Jason Bourne

Stundum er í lagi að segja stopp, annars er komin sú hætta að margendurtaka sig – og hún var svo sannarlega þegar til staðar ef við skoðum þennan þrælfína Bourne-þríleik sem nú er (aftur) búið að teygja óþarft lopann á.

Með fyrri myndunum var samt ágætis samheldni og að mínu mati var tekið skítsæmilegan grunn með The Bourne Identity og betrumbætt hann með bæði Supremacy og Ultimatum (sem, eins og við vitum öll, er besta myndin). En enginn yrði þó skammaður fyrir að blanda öllum þessum myndum saman í einn minningarhaug þegar framvindan gengur út á reiðan, áttavilltan, snjallan ofurnjósnara sem er eltur uppi af hættulegum mönnum á meðan hann leitar að svörum við fortíð sinni.

Þannig er söguþráðurinn búinn að vera í hverri einustu, og nýja framhaldið (með latasta titilinn af þeim öllum), Jason Bourne, gerir nákvæmlega ekkert nýtt við formúluna og kýs í staðinn bara að hnoða hana saman í „best of“ drullupoll, bara með heimskara handriti, óspennandi atburðarás og takti sem virðist öskra déjà vu.

JB-Footage-9

Eins svipuð og eintökin voru í þríleiknum náði keyrsla hverrar að skera sig aðeins út. Tókst líka að binda ágætis slaufuhnút á lokasprettinn þegar kom að Ultimatum (meira að segja aðalleikarinn sjálfur sagðist fyrst ekki geta ímyndað sér annað eintak án þess að feta í gömlu sporin). Stuttu síðar ákvað Universal að brandið væri einfaldlega of sterkt og tælandi til þess að sleppa, og úr því kom t.d. hin leiðingjarna og þreytulega The Bourne Legacy, sem tók ágætis hugmynd með því að segja hliðarsögu samhliða lokamynd þríleiksins en rúllaði hana upp í voða svipaðan graut og þessi nýja gerir, en merkilegt nokk finnst mér brenglað hvað Jason Bourne á erfitt með að réttlæta sína eigin tilvist.

Matt Damon, utan þess að gíra upp reiðissvipinn sinn og sýnilegt hvíldarleysi, er fámálli en áður og fær lítið aukakjöt til þess að japla á þannig að sé þess virði að leggja í enn einn hasarinn með honum, sérstaklega þegar persónusköpun hans á að skipta svona litlu máli. Hann hleypur, hann felur sig, klessir bílum eða lemur óþokka eins og ekkert sé áreynsluminna, en á sama tíma spriklar hann í svo óspennandi, klofnu plotti (sem á annan veg endurvinnur strúktúrinn úr Supremacy og hinn veginn vill vera cyber-þriller með Snowden-ískt Facebook/NSA lekamál í sigtinu) sem virðist ekki alveg vita hvað á að gera við hann.

Hjálpar heldur ekki að Tommy Lee Jones er tæplega að nenna þessu og Alicia Vikander, sem venjulega hefur verið frábær í réttum hlutverkum (meira að segja vondum froðum eins og The Danish Girl), er alveg úti á túni hér með hreim sem dregur mann ítrekað úr senum og karakter sem nær aðeins að vera hálf-athyglisverður. Hollusta þessarar persónu sem hún leikur er yfirleitt óljós og hennar mótíf hefðu getað gert meira fyrir kjarna myndarinnar, sérstaklega þar sem áhorfandinn nær ómögulega að festast við sjálfan Bourne því rútínan er öll svo kunnugleg.

Bourne-2016

Hins vegar er ánægjulegt að sjá hvað Paul Greengrass getur sjálfur afrekað mikið þegar hann er á sjálfsstýringu (svipað og Damon í raun), því oftar en ekki nær hann að viðhalda ákveðnum skriðþunga. Stundum leyfir hann sér – sem fyrr – að tapa augsýn á því hvenær taumlaus hristingur á kameru styrkir senuna og hvenær ekki (hann getur ekki einu sinni haldið vélinni kyrri þegar fókusað er á texta á símum), og sökum þess geta sumar hasar- eða slagsmálasenur dottið í smá overkill þegar séðar eru á tröllastórum skjá.

En Jason Bourne í það minnsta heldur ágætisdampi með að rífa þig milli sögusviða án þess að hætta á því að sagan lendi alveg á skrans, eins og kom t.a.m. fyrir hjá Doug Liman og Tony Gillroy. Óneitanlega eru líka vissir kaflar sem standa upp úr, svosem eltingarleikur í Aþenu. Bílahasarinn í Vegas er sömuleiðis vel útfærður en virkar sama og tilgangslaus, og alltof langur. Hann er bara þarna til að gefa framleiðslunni einhvern hápunkt til að klára söguna á, og monta sig með það að meiri peningur hefur farið í þessa Bourne-mynd en hinar.

En stærra er aldrei betra þegar afgangurinn á efniviðinum er stanslaust að sækja í það gamla og sem framlenging á skotheldum þríleik er hreinlega undrandi hversu litlu þessir lykilaðstandendur seríunnar hafa við að bæta. Bestu meðmælin sem ég gef gefið henni eru einfaldlega þau að hún er fáeinum hársbreiddum betri en Legacy, en varla er maður að fara að herpa rassinn úr spenningi við þau orð.

 

5

Besta senan:
Aþenu-eltingarleikurinn. Eða mómentið þar sem þú veist að Moby-lagið fer að kikka inn.

Sammála/ósammála?