Warcraft

Vesalings tölvuleikjamyndirnar, tekur þær heila eilífð að fá breik eða svo mikið sem eitt almennilega framúrskarandi eintak til að lyfta bölvuninni. Lykilinn er oft að finna í passjóninu fyrir efninu og viljastyrk fyrir vandaðri kvikmyndagerð, þess vegna hefði ég haldið að harður aðdáandi og dúndurgóður kvikmyndagerðarmaður eins og Duncan Jones væri kindlaberinn að sinni. Moon og Source Code eru báðar frábærar, en gerðar fyrir brot af þeim pening sem Jones hefur sér að nú. Tröllvaxin, brelluhlaðin epík er honum algerleg ókannaður flötur. Það er ekki lítill metnaður sem fylgir því að flytja svona komplex, high-concept fantasíu á tjaldið í líkingu við Warcraft, og bæði opna veröldina fyrir nýgræðingum og fullnægjir dyggustu spilendum.

Jones hittir næstum því í mark með því sem hann er að gera, og telst það til afreks út af fyrir sig að hann slái frekar í síðri Hobbit-myndirnar frekar en sveppamyglu eins og D&D myndina); heimurinn er pakkaður smáatriðum, nördaglaðningum, dýpt, sögu og lífi og skilar það sér betur með helflottum tölvubrellum, sem betur fer kostnaðarsömum. Fótó-realismi er ekki mikið í spilunum en skiptir öllu að þú kaupir umhverfin eða orkana sem blasa við þér. Svipbrigðin og útkoma Mo-Cap frammistaðana skilar í rauninni af sér betra drama og meira spennandi senur hjá orkunum heldur en mannfólkinu nokkurn tímann.

warcraft still orc human faceoff

Leikarahópurinn er ekki alslæmur, en aldrei neitt til að hrópa húrra fyrir heldur. Að Toby Kebbell frátöldum í hlutverki lykilorksins Durotan ná Travis Fimmel (Vikings), Dominic Cooper og Ben Foster rétt svo að uppfylla hlutverk sín en skilja ekkert eftir sig. Paula Patton og ungi galdrakallinn leikinn af Ben Schnetzer eru eitthvað aðeins týndari, Patton er heldur ekki að gera takmarkaða sjarma sínum mikinn greiða með plastgóminn í kjaftinum.

Warcraft: The Beginning (blegh…) er sáraeinföld en í senn óþarflega flækt og sundurlaus á tíðum í sögurennslinu. Þunnu prófílar karakterana eru auðvitað partur af issjúinu, fyrir utan það hvað átökin og persónuákvarðanir eru eins ógrípandi og þau eru flott, samtölin endalaust upplýsingadrifin og stirð, flæðið taktlaust. Vel gæti ég trúað því að Jones hafi sett saman miklu lengri útgáfu af þessari mynd. Þannig spilast hún allavega út fyrir mér. Hún verður aldrei of hallærisleg og virkar þvert á móti býsna góð, eða réttar sagt býsna góð epík sem hefur verið útúrþjöppuð í meðallengd og skortir allt meðfylgjandi kjöt. Ekki vond mynd, bara sködduð. Myndin velur líka ódýra leið með endinum og heldur fullmörgum þráðum hangandi á lofti og deplar öðru auganu segjandi þér að allt haldi áfram í næstu mynd.

warcraft2

Ég hef hins vegar bara rétt svo dundað mér við Warcraft 2 leikinn, hef ekki hugmynd um hvernig hún leggst almennt í harðari neytendur eða stærri WoW markaðinn (ég hef heyrt alltof mismunandi hluti), en trúlega gera þessir hópar allt aðrar kröfur til sögugerðarinnar en ég. Myndin tekur nokkur hænuskref áfram fyrir tölvugetu fantasíugeirans, en vandræðalegi hluturinn er að betri ‘tölvuleikjamyndin’ þetta árið virðist vera Angry Birds.
mehh

(Sjáum hvað Assassins’s Creed færir okkur í vetur)

Besta senan:
Kind.

Sammála/ósammála?