Doctor Strange

Doctor Strange er bæði brakandi fersk og furðulega dæmigerð. Nú er teymið hjá Marvel Studios aðeins farið að leyfa sér að prófa að fara í aðeins sérkennilegri áttir, með meiri göldrum, mystík, abstrakt hugmyndum, nýjum furðuverum og heimum sem við höfum ekki séð. Kompaníið hefur hingað til ekki gert eina lélega mynd en þeir eiga það til að detta í kunnugleg form og hemla sig á öllu sem kallast að taka of stóra áhættu.

Galdrahetjulæknirinn Stephen Strange er meira en velkominn í þennan endalaust vaxandi bíóheim hjá Marvel. Myndin er klárlega sjónrænt séð sú villtasta og flottasta sem stúdíóið hefur getið af sér hingað til; uppfull af hugmyndaríkum hasarsenum og stílbrögðum í honum (smá svona „Inception á sveppum“ fílingur) og skemmtilegum pælingum. Það er mikil mýþólógía sem hún þarf að koma fyrir í eina upphafssögu sem er þegar býsna pökkuð, en myndin sér alveg til þess að koma með vænan skammt af hinu súra.

doctor-strange-astral-projection

Á pjúra afþreyingarleveli er þetta fjörugt stykki, og nógu sjálfstætt að því leyti að ekki er mikil nauðsyn að þekkja allan Marvel-katalóginn fram að þessu. Við nánari skoðun gengur myndin ekki alveg fullkomlega upp efnislega. Það hversu götótt og þunnt handrit er kemur í veg fyrir að þetta verði að einhverju framúrskarandi, enda byggt í kringum origin-sögu beinagrindina sem er löngu orðin ofnotuð. Þessir Marvel-gæjar þurfa líka að læra að henda meira púður í þessi illmenni sín, og finna meira fyrir þessar rómantísku kvenpersónur til að gera.

Benedict Cumberbatch virðist ekki ætla að stoppa fyrr en hann hefur leikið að lágmarki þrjátíu þekkta poppkúltúrs-karaktera, núna búinn að afgreiða t.d. Sherlock Holmes, Tolkien-dreka og Khan (svo bráðum Grinch). Gæinn er alls staðar, en það er ástæða fyrir því. Hann svínvirkar allavega sem Strange. Kaldhæðinn, fyndinn, viðkunnanlegur skíthæll sem fer (reyndar óvenjulega…) hratt í gegnum mjög dæmigerða örk og virðist eiga afskaplega auðvelt með flestar hindranir. En þegar Cumberbatch fer smám saman að þróast í seiðkarlinn og stríðsmanninn er hann sama og fæddur í hlutverkið, að því utanskildu að vera með rétta útlitið. Hann eignar sér samt ekki myndina eingöngu, því senuþjófurinn í þessu öllu er tölvugerða skykkjan hans Strange. Ef þú sást myndina, þá veistu af hverju.

lcc9izcfgy6l

Chiwetel Ejiofor er góður sem galdrameistarinn Mordo, sem á sér mikilvægari þróun heldur en myndin leyfir sér að sýna. Síðan er eitthvað fúlt við það hvað Rachel McAdams fær lítið til að vinna með, því hún er stórfín í hlutverkinu sem er sérstaklega til þess gert að mýkja aðalhetjuna. Annars er alveg ótrúlegt hvað Mads Mikkelsen nær að gera mikið við flatt illmenni með fjólubláan augnskugga, bara með því að vera hann sjálfur. Skúrkurinn er algjörlega tekinn af lagernum en Daninn virðist vera að skemmta sér og mjakar sér með bestu lyst upp úr því að leika yfirdrifinn vondan kall í fimmtánda skiptið.

Tilda Swinton er æðisleg sem The Ancient One og frábært val á leikkonu, sérstaklega miðað við það að karakterinn í myndasögunum var asísk stereótýpa. Benedict Wong er líka fyndinn sem máttugur helgiritsvörður sem aldrei brosir.

doctor-strange-mads-mikkelsen

Lítið er út á stíl, hönnun eða orkuna að setja en tónlistin er bæði frábær og pirrandi. Michael Giacchino er oft áreiðanlegur og semur flotta, mystíska tóna með skorinu sínu en dettur síðan af og til í það að endurvinna gömul stef úr Star Trek myndunum. Líkindin eru alveg ferleg á tíðum.

Leikstjórinn Scott Derrickson (The Day the Earth Stood Still, Sinister) hefur sýnt áður ágætistök á múdi en hann virðist algjörlega finna sig hér. Derrickson átti þátt í handritinu ásamt C. Robert Cargill (fyrrum bíógagnrýnanda sem var einnig annar höfundur Sinister) og finnur maður alveg fyrir brennandi áhuga þeirra á efninu, og húmorinn sem þeir hafa fyrir honum. Eins og fylgir oft Marvel myndum hefur kannski verið sett aðeins of mikið af djókum til að einlægnin og dramað í efninu skili sér til fulls. Hins vegar fannst mér uppgjörið í lokin við stærsta illmennið vera fyndnara og snjallara heldur en við höfum oftast fengið frá svona myndum.

960

Það helsta sem nagar mig með plottið og framvinduna er hversu furðulega lengi plönin hjá skúrkinum Mikkelsen eru að hrökkva í gang, líka í samanburði við það hversu mikill tími líður samhliða allri þróun Strange, frá bílslysinu hans til þjálfunartímabilsins. Á sama tíma nær flæðið ekki alveg að selja manni tímalínuna, eða það hversu erfið, löng eða krefjandi þessi þjálfun er. Kemur smávegis út eins og hann læri þetta allt á viku. Á annan veg toppar myndin sig líka pínu snemma og nær aldrei sama „vá“-faktor eftir eltingarleikinn í „speglavíddinni“, þar sem hugmyndir M.C. Escher eru útfærðar í stórum, tilkomumiklum hlössum.

Í stærri Marvel-kanónunni er þetta hvorki með því besta sem þeir hafa boðið upp á né í þessu miðjumoðsstigi sem þeir hafa masterað einnig. Bara hress, ber og fjörug skemmtun sem gefur þér klikkaða brellusýningu og skapar um leið forvitni fyrir því hvað meira verður gert við titilfígúruna í framtíðinni. Og 3D útgáfan er alls ekki slæm.

 

Rétt sækir sjöuna. Rétt svo.

 

7

 

Besta senan:
„What was in that tea?“ og allt á undan því. Trippí.

Sammála/ósammála?