Jack Reacher: Never Go Back

Tom Cruise getur margt, en að púlla Jack Reacher er eitthvað sem hann getur ekki. Svo innilega ekki. Hann dregur á eftir sér of mikinn bíóstjörnugeisla. Alveg sama hversu mikið hann lifir sig inn í rulluna hefur hann ekki harðhausinn í sér og selur ekki alveg nærveru sína sem ofurmannlega snjöll, ógnandi, hrá og hættuleg hermannalögga. Þetta er nánast algjörlega ótengt því að Lee Child skrifaði karakterinn hávaxnari og stæltari, og ég hef enga tengingu við Jack Reacher úr bókunum, því ég hef ekki lesið eina einustu. Mér líður bara eins og aðalleikarinn sé að sýna að hver sem er geti verið einhver Jason Statham. Kemur dúllulega út.

Í fyrra skiptið var Cruise úti á túni í skítsæmilegri spennumynd; gamaldags, kjánalegri en stílískri á köflum, og í það minnsta fengum við Werner Herzog spreytandi sig í hlutverki illmennis. Ekki get ég ímyndað mér að margir, aðrir en hörðustu meðlimir Cruise-aðdáendaklúbbsins, voru spenntir að sjá annað eintak. En alltaf má auðvitað betrumbæta, hvernig sem það er hægt þegar sífellt þarf að fela stærðina á aðalmanninum.

Cruise er hins vegar ekki aðalvandamálið við nýju myndina, sem ber hinn hroðalega en viðeigandi undiritil Never Go Back – og er víst byggð á átjándu bókinni í Reacher-seríunni. En eins og fyrri myndin (og kannski bókin?) hafi ekki verið pakkhlaðin nógu mörgum klisjum, þá kemur framhaldið og trompar þetta á öllum sviðum. Hvert einasta element í söguþræðinum er tekið af gömlum lager, þar á meðal flatan díalóg, pínda „persónusköpun“, fyrirsjáanlegar fléttur og illmenni sem er algjör pappakassi. Eltingarleikirnir eru óspennandi, skothasar og slagsmál trekkja ekkert frekar (klippingin er líka stundum of hröð) og vantar allt bit og stuð í afþreyingargildið. Það er ekki svo mikið sem hálf hasarsena sem skilur nokkuð eftir sig. Fyrri myndin gaf okkur allavega einn prýðilegan bílaeltingarleik.

nejrdr0cgypwms_2_b

Krúsarinn sjálfur hleypur, pírir augun, spennir kjálkann (ekki lítið!) og kýlir af miklum áhuga en hann er eitthvað áberandi í verra formi en síðast. Cobie Smulders hefur lítið karisma, virðist einnig vera kolvitlaus manneskja í sitt svala hlutverk (en undirrituðum hefur aldrei fundist hún neitt sérstaklega góð leikkona til að byrja með); sjaldan nógu trúverðugur nagli og nær engum straumum milli hennar og Cruise. Þau þrasa, lemja frá sér óvini og eru endalaust á hlaupum, með frekar lúinni dýnamík þeirra á milli og er sífellt hlægilegt hvernig þeim tekst að sleppa úr sumum aðstæðum. Síðan flækist 15 ára stúlka í atburðarásina sem þau þurfa að vernda, og Reacher gæti fundið þarna fyrir tilfinningu foreldrahlutverksins sem hann aldrei upplifði. Þetta verður nokkuð gubbandi vont. Danika Yarosh (úr Shameless) leikur stúlkuna og breytist í akkúrat pirrandi „þriðja hjólið“ sem maður vonast innilega ekki að hún verði.

Með fyrri myndinni fékk Christopher McQuarrie (þessi sem seinna meir gerði sterkasta Mission: Impossible eintakið) að leika sér aðeins með ’70s stílbrögð sem stemmdu vel við. Ég hefði haldið að leikstjóri með eins fjölbreytta titla að baki eins og Edward Zwick (Glory, The Last Samurai, Love & Other Drugs) myndi geta sett einhvern nothæfan safa í þetta. Hann er vissulega nógu fær til þess að pakkningarnar lúkki ásættanlega en það helsta sem úr þessu rætist er auðgleymdur ’90s þriller sem stelur öllum sínum hápunktum frá miklu, miklu betri stöðum, meira að segja í ’90s myndum sem fóru beint á vídjó!

Jack Reacher: Never Go Back er bærilega útlítandi, stöku sinnum lífleg en að mestu leyti þreytt, pínleg og tekur sig alltof alvarlega miðað við heimskuplottið sem hún hleypur í kringum. Ég legg til að við færum frekar Reacher yfir í sjónvarpið, undir annan taum og með öðrum leikara, náttúrulega.

 
vond

Besta senan:
Bílrúðan og saltstaukurinn.

Sammála/ósammála?