Bad Santa 2

Jæja, förum aðeins í gegnum þetta… Hvað eiga Anchorman 2, Dumb and Dumber 2, My Big Fat Greek Wedding 2 og Zoolander 2 sameiginlegt?
Þær komu allar út rúmum áratugi eftir velgengni fyrstu myndarinnar og voru flesar útþynntar kóperingar og drógu góð nöfn og fína karaktera gegnum mikla drullu.

Bad Santa svínvirkaði á sínum tíma og gerir það enn. Leikstjórinn Terry Zwigoff (hinn sami og gaf okkur gersemina Ghost World) náði næstum því fullkomnum balans á ruddaskapnum, húmornum og tóninum og sést það á framhaldsmyndinni (sem kemur að þessu sinni frá leikstjóra Mean Girls og Ghosts of Girlfriends Past) að það er ekki eitthvað sem léttilega er hægt að fanga aftur.

Fyrir utan það að vera 100% tilgangslaus framlenging – og núllstillir örk helstu karaktera, til þess eins að endurtaka sama leik á ný – er Bad Santa 2 bara löt, þreytuleg og plöguð af ranghugmyndum um að það eitt að tvöfalda ruddaskapinn muni um leið skila út helmingi fyndnari mynd.

Það er ekki beinlínis leiðinlegt að horfa á Billy Bob Thornton í þessu hlutverki. Hann fer óneitanlega létt með það að túlka pissfulla, gamla graða skíthælinn í sveinkafötunum. En fyrst að karakterinn er aftur kominn á sama stað sem hann var á í upphafi fyrstu myndarinnar verður það þreytandi til lengdar að fylgjast með sama attitjúdinu og þeim glefsum af mýkt og mannúðleika sem hann sýnir. Saga Willies og örk var meira eða minna kláruð í fyrri lotunni, og var ágætlega fullnægjandi þar.

bad-santa-2-trailer

Tony Cox verður orðinn pirrandi og hálf gagnslaus eftir 20 mínútur og Kathy Bates sóar tækifæri til þess að gera eitthvað með móður Willies, en handritið notar karakterinn eingöngu sem einhæfa djókmaskínu eða plottpeð. Þegar eitthvað meira skín þarna í gegn hættir það að skipta máli stuttu síðar. Brett Kelly er annars áfram pínu ljúfur sem gangandi grænmetið Thurman Merman, sem tók Willie í ástfóstur í fyrstu myndinni, nema bara 12 árum eldri og nokkrum heilasellum færri. Christina Hendricks kemur ábyggilega best úr þessu öllu, enda langfyndnust. Vissulega mætti hún fá meira til að gera (og það er heilt plott í kringum eiginmann hennar og viðhald sem myndin hættir að nenna að spá í til lengdar).

Brandararnir virka bara ekki, persónurnar eru ekki að smella og deja vu-ið verður fljótt að vandamáli. Maður auðvitað býst varla við öðru, en það þýðir ekki að það eigi að vera standard sem hver sem er á léttilega að sætta sig við. Allavega… Ef þú átt góðar minningar af Bad Santa er lítil sem engin ástæða til þess að fylla upp óþarfan tíma og skella framhaldinu í tækið yfir jólin næstu ár, eða hvenær sem er.

bladn

Besta senan:
Örugglega eitthvað með Christinu Hendricks.

Sammála/ósammála?