Don’t Breathe

Sam Raimi hefur eitthvað mikið séð í leikstjóranum Fede Alvarez þegar hann gaf honum tauminn með Evil Dead endurgerðina, mynd sem virkaði ekki á mig persónulega en var vel unnin og lúkkaði fyrir allan peninginn. Nú er Raimi aftur kominn með framleiðendahattinn á og Alvarez kominn með töluvert sterkara handrit og beinni framvindu til að leika sér með. Einfaldleikinn og síbyggjandi tensjónið innan hans er það sem Don’t Breathe hefur sér að vopni. Hún er sandpappírsþunn og með sinn skerf af göllum, en það er svo auðvelt að vera skítsama um slíkt á meðan hún er í spilun því rassgatið er of upptekið á því að herpast og hanga við sætisbrúnina.

Þetta er einn stórspennandi lítill spennuþriller, með dass af vissum horror-elementum, þar sem Stephen Lang hefur fengið fullkomið tækifæri til að vera truflandi nærveru sinni að skína til fulls. Hann er gjörsamlega frábær og nett dularfullur sem blindur, fyrrverandi hermaður sem lætur ekki fáein ungmenni ræna sig um miðja nótt án mótspyrnu. Sympatíkin snýst hins vegar öll yfir á innbrotsþjófanna þrjá og fylgjumst við með þeim berjast fyrir lífi sínu í drungalegu húsi og miklu myrkri, þar sem blindi maðurinn heldur á öllum bestu spilunum.

2016_08_28_fb_75bc6c8ca1ba4cc6bd229cca66a8dadf-194fc

Ekki var ég svo bjartsýnn um það að handritið næði að teygja þennan bera plottþráð í heila lengd án þess að endurtaka sig, en blessunarlega eru nokkrir geggjaðir snúningar hér og þar. Alvarez heldur líka ákveðnu rússíbanaflæði á keyrslunni og tekst honum m.a.s. svo vel að meðhöndla stílinn (sem verður á köflum mjög Fincher-ískur), hljóðið og andrúmsloftið í heildina að það nær næstum því að hylja það hversu óathyglisverðir og einvíðir helstu karakterarnir eru. Leikararnir eru ágætir (ekkert meira), að frátöldum Lang vissulega, en þjóna svosem allir tilgangi sínum hæfilega þegar hlaupagangurinn byrjar. Hjálpar líka til að persónurnar taka að mestu ákvarðanir sem meika sens í aðstæðunum sem þær eru staddar í, frekar en að haga sér eins og týpísk ílát úr gelgjuhrollvekjum.

Ef eitthvað dregur myndina niður þá er það ákvörðunin að hefja söguna á senu sem á sér stað miklu síðar í atburðarásinni, og sýnir síðan allt fram að því sem eins konar „flassbakk“. Upphafsskotið er reyndar magnað, en það skaðar að henda áhorfandanum inn í þennan tímapunkt í blábyrjuninni, því hún sjálfkrafa gefur upp stórar vísbendingar um hvernig áframhaldið mun seinna meir spilast út.

Neikvæðu punktarnir draga samt ekki of mikið frá helvíti góðri heild sem eykur púlsinn á réttu stöðunum, sama þótt hún getur orðið svo langsótt að það er eiginlega djókur. Það er samt hrós til leikstjórans fyrir að setja allt afl í það sem hann hefur og ef það er einhver séns að þú eigir eftir að muna ennþá eftir Don’t Breathe á næstu misserum, þá er það 100% Stephen Lang að þakka. Hún væri gott kombó með öðrum sambærilega tens þriller frá þessu ári, Green Room. Lofa.

 
7

Besta senan:
„Sósaður“

Sammála/ósammála?