The Magnificent Seven (2016)

Erfitt er að segja nei við skotheldum vestra, þótt megi auðvitað alltaf deila um gagnlegt gildi myndar sem er tæknilega séð endurgerð af endurgerð. Upprunalega Magnificent Seven frá 1960 tók sinn efnivið frá Akira Kurosawa en bauð upp á teymi sjömenninga sem ekki er auðvelt að toppa (sérstaklega þegar Yul Brynner, Steve McQueen OG Charles Bronson deila allir sama ramma…), frekar en gæðastandard Seven Samurai ef út í það er farið. En um leið og maður kemst hjá því að hér er augljóslega ekki verið að fara ótroðnar slóðir er 2016-stykkið bara fínasta uppfærsla, með öll markmið sín sett á það að skemmta popphámandi áhorfandanum.

Ég held að þetta sé fyrsta Antoine Fuqua myndin sem ég get sagt hafa notið mín í tætlur yfir, enda maður sem hefur oftast ef ekki alltaf gert meðalfína reyfara í besta falli. Með útfærslu sinni á The Magnificent Seven leikur hann sér að einfaldleikanum. Hann kemur svosem ekki með neina sérstaka pólitíska kommenteríu, eins og klassísku vestrarnir oft gerðu, en sér til þess að mjólka uppbygginguna að lokauppgjörinu eins og hann getur og gleymir aldrei að einbeita sér að hópnum, persónuleika og samspili þeirra, svo manni sé ekki skítsama um þá alla. Og lokauppgjörið er dúndurfjör – og langt.

mtm4mta5mdm3odk0oty5mtk2

Hver og einn meðlimur sjömenningana fær sitt móment og myndast þarna skotheld og skemmtileg grúppa. Karakterarnir eru allir býsna þunnir, varla meira annað en hálfgerðar erkitýpur, en minnisstæðir eru þeir. Denzel Washington er kannski ekki alveg Django-svalur, en prýðilega harður engu að síður þó persóna hans verði aldrei almennilega áhugaverð fyrr en í lokasenunum. Chris Pratt lætur líka vel um sig fara, með sinn áreiðanlega húmor og aulasjarma, og koma trúlega Vincent D’Onofrio, Ethan Hawke og Byung-hun Lee hvað sterkast út. Lítil athygli er vekin á kynþáttamixinu, né fáum við einhverja predikun í kringum það, lukkulega, en að því sögðu þá er rosalega lítið spunnið í karakter Manuels Garcia-Rulfo annað en að vera bara ‘reiði mexíkaninn’ ™.

Peter Sarsgaard er yfirleitt góður leikari en hefur átt misgóða reynslu með illmenni (Green Lantern biður að heilsa), og hér er komið enn eitt dæmið um það. Skúrkurinn er fyrirsjáanlega einhliða, skrípalega illur og klisjukenndur en Sarsgaard kemur bara flatur út, þó handritið og frammistaðan geri það mjög auðvelt fyrir áhorfandann að hata hann – sem sjálfsagt skiptir mestu máli. Besta og líklega óvæntasta viðbótin í þessa leikarasúpu er (hin tiltölulega óþekkta) Haley Bennett, sem fær alveg nokkra sénsa til að sýna smá hörku innan um allt strákapartíið.

haley-bennett-magnificent-seven-2016

Gleymum því ekki hvað það er hressandi að sjá svona umfangsmikinn vestra lúkka svona prýðilega fyrir allan peninginn, og fyrst og fremst verið gerðan fyrir stórar Hollywood fjárhæðir. Sett, búningar, sveitta andrúmsloftið og tæknileg vinnsla smellur saman öll og tónlistin í myndinni heldur sér við rétt mörk að vera í takt við frummyndina (sem hafði auðvitað ógleymanlegt þemalag) án þess að apa fullsterkt eftir henni – fyrr en í blálokin. Merkilegt líka hvað myndin fær að ganga langt með ofbeldið miðað við aldursmerkið.

Magnificent Seven endurgerðin er einföld en ágætlega unnin afþreying sem heldur góði flugi með uppfærslum sínum, og Fuqua virðist algjörlega meðvitaður um vestraklisjurnar og virðist faðma þær fast að sér. Það gerir hann með góðu casti og skemmtilegri stemningu, og hvað nýlegar endurgerðir varða er þessi mögulega með þeim tilkomumeiri. Það er svosem fátt stórbrotið við þessa sjömenninga en lítil fyrirstaða er fyrir því að hægt sé að kalla þá skrambi fína.
Skellum viðeigandi – en vægri – sjöu á kvikindið.
Horfið og njótið.

7

Besta senan:
Kirkjuslagurinn.

Sammála/ósammála?