Sundáhrifin / The Together Project

Það er alltaf er dapurlegt að missa góða rödd í kvikmyndagerð og það fer ekki á milli mála að Sólveig Anspach markaði sín spor í fagið. Sólveig lést í fyrra eftir baráttu sína við krabbamein, stuttu eftir að tökurnar kláruðust á Sundáhrifunum (sem á frummálinu er kölluð L’effet aquatique). Það er áberandi í þessari mynd að leikstýran leyfir styrkleikum sínum að ráða en þeir liggja meðal annars í skemmtilega ýktum aðstæðum, litríkum karakterum, skemmtilegun uppákomum og notalegum tón. Myndin er í sambærilegum stíl og fyrri myndir Sólveigar, Skrapp út og Queen of Montreuil, en saman mynda þær lauslega tengdan þríleik þar sem sömu persónum bregður fyrir í þeim öllum.

Líkt og í fyrri myndum þríleiksins mætast menningarheimar Íslands og Frakklands á kómískan máta. Florence Loiret-Caille snýr aftur sem Montreuil-drottningin sjálf, hin heillandi Agathe. Að þessu sinni starfar hún sem sundkennari sem ljúflingurinn Samir (leikinn af Samir Guesmi) sér ekki sólina fyrir. Hann þykist vera ósyndur til þess að geta farið í tíma til hennar og fangað þannig athygli hennar. Skömmu síðar er Agathe send í vinnuferð til Íslands og Samir eltir hana þangað. Áætlun Samirs gengur þó ekki alveg eftir og illa gegnur að ná ástum sunddrottningarinnar. t. Eftir skyndilegt óhapp breytist hins vegar allt hjá þeim báðum og samband þeirra þróast í óvænta átt.

together_project_h_2016

Það fer lítið fyrir persónuleika Samirs, hann erfámáll og vandræðalegur, en einhverja útgeislun hefur hann. Persónan  er viðkunnanleg, en að vísu nokkrum númerum of örvæntingafull og flöt á sama tíma. Florence er aftur á móti heillandi og nær betra sambandi við áhorfandur, en perónurnar eiga það sameiginlegt að vera harðákveðnar  og viðkvæmar. Saman myndast lágstemmdir og sannfærandi neistar á milli þeirra en það sakar heldur ekki að þeim til stuðnings er breiður hópur skrautlegra aukaleikara, og þar á meðal þeim Frosta Rúnólfssyni og Diddu Jóns í hlutverki fyrrum dópsalans, Önnu. Óttarr Proppé stelur hins vegar senunni í smáhlutverki á móti Florence enhann hefur verið fastagestur í þríleiknum.

Kvikmyndatakan frá Isabelle Razavet er að gullfalleg, sama hvort við erum stödd innandyra við sundlaugabakka eða með grípandi póstkortsramma af landinu okkar í sigtinu. Anspach stráir svo mikilli sál og einlægni í áferðina að hún sleppur við það að breyta myndinni í gríðarstóra landskynningu í seinni hlutanum. Hingað til hef ég allavega ekki séð bíómynd þræða Bláa lónið svona krúttlega og hentuglega inn í söguþráðinn sinn eins og þessi gerir.

Á 80 mínútum er ekki hægt að segja að rennslið sé annað en bratt. Anspach hefur tónað örlítið niður sinn súra húmor en hann laumar sér inn á réttum stöðum. Framvindan í myndinni verður ótrúverðugri eftir því sem á líður en handritið heldur oftast fjöri með samræðunum eða sérviskulegum uppákomum, stundum hressilega óvæntum. En bara stundum. Myndin mætti skilja meira eftir sig og hefði getað gert aðeins meira úr parinu sínu í stað þess að flakka látlaust á milli aðstæðna, en andinn er sífellt jákvæður og krúttlegur og myndin leyfir líka sér að vera yndislega rugluð á köflum – alveg eins og forverar sínir.
fin

(Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu 1. október)

Besta senan:
Sem lúmskur unnandi sorp-perlunnar Óskabörn þjóðarinnar verð ég eiginlega að segja skjátíminn hans Proppé.

Sammála/ósammála?