitir „spottaðu stereótýpuna.“ Æ, hvað um það, reynið bara að njóta flugeldana, og helst hlæja að þeim.

 

fin

Besta senan:
Skemmdarmanía í London sem er svo yfirdrifin og skerí að meira að segja Goldblum pissar á sig.

 

Sammála/ósammála?