Assassin’s Creed

Þrátt fyrir að eigi enn eftir að gera fyrstu frábæru bíómyndina sem byggð er á tölvuleik verður að segjast að geirinn er farinn að spýta aðeins í lófanna og að minnsta kosti reyna oftar eitthvað flott og grand. Meiri metnaður er greinilega lagður í þessi stykki, eins og sást á t.d. Warcraft í fyrrasumar og núna Assassin’s Creed.

En það er sama hversu miklum peningum er kastað í það að endurskapa rétta fílinginn og útlitið vantar enn töfrana til þess að hnoða því í gott, heilsteypt handrit. Þetta þurfa framleiðendur að átta sig á.

assassins_creed_film_06

Ég er enn á því að einhvers staðar leyndist góð kvikmynd í Warcraft (þrátt fyrir misgóða brelludýrð og leikara), nema augljóslega ákvað stúdíóið að þynna hana út og klippa epíkina niður í eins hraða, hasardrifna mynd og hægt var. Svipað leið mér með Assassin’s Creed, nema grunnflötur þessarar bíómyndar er bara stórgallaður til að byrja með og vekur upp spurninguna um hvort hann gangi nokkuð upp í öðrum miðil en tölvuleik. Hann gerir það allavega ekki með nálguninni sem hér varð fyrir valinu.

Assassin’s Creed byggist öll á því að karakterar geti tengt sig við undravél og upplifað minningar forfeðra sinna. Apparatið virkar eins og sýndarveruleika-rússíbani. Fólkið hefur enga stjórn á gjörðum sínum í fortíðinni, það bara fylgist með og fær að herma eftir samtímis… í hnotskurn er þetta fyrir áhorfandann eins og tilfinningin er að horfa á aðra manneskju spila tölvuleik.

maxresdefault-1

Aðalkarakterinn er Callum Lynch (Michael Fassbender, sem finnur fullkomnu blönduna á milli þess að virka áhugasamur og hálfsofandi í senn), sem fær það verkefni að skoða minningar, stökk og eltingarleiki launmorðingja á nítjándu öld á Spáni. Forfaðir Callums heitir . Honum fáum við ekkert að kynnast af viti, en 80% af hasarnum viðkemur honum – og reyndar leit hans að hinu goðsagnarkennda epli úr Edengarðinum.

Öll myndin er eins og æfing í því hvernig á ómögulega að byggja upp spennu með hasarveislu. Plottið er eitthvað óþarflega þvælt og vannært og fékk ég oft tilfinninguna eins og mikilvægar senur hafi vantað. Það sem situr eftir eru annars vegar stórar, vel heppnaðar áhættu- og slagsmálasenur. Stundum svolítið örklipptar, en með flottar sviðsmyndir að vopni og flott kóríógraff er margt til að dást að við hasarinn.

Bömmerinn er bara að okkur er algjörlega sama um nokkurn hlut eða aðila sem er þarna að finna. Flottustu atriðin eru í rauninni bara uppsprengdar „flassbakk“-senur, flottar sem slíkar en framvinduna vantar allan púls. Tónlistarskorið í myndinni er þar að auki betra heldur en hún á í rauninni skilið.

assasinscreed-fassbender-spear

Aldrei hef ég spilað leikinn (þó ég hafi, kaldhæðnislega, nokkru sinnum horft á aðra spila hann) en það þarf engan bíóséní til þess að sjá það að Assassin’s Creed bíómyndin stendur ekki á eigin fótum of vel. Íkonógrafía leiksins er töff svosem (mikið óskaplega var skrattans örninn samt ofnotaður, eiginlega af ástæðulausu. Heildartónninn er svo stóískt alvarlegur og þungur miðað við stökk-keppnirnar og ruglið í plottinu að það er hæpið að sé nokkuð „gaman“ við myndina að finna, og það er eins og það hafi verið sérstakt átak að strípa allan vott af húmor úr öllu handritinu.

Leikstjórinn Justin Kurzel (sem leikstýrði bæði Fassbender og Marion Cotillard í Macbeth fyrir nokkrum árum) veit hvernig hlutirnir eiga að lúkka en orkuna vantar, tilfinningarnar vanta og verður allt á endanum að stílísku en tómu púðri. Frábærir leikarar eins og Cotillard, Jeremy Irons og Brendan Gleeson fá næstum því ekkert að gera annað en að tauta exposition-ræður.

Mesta áhættan sem myndin tekur er að leyfa senunum í fortíðinni að spilast út á spænskri tungu, og slíkt ætti ekki einu sinni að kallast áhætta, heldur bara sjálfsagt stöff. Annars gæti Assassin’s Creed líka vel verið alvarlegasta kvikmynd sem hefur nokkurn tímann verið gerð um leit að einu epli.
bladn

 

Besta senan:
Stóra stökkið, býst ég við. Alltaf ánægjulegt þegar áhættuleikarar eru notaðir í stað tölvugerðra staðgengla. Plús fyrir það.

Sammála/ósammála?