Ghostbusters (2016)

Ghostbusters er ekki hið heilagasta gral sem þú getur kippt úr kvikmyndasögunni. Íkonísk ræma, engin spurning, og mynd sem á sér rótgrónar nostalgíurætur hjá mér persónulega en á tímum þar sem Hollywood er ítrekað gjaldþrota á ferskum hugmyndum var það aðeins tímaspursmál hvenær Draugabanarnir yrðu dregnir úr hatti endurgerðanna… af því bara.

Frummyndin er einstök skepna, og eldist bara býsna ágætlega. Húmorinn í henni er lágstemmdari og meira kaldhæðinn – í stað þess að vera eins framan-í-andlitið-á-þér sketsadrifinn eins og í þessari nýju – en það besta við hana er umhugsunarlaust andrúmsloftið, söguhnýtingin, karakterarnir og leikhópurinn.

Eftir að Paul Feig fékk hugmyndina að setja fjórar konur í aðalhlutverkin hafa margs konar kvennahatarar gert það mjög erfitt fyrir restina af internetinu að hafa marktæka skoðun á öllu öðru tengt þessu (t.a.m. voru sýnishornin hryllileg). Að endurgera Ghostbusters var slæm, slæm hugmynd frá byrjun, en það sama get ég ekki sagt með að blása fersku lífi í merkið. 2016 útgáfan reynir að gera hvort tveggja og gengur upp að hálfu leyti í hvoru tilfellinu.

GB-2016-05

Persónulega hefði ég viljað mynd sem væri ekki svona grimmt að reyna að minna þig á þá gömlu. Samkvæmt kreditlistanum fengum við líka svona 5 rendition/remix af gamla þemalaginu til að innsigla það ásamt misvandræðalegum línum eða gestahlutverkum. Væri ekki fyrir svona ítrekaðar „fan-service“ tengingar hefði verið auðvelt að meta endurgerðina á eigin spýtum, en samanburðurinn verður alltof óhjákvæmilegur. Kvikmyndagerðin og metnaðurinn í endurgerðinni er annars sýnilega slakari; subpar draugabrellur, sjónvarpsmyndafílingur á stílnum, asnalega æpandi ‘laumuauglýsingar’ (enda Sony mynd…), skringilegt flæði sum staðar sökum misfyndinna spunabrandara sem drepa rennslið og bjánalegt, vanþróað illmenni ofan á það.

En… ég get ekki sagt að mér hafi leiðst. Hún er betur heppnuð bíómynd en Ghostbusters II, hvað sem það segir.

Sumt virkaði í þessari nýju fyrir mér, annað alls ekki. Stelpurnar stóðu sig að mestu leyti og Chris Hemsworth var oftar en ekki skítfyndinn í stöðluðu ljóskuhlutverki sem léttilega hefði getað flogið á vegg hefði drengurinn ekki bara selt heimsku sína svona vel. Hefur þó eitthvað ekki farið smávegis úrskeiðis þegar fyndnasti aðili grínmyndar er ekki einu sinni starfandi grínari?

screen shot 2016-03-03 at 9.13.12 am

Kristen Wiig fannst mér klárlega síst og virðist ófær um að leika annað en vandræðalega, muldrandi sérvitringinn (…að frátaldri The Diary of a Teenage Girl) – sem virkaði vel fyrir hana fyrstu þrjátíu skiptin en hér reiðir hún á það að einkennin móti allan karakterinn fyrir sig. Hún er sú eina í hópnum sem ég hefði glaðlega skipt út.

Ég bjóst reyndar ekki við því að Leslie Jones yrði svona fín. Trailerarnir sýndu hana sem pjúra, gargandi stereótýpu en hún var býsna viðkunnanleg og fjörug. Hún hristir ekki algerlega af sér staðalímynd öskrandi, meðalgreindu blökkukonunnar en hún gefur hlutverkinu smávegis auka. Melissa McCarthy getur líka verið ansi heillandi þegar hún tónar niður slapstick’ið sitt.

Ghostbusters-2016-Movie-Wallpaper

Þá kem ég að Kate McKinnon, sem vel gæti verið sú hæfileikaríkasta af öllum hópnum og virðist vera sú eina af fjórmenningunum sem virðist hegða sér eins og hún sé stödd í teiknimynd. Frammistaðan virkar, þangað til hlutfall góðu brandaranna vinnur gegn henni og rembist hún fullmikið við það að stela hverjum einasta ramma (með grettum, háfleygum flutningum, dansmúvum eða pósum…) eins og hún geti ekki staðið kyrr eða tónað sig niður í fáeinar sekúndur. Sumsé æðisleg og pirrandi, en greinilega að fíla sig.

Paul Feig hefur gert margt ágætt á ferlinum (framlag hans til Freaks & Geeks þáttanna ber sjálfsagt af) og hefur hann greinilega mikinn áhuga á offbeat hegðunum og leikarasamspili. Kvikmyndagerðarmaðurinn í honum á annars talsvert í land, eins og sást á The Heat og Spy, sem stilltu sig upp sem pússaðar hasar-grínmyndir en flæddu eins og langir þættir og talent fyrir hasarsenum var sérlega ábótavant.

Sjónvarpsmyndavæburinn stafar af því að leikstjórinn nennir engri dýnamík með kameru sinni eða stílbrögðum. Þetta er standard skilgreining á „medium-skot/point-and-shoot“ brag á meðan sú gamla lék sér meira með atmóið og óttaðist það ekki að vera pínu súr og drungaleg. Hún prufaði alls konar tóna. Þessi nýja er bara sketsamynd með neon-draugum. Fílaði þó að nýja handritið reyndi – eða í það minnsta vildi – gera eitthvað við persónur sínar og samband þeirra. Vantaði meira af því.

Kevin (Chris Hemsworth) in Columbia Pictures' GHOSTBUSTERS.

Eitt það jákvæðasta við Ghostbusters ’16, og það segir meira um ástand endurgerða heldur en kosti hennar, er að hún er ekki skref-fyrir-skref afrit af framvindu gömlu myndarinnar. Hún er tvímælalaust háð sama strúktúr og svipaðri framvindu, en áherslurnar eru annars staðar, oft til hins betra. Feig er t.d. meira gefinn fyrir tæki og búnaði Draugabananna og þróun þeirra heldur en gömlu myndirnar.

Ghostbusters 2016 á hvorki skilið þennan skítastorm af neikvæðni né nokkurt ofurkurteist lof. Hún bara… er þarna; barnaleg, þvinguð, illa skrifuð en meinlaus og springur af vissri orku þegar hún dettur í gírinn sinn og fékk mig til að hlæja oftar en ég viðurkenni. Annars ekki eins bráðfyndin og hún heldur og heldur ekki eins prógressíf í kynjapólítikinni og hún heldur. Það eina sem heldur er afþreyingargildið og þá rétt svo, aðallega því að grunnhugmyndin er enn skemmtileg og nægileg virðing sýnd upprunanum samhliða því að prufa eitthvað nýtt í vissum skömmtum. Feig var kannski ekki alveg rétti leikstjórinn til þess að blása nýju lífi í Draugabananna en útkoman er því miður ekki lestarslysið sem kvennahatararnir vonuðust eftir.

 

mehh

Besta senan:
Hemsworth og feluleikjahatturinn.
Svo einfaldur er ég víst.

Sammála/ósammála?