Miss Peregrine’s Home for Peculiar Children

Tim Burton hefur verið á meðal háværustu radda þegar kemur að því að segja sögur sem faðma að sér furðulegheit, einangraða karaktera og túlka allt þetta „venjulega“ sem ofsalega leiðinlegt. Burton ætti undir venjulegum kringumstæðum að kalla sig á heimavelli þegar kemur að því að gefa hinu sérkennilega smá extra, fyrir utan það að maðurinn hefur átt arfaslaka öld, að frátaldri Big Fish. Ef einhver spyr mig hvað hefði getað mögulega gert Miss Peregrine’s Home for Peculiar Children að betri mynd, þá væri fyrsta svarið við því: annar leikstjóri.

Burton hefur svosem ekki algerlega misst það þegar kemur að því að skapa fríkað flotta ramma, skuggalega flippað múd, en seinustu árin er eins og hann hafi bara sýnt starfi sínu hálfan áhuga. Þótt Miss Peregrine slái kannski ekki upp í það að vera jafn slæm og Alice in Wonderland til dæmis, þá er svekkjandi hversu „plain“ mynd þessum leikstjóra tekst að gera úr hæfilega ýktum og semí-hugmyndaríkum efnivið. Sagan er byggð á samnefndri bók eftir Ransom Riggs, sem ég hef ekki lesið, en ekki nema ótalhelling hefur verið breytt þá höfum við hér mixtúru af X-Men og c-level fantasíuævintýrum í líkingu við The Spiderwick Chronicles.

peregrins-gallery10-gallery-image

Myndin vill vera dökk, heillandi og pakkfull af töfrum, litlum hryllingum og undrandi sjarma, en það skilar sér ekki þegar þú hefur furðu viðburðarlítið handrit, glatað illmenni, frekar óeftirminnilegar hetjur, skepnur og furðulegheitin sjaldan nægilega súr – bara asnaleg. Það er margt sem ekki virkar við þessa mynd, en sérstaklega er fúlt hvað hún hefur þurrt og dapurlegt yfirbragð í litatónum og stíl, ekki ósvipað því hvernig Alice var. Lukkulega ákvað enginn að breyta henni í þrívídd.

Það er tvennt sem stendur upp úr; hin óþekkta Ella Purnell í hlutverki fisléttrar stúlku sem getur stjórnað lofti (ekki spyrja), en hún er sú eina í öllum hópnum sem skilur eftir sig einhvern snefil af sjarma. Í öðru lagi er tónlistin með þeim betri sem Burton hefur sætt sig við í áraraðir, stefin hljóma eins og þau hafi verið samin af Danny Elfman áður en hann tapaði grúvinu sínu, en Elfman er hins vegar fjarverandi og sjá aðrir í staðinn um músíkina.

Kjarnahópur myndarinnar veldur töluverðum vonbrigðum, fröken Peregrine og börnin á heimilinu hennar. Við lærum aldrei neitt sérstaklega mikið um þennan krakkahóp og „sérkennilegheit“ þeirra eru flest óspennandi. Í aðalhlutverkinu gerir Asa Butterfield (sem áður stóð sig svo vel í Hugo og Ender’s Game) ógurlega lítið, eins með óvenjulega vannýtta Evu Green. Oft hefur djöfullegi kynþokki hennar og útgeislun getað bjargað vondum hlutverkum eða flötum myndum en fröken Peregrine er aldrei nægilega dularfull eða merkileg, og Green bæði fær lítið og gerir lítið til þess að standa upp úr óeftirminnilegri mynd sem er nefnd eftir henni. Burton tók síðan akvonda ákvörðun með því að fá Samuel L. Jackson til að leika skúrkinn, og þá svona miskunnarlaust hallærislegan.

Engir töfrar, enginn tilgangur. 9-12 ára krakkar eru kannski ekki eins kröfuharðir og eru eflaust margir til í að sjá framhald af þessu. En Burton-aðdáendum hlýtur að fara fækkandi með hverju ári.

bladn

Besta senan:
Peregrine spólar ‘daginn’ til baka. Flott visjúal.

Sammála/ósammála?