Bridget Jones’s Baby

Kannski fer Bridget Jones kvikindislega í taugarnar á þér, kannski ekki – og það eitt ákvarðar svolítið hvaða gagn þú hefur með þessari endurkomu. Frá mínum enda er alls ekki erfitt að skilja aðdraganda hennar. Hún er gölluð en samt svo elskuleg, stundum viðtengjanleg og fer ekki á milli mála að Renée Zellweger hafi sett sinn svip á hlutverkið, rullu sem sópaði til sín bæði Óskars- og BAFTA-tilnefningu.

Zellweger hefur legið í talsverðum dvala sem leikkona síðustu árin, en eftir að sumar bíómyndirnar hennar (svo sem New in Town, Case 39, Leatherheads og My One and Only) fóru í gegnum það mynstur að fá annaðhvort slaka aðsókn eða vonda dóma, stundum hvort tveggja, er það kannski skiljanlegt. Sjálfur hef ég aldrei verið hennar stærsti aðdáandi og er listinn yfir óþolandi hlutverk hennar langtum lengri en hið öfuga. Hins vegar hefur mér þótt hún bjálæðislega heillandi í tveimur tilteknum myndum, önnur þeirra er hin vanmetna Down with Love og hin er Bridget Jones’ Diary. Því er of snemmt að segja hvort eða hversu mikið hennar hefur verið saknað en eitthvað er nú makalaust hressandi að fá hana aftur hér, eflaust vegna þess að Bridget Jones’s Baby gefur fyrstu myndinni mjög lítið eftir. Hún er stórvel heppnuð, skemmtileg og heillandi viðbót (eða sárabót?) í seríuna eftir gæðahrapið sem einkenndi fyrri framhaldsmyndina frá 2004.

bridget-jones-gallery-01

Titilpersónan er stigin inn á fimmtugsaldurinn. Hún er nú einhleyp, á fullu í ræktinni og gengur vel í vinnunni sem framleiðandi hjá sjónvarpsstöð. Eftir óvænta, ástríðufulla nótt með fyrrverandi, Mark, dúkka upp gamlar tilfinningar, jákvæðar og neikvæðar. Stuttu síðar tekur lífið snöggan kipp þegar Bridget kemst að því að hún er ólétt. Vandinn er að hún hafði skömmu áður átt sambærilega heita nótt með heillandi ameríkana að nafni Jack og er því ekki alveg viss um hvor er pabbinn.

Bridget er enn sami aulinn og við kynntumst fyrst, en einlægnin og húmorinn – til allrar lukku – heldur lífinu í henni og Zellweger lætur þægilega um sig fara og smeygir sér í hlutverk breska ruglukollsins áreynslulaust eftir öll þessi ár. Henni til stuðnings er auðvitað litríkur og viðkunnanlegur hópur aukaleikara, nýir og kunnuglegir, og taumur leikstýrunnar Sharon Maguire, sem sá einnig um fyrstu myndina. Maguire hefur gott skyn fyrir því að halda jafnvægiá farsaganginum og einlægari persónuaugnablika. Sú seinasta reyndi að gera hvort tveggja en tapaði sér örlítið of mikið í aðstæðum sem betluðu eftir dósahlátri og vissum endurtekningum, en í Bridget Jones’s Baby – sem er sú lengsta í þríleiknum – hitta aðstæður og brandarar oftar en ekki í mark.

bridget-t

Talandi um Mark, Colin Firth er enn þrælskemmtilegur sem Darcy, yndislega þurr en með hverri lotu hefur hann leyft sér að draga prikið úr sitjandanum sífellt aftar. Þróun hans og í raun flestra þrífst á útgeislun leikaranna og á meðan kemistrían á milli hans og Renée skilar sér er lítið út á að setja. En bíómynd með Bridget Jones væri ekki hún sjálf er konan væri ekki með tvo ólíka menn í takinu. Hugh Grant sýndi þessari mynd engan áhuga, enda ekkert pláss fyrir hann (eeeða hvað?), en Patrick Dempsey hleypur fínt í skarðið fyrir hann og ágætt að sjá Bridget með valkvíða á milli tveggja ljúfmenna til tilbreytingar. Dempsey kveikir á þeim stillingum sem hann getur til að bræða sem flesta. Sagan reynir líka að mjólka alla þá óvissu sem hægt er úr giskleiknum. Vissulega er niðurstaðan fyrirsjáanleg, en Maguire leikur sér smávegis að væntingum og mótar skemmtilegan keppnisskap með mönnunum á skjánum út þessa óvenjulegu meðgöngu. Segjast verður þó að enginn stelur senunni meira heldur en bráðfyndin Emma Thompson sem fæðingarlæknir Bridget.

Jú, sumir brandararnir dragast eilítið á langinn en Bridget Jones’s Baby heldur umfam allt notalegum dampi og vann mig algjörlega yfir á sitt band með sjarma sínum. Bæði tekst okkur að hlæja að Bridget og með henni. Ánægjulegt er fyrir áhorfandann að sjá hana enda á háum nótum aftur og þurfa að ranghvolfa augum sem sjaldnast. Að sjá þessa persónu taka næsta stóra skrefið í lífinu má líkja við góðan huggunarmat. Fyrir aðdáendur seríunnar er þetta eins og að heilsa upp á góða vini aftur og viðurkenni ég sjálfur að þeim var meira saknað heldur en ég bjóst við. Stundum, en aðeins stundum, er mjúkur Hollywood-sykurpúði bara nákvæmlega það sem við þurfum, tala nú ekki um þegar hann er svona fínt grillaður.

 

gedveik

Besta senan:
Ítalinn bakvið borðið.
Undarlega mikið af ítaladjókum í þessari mynd…

Sammála/ósammála?