Lights Out

Ef þú hefur séð örfáar hrollvekjur eða færð meira kikk út úr því að sjá líka fara gegnum tékklistann af „bregðubrögðum“, þá er Lights Out örugglega að fara að halda þér vakandi á nóttunni. Þetta er mynd sem hefur áhuga á persónum og andrúmslofti en klúðrar framkvæmdinni með því að gera þær of óspennandi til þess að skera sig eitthvað úr þeim sarpi af sambærilegum draugahrollvekjum sem elska sama tékklista meira.

Upprunalega hófst konseptið í Lights Out sem (virkilega stutt) stuttmynd, og hefði líklegast betur hentað að fara einhvern milliveg með hugmyndina. Þó hún sé heldur ekki nema rúmar 80 mínútur, og fljót að líða, er efniviðurinn svo grunnur að hann heldur varla lengdinni. Skána málin heldur ekkert þegar svo stór hlunkur draugagangsins verður yfirdrifið kjánalegur, dansandi hættulega nálægt þeirri línu að verða kómískur, eða lausnir detta alveg upp úr þurru. Og vissulega væri þetta ekki sönn gelgju-miðjumoðshrollvekja ef persónurnar tækju ekki djók-heimskulegar ákvarðanir öðru hvoru.

lights-out-header

Maria Bello reynir allt sem hún getur við sína rullu og kemur meira en sannfærandi út, enda oftast vel áreiðanleg og talentuð. Minna má segja um öll hin. Teresa Palmer er fín og einnig Alexander DiPersia sem kærasti hennar innan gæsalappa. Annars þykir mér það alltaf hressandi í hrollvekjum þegar við fáum fáum krakka í mikilvægu hlutverki sem nær að vera trúverðugur, en þannig er það ekki í þessari mynd.

Það eru skýr merki um að David Sandberg (sem gerði einnig stuttmyndina) sé efnilegur leikstjóri í þessum geira, en næsta skref hans er að vinna með betra handrit og færri gimmikk. Lights Out er í besta falli þolanleg en of máttlaus umfram allt. Ef þið viljið sjá mynd sem er meira tens og spilar betur með mændfokk í myrkri, tékkið á Don’t Breathe. Meira að segja Nine Lives er líklegri til að halda mér vakandi um næturnar heldur en þessi.

mehh

Besta senan:
Í kjallaranum.

Sammála/ósammála?