Svona átti Eiðurinn upphaflega að enda

Mjög sérstakt dæmi. Vel gæti verið að svona lagað hefur komið áður fyrir en aldrei hafði ég a.m.k. upplifað það að ein íslensk (stór)mynd geri svona dramatíska breytingu á lokaklippi sínu svona stuttu fyrir almennar sýningar… eftir að hafa verið vörpuð fyrir framan 1300 manns á forsýningu þar sem aðstandendum, fjölmiðlum og öðrum gestum var boðið.

Eiðurinn fór í opnar sýningar föstudaginn 9. september en gala-sýningin svokallaða átti sér stað á þriðjudeginum á undan. Ég mætti og henti stuttu síðar í (ekkert ójákvæðan) dóm sem var birtur áður en myndin var komin í almennar sýningar. Þessi dómur fókusaði svolítið á útgangspunkt myndarinnar, eða hreinlega mjög út-úr-takt vondan eftirmála, sem dróg skítsæmilega heild (og stíllúkkandi dramaþriller) eitthvað niður. Þegar opnunarhelgin byrjar fæ ég fljótlega skilaboð um að myndin sýni ekki lengur þennan eftirmála. Þetta er breyting sem – án þess að segja frá of miklu – setur gífurlega stefnubreytingu á þematík myndarinnar, og þó ég hafi ekki enn séð lokaútgáfuna get ég ekki ímyndað mér annað en að Baltasar hafi tekið réttu ákvörðunina með að slútta gamla endinum.

Vísir fjallaði eitthvað smávegis um þetta og sagði Baltasar sjálfur í viðtali þar að honum hafi ekki fundist endirinn bæta neinu við eftir forsýningu. Einnig tók hann fram að með íslenskar kvikmyndir gæfist aldrei tækifæri til þess að halda prufusýningar fyrir pakkaðan sal eins og gert er erlendis.

En var þá Baltasar áður með einhverjar efasemdir um endinn? Trúlega, en í versta falli gaf hann mörgum ágætis innsýn inn í DVD-aukaefni sem áhorfandinn fær kannski aldrei að sjá.

eidurinn-senais

Förum örstutt yfir þetta: Baltasar leikur skurðlækninn Finn, sem í fyrstu virðist vera með allt sitt í toppstandi; góð vinna, stabíl fjölskylda, sólid tómstundir o.þ.h. Fljótlega uppgötvar hann að dóttir hans, Anna, er komin í neyslu og í samband við skuggalegan dópsala, Óttar. Dóttirin sér ekki sólina fyrir nýja kærastanum en Finnur neitar að horfa upp á hana sökkva dýpra. Lausnin er þá að losa sig við glæpamanninn, hvað sem það mun kosta, en þá er spurningin hvort Finnur sé tilbúinn að taka afleiðingunum.

(alls ekki lesa lengra ef þú vilt ekki vita hvernig söguþráðurinn leysist… lokaviðvörun)

Ókei, svo… í hnotskurn þá drepur Finnur Óttar. Hann kemst upp með það í lokin og er leystur úr varðhaldi en Anna uppgötvar sannleikann og sýnir pabba sínum kalda öxl strax í kjölfarið. Eiginkona Finns gerði það sama. Anna stekkur upp í leigubíl, lögreglustjórinn horfir út til Finns með grunsamlegum augum (og virðist alls ekki vera sannfærð um að hann sé saklaus, þó sönnunargögnin bakki það ekki upp) og áhorfandinn ákveður fyrir sig hvort Anna sé líkleg til þess að fyrirgefa honum í bráð eða ekki. Endirinn er frekar opinn og er ekkert komið inn á nákvæmlega hvað verður um líf Finns.

Þarna skilst mér að bíóútgáfan endi.

Í útgáfunni sem ég sá hélt sagan áfram og hoppaði fram um svona 6-7 ár. Finnur er kominn með tagl og smá hóbó-skegg. Við sáum smábrot af honum með þetta útlit í blábyrjuninni (sem var augljóslega líka fjarlægð í klippinu) en nú gerir hann við hjól og virðist lifa ágætlega friðsælu – en vissulega tómlegu – lífi.
Finnur er mættur fyrir utan grunnskóla og sér ungan dreng áreita stúlku á svipuðum aldri, sem í ljós kemur að er afabarn Finns (og þarna er gefið í skyn að þetta sé barn Óttars sem Anna var greinilega byrjuð að ganga með). Finnur skiptir sér af og spyr stúlkuna hvort hún þekki sig, því svarar hún játandi. Eftir það spyr hann hvort hann megi fylgja henni heim og einum vandræðalega þöglum litlum göngutúr síðar koma þau að leiðarenda. Þá tekur Anna á móti stelpunni sinni og gefur pabba sínum augnaráð sem stafar ansi hressilega út að hún hefur augljóslega ekki fyrirgefið honum, og virðist ekkert sérstaklega líkleg til þess.

2015features_1000x316_px_life-in-a-fishbowl

Það var mjög þungur, hálf predikunarlegur tónn var á þessum endi og passaði það að mínu mati illa inn við það sem á undan kom. Það voru líka ýmis skot og litlar tengingar sem óneitanlega vöktu upp sterkar minningar af Vonarstræti. Ég heyrði í fleiri forsýningargestum taka í sama streng á því kvöldi.

Flott að breytingin hafi átt sér stað þó, en leikstjórinn hefði fyrr getað gripið til þess að sjá að ‘less is more’ var algjörlega það sem hér átti betur við söguna.

 

Sammála/ósammála?