Suicide Squad

Bíóheimurinn hjá DC liggur núna í svakalegri kássu, og erfitt er að meðtaka Suicide Squad sem annað en týnda tilraun hjá merkinu til þess að sóa nokkrum efnilegum karakterum og rembast við að punga út svari sínu við Guardians of the Galaxy. Sameiginlegu einkennin eru til staðar, frá flippaða og fjölbreytta glæpagenginu til peppaða músíkvalsins. Munurinn er sá að af og til kemur fyrir að Marvel-teymið viti hvað það er að gera, á meðan Suicide Squad sýnir greinileg merki um nokkrar sundurtættar bíómyndir að slást um einn sýningartíma, og drukknandi í persónufjölda sem gengur illa að bera uppi.

Það furðulega er að Suicide Squad stillir sér upp eins og hún sé bókstaflega and-ofurhetjumynd, og með mátulega hæfan leikstjóra eins og David Ayer, sem opinberlega hefur sagt að geirinn sé löngu orðinn einhæfur, hefði mátt búast við meiri útúrsnúningum. Efniviðurinn er líka augljóslega svolítið hemlaður af aldursstimplinum þegar þú ert að reyna að gera ‘edgy’ hópasögu um morðingja, sækópata, yfirnáttúrulega nöttara og eina mannætu í kaupbæti.

En nei, Suicide Squad fellur í alls konar latar klisjur, í lokaþriðjungnum sérstaklega, og gefur okkur einungis yfirborð karaktera – stundum minna en það, hrútleiðinleg illmenni, þar á meðal andlitslaus tölvuleikjaskotmörk, rjúkandi reiða seiðkonu sem elskar magadans og pixlagerðan hlunk sem kemur eins og hafnaður úr Gods of Egypt. Karakter-mómentin fletjast hratt út þar sem þau eru flýtt og ná aldrei að vinna sér inn hápunktana sem þau vilja. Tempóið býður upp á lítið rými fyrir núans. Það er stanslaust eitthvað að gerast í myndinni en aldrei keypti ég t.d. samband né þróun hópsins og hvað þá tengingu hans. Allt er sagt út en með engri tilfinningu á bakvið það. Takmörk sumra eru líka óskýr og plottið lekur alveg til blóðs af svo ljótum holum.

maxresdefault (2)

Ljósu punktarnir liggja hjá vissum leikurum, t.a.m. Will Smith (sem gefur myndinni það litla hjarta sem hún hefur, og í raun þarf), Jay Hernandez (sem hittir beint í mark og gefur karakternum El Diablo mikla sál), Margot Robbie í bullandi stuði, (merkilegt nokk) eiturhressum Jai Courtney og Violu Davis, þó svo að hennar persóna gæti mögulega hafi verið sú heimskasta af öllum þeim sem fá einhvern fókus, ef við skoðum hvaða áhrif hún hefur á atburðarásina og framvindu hennar. Restin af liðinu skilur álíka mikið eftir sig og flott stikla hefði gert.

Nýi Jókerinn er hörmung; hryllilega þræddur inn í söguþráðinn og hefur þannig séð lítil sem engin áhrif á hann. Á hinn bóginn kalla ég þetta jákvæðan hlut vegna þess að Jared Leto hefur enga ógnandi nærveru, hann hlær eins og George McFly, með útgeislunina alveg í núllinu og má ekki gleymast að hönnunin gerir einn frægasta sósíópata og skúrk myndasagna að mökkleiðinlegum gangster sem spilar sig eins og hinn bitrasti kærustufaggi Jóker-aðdáandi nr. 1. Leto er augljóslega klikkað hæfileikaríkur, en þessi tiltekna klikkun hentar honum ekki.

Jared+Leto+Joker

Það verður einnig pínlegt fljótt hvað hún ræður sig ekki við það að að troða inn þekktum popplögum (bæði retró og… Eminem) við hvert einasta tækifæri. Hvert. Einasta. Þetta safnast upp í djók-stóran haug og skánar ekkert að flest lögin fá varla hálfa mínútu í spilun. Guardians til samanburðar kunni að brennimerkja sinn lagalista vel og passlega við senurnar, Suicide Squad ofnotar þetta mótíf eins og fíflið í partíunum sem skippar alltaf yfir í næsta lag þegar hið fyrra er rétt að ná skriði.

Suicide Squad er tónavillt, illa klippt, hún endurtekur sig oft, flæðir gjarnan bjánalega, versnar með hverjum þriðjungi og mestallur snefill af innihaldi er yfirleitt að finna í flassbakk-senunum, sem éta trúlega upp hálfa lengd myndarinnar. Myndin hefur skemmtilegan kjaft en nær aldrei fluginu sem hún vill, að auki bitlaus, sundurlaus og lyktar niðurstaðan hreinlega af tilfelli þar sem of margir kokkar stóðu í eldhúsinu.
Vantar ekki að myndin sé stílísk, hasarkeyrð og (sum staðar) með góða leikara að… leika sér. Það vantar bara allt annað.

bladn

Besta senan:
Baksaga El Diablo.

Sammála/ósammála?