Kollektivet (The Commune)

Það eru fáir danskir leikstjórar betri en Thomas Vinterberg þegar kemur að því aðmagna tilfinningaspennu milli fólks. Tilgerðarlaus leikur og samtöl ráða för, eins og sannaðist með Festen, Submarino og Jagten, og árangurinn lætur ekki á sér standa. Nýjasta mynd Vinterberg, Kollektivet, er með því léttara og fyndnara sem við höfum séð frá leikstjóranum hingað til en myndin byggirá samnefndu leikriti sem sækir sterkan innblástur í æskuári Vinterbergs frá því hann ólst upp í kommúnu á áttunda áratugnum.

Hér er sagt frá hjónunum Erik og Önnu ásamt dóttur þeirra. Þau eiga sæmilegt samband en sjá sér ekki fjárhaglsega fært aðað viðhalda og reka risastóra einbýlishúsi þar sem þú búa. Anna stingur upp á því að bjóða fleirum til að búa með þeim og fyrr en varir myndast kommúna með átta manns undir sama þaki. Fjölskyldunni þykir hópurinn spennandi og allir ná vel saman…að mestu, en þegar Erik er skyndilega kominn með nýja konu í líf sitt fer allt á annan endann.

Handritið snertir, bæði með grimmd og blíðu, á lönguninni eftir samstöðu og umburðarlyndi jafnt sem baráttunni við tengsaleysi, sundrung og óraunhæfar væntingar. Vinterberg finnur spennuna í hinu hversdagslega og heldur tilfinningasveiflunum vel. Hann kemstupp með að stökkva úr notalegri kómík yfir í eins konar harmleik á skömmum tíma. Ef það er eitthvað sem haltrar aðeins á rennslinu þá eru það tímahoppin, því á tíðum er mjög erfitt að fá tilfinningu fyrir því að það sé eins langur tími liðinn í frásögninni og okkur er sagt.

Kollektivet hefur ekki sama bit og ofannefndu myndir Vinterbergs en hann heldur efninu mátulega einbeittu og gefur góðum leikhópi lausan taum. Trine Dyrholm ber af í hlutverki Önnu, sjálfsöruggu framakonunnar sem hægt og rólega byrjar að tapa jafnvæginu þegar einkalífið verður aðeins of yfirþyrmandi. Í seinni helmingnum myndast hjá henni gargandi leiksigur og Martha Sofie Wallstrøm Hansen er sömuleiðis frábær sem dóttir hennar. Ulrich Thomsen er bæði yndislega aumkunarverður og dæmigerður sem fjölskyldufaðirinn Erik, sem veldur mestum usla með ,,kvennavandamálum“ sínum, eins og hann orðar það. Köstin sem hann tekur eru hreinasta dásemd.

Áherslan er að mestu á fjölskylduna og má segja að heildin líði smávegis fyrir það að gera ekki meira úr öðrum meðlimum kommúnunar. Vinterberg hefði kannski mátt hrista aðeins meira upp í dýnamík hópsins, því nokkrir hafa lítil sem engin áhrif á framvinduna, en hann sér þó til þess að enginn aðili hverfi algjörlega í bakgrunninn.

Leikararnir smella allir vel á sinn stað og eru eftirminnilegir á sinn hátt. Enginn vafi er á því að hópurinn gerir myndina góða en hápunktar Dyrholm í aðalhlutverkinu gera hana frábæra, að ógleymdri kvikmyndatöku og umgjörð sem prýðilega skreytir og rammar inn tímabil myndarinnar.

8

Besta senan:
Játningar við matarborð.

 

(Þessi dómur var upphaflega birtur í Fréttablaðinu 6. okt 2016)

Sammála/ósammála?