Teenage Mutant Ninja Turtles: Out of the Shadows

Það er ekki beinlínis sanngjarnt að búast við að ‘Törtless’-mynd, af öllum, muni teljast til hágæðaverks, enda heilalaust skrípóbíó í sínu heilalausasta – og sérstaklega samsett handa annaðhvort krökkum eða krakkanum í (late-’80s…) eilífðartáningum. En þeir vita nákvæmlega að það telst meira til góðs heldur en ekki að sjá fjórar, flatbökuétandi skjaldbökuninjur slást við upprétt vörtusvín, nashyrning og talandi heilaskrímsli frá annarri vídd, allt svo lengi sem ræman drekkir sér nógu mátulega í þeim kjánagangi sem hún faðmar svo fast að sér og viðheldur afþreyingagildinu. Þessi gerir einmitt það… mér til geysilegrar undrunar.

Með sinn hundlanga titil er Teenage Mutant Ninja Turtles: Out of the Shadows að hér um bil öllu leyti betri mynd en sú fyrri, með miklu fastari tök á kjarna og upprunarótum sínum (og hún fær þrjú nördastig aukalega fyrir lokalagið! – ásamt hentugri Vanilla Ice tilvitnun). Forverinn frá 2014 lagði pínu ljótan, latan en ásættanlegan flöt en spilaðist að mestu bara út eins og stutt, hamrandi og hávær Michael Bay-laus Michael Bay mynd. Nú er búið að skipta gamla leikstjóranum út fyrir annan sem hefur aðeins meiri sál og betur skólaður í því að leika sér að ’80s væb (sjá t.d. Earth to Echo) sem fylgir hér með eins og nauðsynlegur fylgihlutur.

maxresdefault (2)

Nú er kominn enn yfirdrifnari hasar og meira en nóg af honum til að fylla út í bratta setu en á móti kemur einnig meiri fókus á samspil og samband bræðrana. Langanir, einkenni og persónuleiki hvers og eins fær að njóta sín og handritið kemur fram við þá eins og hlýja og umhyggja fyrir þeim innan um alla flugeldana og klisjurnar. Hasarinn er líka nýttur fyrir allan peninginn; litríkur og frá mínum enda akkúrat allt sem hann á að vera. Hann er allur á pari við einu afberandi senunni úr fyrri myndinni, eltingarleikinn í fjöllum. Aldrei verður hasarinn of kaótískur, illa klipptur og bæði tölvudeildin og leikstjórinn leyfa sér að nota sjónræna tungumál pixlanna og mikla orku til þess að henda þér í miðjuna á öllu. Gæti þetta líka verið ein af fáu 3D myndum sumarsins sem virðist alveg vita hvað á að gera við það formatt.

Megan Fox verðskuldar það enn ekki að vera ausuð neinu lofi en þegar andrúmsloftið snýst allt um að fanga krakkaþáttafíling smellir hún inn og af áhuga sem sýnir að hún sé greinilega til í þetta. Steven Amell gerir nokkurn veginn það sama. Hann verður aldrei hressari Casey Jones heldur en þegar Elias Koteas lék hann, en Amell er býsna ágætur og í bullandi stuði alla myndina, eins og hann nái aldrei að þurrka ánægjuglottið af sér fyrir tökurnar. Eins get ég líka sagt um Tyler Perry, en hann er æðislega meðvitaður um það í hvernig mynd hann er staddur (sama gildir enn með Gob Bluth).

maxresdefault (1)

Bætast svo við góðkunningjar aðdáendanna, sumsé Bebop, Rocksteady, Krang og margfalt flottari Shredder, eins vannýttur og hann er, en allir eins ýktir og furðulegir og þeir eiga að vera. Enginn passar samt þarna verr inn heldur en eina leikkonan í myndinni sem er af hærra kalíberi en allir – en ætti að vita betur: Laura Linney, lítandi út eins og hún flytji hverja línu með mestu óbeit innanvið.

Unnendur gömlu teiknimyndanna (eða Secret of the Ooze jafnvel…) gera sér nú varla stórar kröfur en annað en seinustu TMNT-myndir virðist þessi algjörlega vita hvers hún ætlar sér, fyrir vikið fannst mér þrælgaman að horfa á hana og væri alveg til í að leyfa öðru svona eintaki að berja úr mér vitið.

 

7

Besta senan:
Flugvélahrapið og allt með’ví.

Sammála/ósammála?