Sausage Party

Eins mikið og ég elska Toy Story seríuna þá kemst ég ekki hjá því að hugsa um hversu niðurdrepandi líf og tilvist leikfangana er í þeim myndum. En hvað ef Toy Story hefði tekið fullorðinsleiðina og kafað meira ofan í bömmerandi og einhæfa tilgang þeirra? eða betra, tekið sambærilegan vinkil á orðljóta og hálf truflandi teiknimynd um hvernig lífið væri frá sjónarhorni fæðutegunda, auk umbúða og annarra… áhalda, gæddum mannlegum tilfinningum og öllu með‘ví. Sausage Party er sú mynd.

Svona mynd ætti varla að vera til, gerð til að spilast út eins og Pixar-mynd á súru trippi, leikur sér hresst að Disney-klisjum og býður meira að segja upp á tónlist frá sjálfum Alan Menken, sama manninum og samdi lögin fyrir Litlu hafmeyjuna, Fríðu og dýrið, Aladdín o.fl. Augljóslega er hér um að ræða teiknimynd sem í framtíðinni verður fyrirlitin víða af foreldrum sem slysast til að varpa henni fyrir framan börnin sín – og gott á þá, því þetta er ekki bara ein prakkarlegasta skrípósteik síðustu ára, heldur sennilega besta handritið sem Seth Rogen hefur hingað til komið að.

Myndin er að sjálfsögðu ósmekkleg, barnaleg út í eitt, yndislega gróf en alvöru sjokkið er hvað hún er laumulega snjöll í senn, útpæld í sinni geltandi satíru og á bestu stundum frussufyndin. Hjálpar líka mikið til hvað teiknistíllinn og grafíkin lúkkar vel, raddirnar eru skemmtilegar, karakterarnir eftirminnilega uppstilltir og orkan annaðhvort viðheldur sér eða magnast. Má alls ekki gleyma lokakafla sem verður ekki betur lýst en gapandi gulli. Seinustu 10 mínúturnar einar og sér gera myndina þess virði að horfa á.

sausage-party

Rogen er samt ekki eingöngu að gefa okkur dökkan grashausahúmor, á kafi í bíótilvísunum og tæmandi allan banka af orðabröndurum sem hann getur sem snúa að mat (sumir ódýrari en aðrir), heldur nýtir hann tækifærið til þess að skutla inn allegoríum um trúarbrögð og mismunun. Það er nákvæmlega ekkert lúmskt við stefnu og skilaboð húmorsins þegar lykilpar myndarinnar samanstendur bókstaflega af pylsu og pylsubrauði. Við vitum hvert margir djókarnir ætla – og á þessum 80 mínútum er myndin þegar daðrandi við þau hættumörk að þynnast út (sömuleiðis kemur það á óvart hvað mynd sem er svo mikið á móti trúarbrögðum skuli detta oft í litlar predikanir) – en hversu langt Rogen og félagar fara með þá er eitthvað sem reglulega sló mig út af laginu.

Sausage Party er eins og ofskynjun sem ber að fagna, enda rugluð, reykt, grilluð – allt sem hún þarf og ætlar sér að vera. Hún er ekki stanslaust fyndin en nógu oft þegar hún nær hápunktum sínum. Meira að segja ef áhorfandinn viðheldur ekki skítaglottinu yfir henni reglulega hefur handritið ýmislegt hnyttið að segja og aðstæður svo kostulegar að leiðindi á svona brattri lengd eru átakanlega erfið. En ég hló mig skammarlegan yfir sumum pörtum, og ef við miðum þessa mynd við „Hvað-í-helvítinu-var-ég-að-horfa-á?“ skalann, þá er reyndar fátt frá þessu sumri sem á séns í hana.

 
8
Besta senan:
Lokametrarnir, helst. Annars vegar ein besta notkunin á frægu þemalagi sem mig rámar í.
James Cameron yrði sáttur.

Sammála/ósammála?