Finding Dory

Öll erum við orðin pínu ofdekruð af Pixar, merkinu sem einu sinni var tákn um viss gæði í hverri lotu. Það er smekksbundið hjá hverjum og einum hvenær stúdíóið fór aðeins að detta í lægri standard (sumir myndu segja Cars, margir Cars 2 – ég segi Brave) og það er lítil huggun í framhalds-færibandinu þeirra, nú og framundan. Eftir gargandi gullmola eins og Inside Out í fyrrasumar leit allt út fyrir að vera komið á betra ról, en einni meðalfínni risaeðlu síðar og nú annarri fiskaleit er huggunin frekar komin á þann stað að meðalgott Pixar er sjálfsagt skárra en ekkert Pixar.
Í bili.

Finding Dory hvorki skríður né spriklar yfir þann þröskuld að vera mikið annað en „kjút“ framhaldsmynd sem skilur nákvæmlega ekkert eftir sig annað en farangurinn sem er dreginn með úr fyrri myndinni. Hún kemst ekki með sporðann þar sem hin myndin hafði hælanna í tengslum við hugmyndaflug, stærð, hjarta eða eins spennandi framvindu (og þetta kemur frá manni sem telur Finding Nemo vera örlítið ofmetna). Myndin auðvitað breytir aðeins um sögusvið – og hlýtur hvað mest af frumleikastigum sínum fyrir að gerast mestmegnis á þurru landi – og setur aðra persónu í lykilfókus en síðast, en inn við beinið er framvindan fullsvipuð og nýju karakterarnir ekki nógu minnisstæðir til þess að lyfta myndinni upp á áhrifararíkara plan, eða losa hana við krúttstimpilinn.

maxresdefault (1)

Þemun eru í raun þau sömu, þar sem allt hringsnýst í kringum mikilvægi ástvina, náungakærleiks og fjölskyldu, en úrvinnslan er einfaldaðri en síðast og þess vegna lendir Finding Dory í þeim pytt að ná trúlega betur til yngri hópa heldur en foreldra þeirra eða jafnvel unglinga. Sterkustu Pixar-myndirnar ná venjulega að haka við hvern einasta aldurshóp en þar spilar líka húmorinn inn. Hefði Finding Dory viðhaldið sínum betur og komið meira á óvart ætti hún lengra líf frammi fyrir sér, hjá mér a.m.k.

Þegar bíómynd snýst öll um persónu sem þjáist af skammtíma minnisleysi getur það komið vandræðalega út ef lokavaran hefur lítið afl til þess að hún tóri í minninu. Tilfinningin er þannig hér, þó auðvitað sé ákveðin huggun í því að eyða aftur tíma með Marlin, Nemo og (upp að vissu marki) Dory. Bestu partarnir við framhaldssöguna snúa samt að smekklegum yfirtónum í garð uppeldi barna með sérþarfir – og fáir sem eru ekki fýlupúkagerpi geta neitað því hversu dúlló litla Dory er í flassbökkunum – þó endurlitin sjálf vefjast mjög klunnalega í meginþráðinn. Finding Dory hefur hlýjan, jákvæðan og peppandi kjarna en hvernig sumir sögupunktar stökkva frá A-til-B jaða einfaldlega við sóðaleg handritsskrif, með fleiri klisjum en m.a.s. Pixar ættu að kæra sig við.

Hvort að Finding Dory sé fyllilega verðugt framhald er eitthvað sem harðari aðdáandi fyrri myndarinnar þyrfti að svara. Ég myndi skófla henni í sömu hrúgu og Brave og Cars-myndirnar. Hún lítur vel út, sumir sprettir hitta í mark en sögugerðin snýr augljóslega meira að hinum yngri. Ekkert að því, fyrir utan að þegar fjölskyldan kemur sér saman til að horfa á tvennuna verður það örugglega rísandi um ókomna framtíð að foreldrarnir eða unglingarnir sitji þessa út. Rétt tæplega syndir yfir miðjumoðsmörkin.

Vonum það besta með Incredibles 2.

fin

Besta senan:
Idris Elba sem selur.
Heimta spin-off mynd.

Sammála/ósammála?