The Nice Guys

Í Shane Black myndum er tvennt í boði fyrir helstu karaktera; annaðhvort eru þeir grjótharðir töffarar, eða þeir reyna að vera töffarar, og þeim er stillt þannig upp að þú getur tekið þá alvarlega og sömuleiðis hlegið meira að þeim en með. Black skrifar yfirleitt frekar manneskjulega og hversdagslega karaktera/skíthæla sem finna sig í ýktum, farsakenndum kringumstæðum og Russell Crowe og Ryan Gosling eru engin undantekning þar – og meiriháttar dúó mynda þeir, en það verður að skrifast að hálfu leyti á Black og bráðaofnæmi hans fyrir því að leyfa bíómyndum sínum að detta í sjálfsstýringu.

Ef þú veist hver Black er og kannt að meta manninn, er ekki fræðilegur séns á öðru en að þú takir á móti The Nice Guys býsna opnum örmum. Black er að vísu duglegri en aðrir að sækja í sínar eigin hefðir en er að mínu mati snillingur í ‘böddí’-dýnamík og attitjúd-samræðum (The Last Boy Scout er t.a.m. vanmetin snilld, The Long Kiss Goodnight bráðskemmtileg líka), með góð tök á því að spila með væntingar í yfirleitt býsna harðsoðnu formi þar sem testósterónið er testað. Fyrir utan það þótti mér hann gera ótvírætt bestu Iron Man myndina en The Nice Guys svipar sterkt til óborganlegu leikstjórafrumraun hans, Kiss Kiss Bang Bang (og varla síðri að mínu mati). Sumir gætu sagt *of* sterkt og það er nánast orðin fyrirsjáanleg formúla hvernig Black elskar að taka u-beygjur með aðstæður eða klisjur, en alltof erfitt er að neita því hversu áreiðanlega sterkur hann kemur þar inn.

download

Hnyttið handrit, snjöll framvinda, yndislega flæktur söguþráður og æðislegir karakterar, allt þetta púslast í stórskemmtilegan hlaupagang. Black sækir í retró-noir spæjarasögu og bragðbætir umgjörðina með flottu ’70s andrúmslofti og tilheyrandi tónlist. Innihaldið nýtir líka tímabilið vel, sérstaklega út frá L.A. (klám)iðnaðinum sem hún snýst kringum.

Báðir Crowe og Gosling hafa oft sýnt sig færa um hversu öflugir þeir eru þegar þeir eru grafnir í réttu hlutverkin, og með svona fyndið handrit, hlaðið fíflafrösum og munnlegum typpakeppnum, verða þeir ómetanlegir í samspilinu. Báðir með gerólíkar aðferðir, hreðjar og persónuleika, en dissa hvorn annan frábærlega og fer Black með arkir þeirra og galla í skondnar áttir. Hin 13 ára Angourie Rice er aftur á móti ein besta viðbótin í hópinn sem dóttir Gosling, sem gæti trúlega verið skarpasti, heilbrigðasti karakter myndarinnar. Matt Bomer, Keith David og fleiri fá einnig séns til þess að gerast litlir senuþjófar.

The Nice Guys rúllar meira á offbeat-gríninu og aðstæðunum heldur en athygli eða áhuga manns á alvöru plottinu. Hins vegar geislar mikið af skíthælunum og standa karakterarnir og ruglið sem þeir lenda í upp úr. Ég hló oft, brosti stanslaust eins og lúði og held að þetta gæti orðið ein af allra kvótanlegustu myndum þessa árs. Gott er að venja sig á að alltaf veðja á Black.

 
8

Besta senan:
Á rúntinum með svefngalsa.

Sammála/ósammála?