xXx: Return of Xander Cage

Sorrý, en Vin Diesel á bara ekki heima í hverju sem er, sama hversu sannfærður hann er sjálfur um annað. Hann er sólid sem Riddick, alltílæ í Furious-ruglinu og var svosem skítsæmilegur í xXx árið 2002 þegar attitjúdið (og aldurinn) hentaði betur. Að endurlífga þennan Xander Cage karakter, 15 árum seinna, reynist eitthvað koma voða sorglega út. Ekki bara kolfellur þessi mynd fyrir það eitt að Diesel ber sig eins og þér eigi að finnast hann vera svalasti dúddi í heimi, heldur hef ég sjaldan séð heila hasarmynd sem er með eins mikla standpínu fyrir sjálfri sér, og sannfærð um sitt eigið „kúl.“ Hún meira að segja tekur það sérstaklega fram og sér til þess að karakterar bendi reglulega á það þegar eitthvað töff gerist. Egh.

xXx-serían byrjaði sem eins konar „stera-Bond“ fyrir hnakka/unglinga, en nú hefur þetta þróast út í über-þunnu jaðarsportsgerðina af Mission: Impossible. En ef heiladauður hasar er það sem leitast er eftir er svo sem hægt að segja að myndin sé með athyglina (eða athyglisbrestina) miðaða þangað – en það þýðir ekki að lokavaran trekki samstundis upp rétt adrenalínið eða kikkið. Bæði er það því myndin fylgir algerum teiknimyndalögmálum og verður hreint og beint bjánaleg því yfirdrifnari sem hún kýs að vera (og gaman er að fylgjast með því oft hvar andlitið á Vin Diesel hættir og áhættuleikari hans tekur við), og ofan á það verður skothríðin og stökkgleðin svo rútínubundin að eitthvað gengur bara ekki upp. Söguþráðurinn hleypur líka endalaust í hringi eins og hann viti ekki alveg hvernig hann vill spilast út. Um leið og ein stór hasarsena er búin kemur gjarnan eins og að hún skipti engu máli í stærra samhenginu.

deepika-story-fb_647_072016103201

Uppsetningin á hasarnum þjáist líka fyrir ljóta klippingu í mörgum tilfellum og stendur einn sekvens sérstaklega upp úr þar sem skyndilega er farið úr nóttu yfir í dagsbirtu á spanni við nokkrar sekúndur. Voða fyndið, en þegar manni dauðleiðist yfir hasar á maður það til að taka eftir öllu öðru – eða öfugt, þegar svoleiðis atriði eru orðin svo illa útfærð á tæknilegum sviðum að maður sogast aldrei inn. Virðist sem að leikstjórinn D.J. Caruso (sem hóf ferilinn með hinni þrumufínu The Salton Sea en hefur mest megnis bara gert útþynntar og auðgleymdar spennumyndir síðan) kunni ágætlega að leika sér með lýsingar og litapallettur, en stílíseringin hérna er bara eintómur glassúr innan um gígantíska sýniþörf.

Það eru svo sem fín áhættuatriði hér og þar (og þyngdarleysisslagur í hrapandi flugvél er geggjað concept á blaði, en vekur ekki upp neinn púls hérna) og þó svo að Diesellinn ætli sér að kæfa öllu með sinni, ólgandi karlmannalegu og brandaralega sjálfsöruggu nærveru (geltandi út úr sér frösum sem eru engum hasarstjörnum hollar), þá er allt leikaraliðið býsna fjölbreytt og skemmtilegt. Ólíkir kynþættir og bæði kynin fá pláss þarna til að eigna sér sín litlu móment.

xxx-the-return-of-xander-cage-vin-diesel-donnie-yen

Hér er boðið t.d. upp á Hong Kong-stjörnuna Donnie Yen, Suður-Kóreska popp-ædolið Kris Wu, Muay Thai-kappann Tony Jaa, skoska fjallið Rory McCann, áströlsku kjarnakonuna Ruby Rose og Bollywood-stölluna Deepiku Padukone (ásamt cameo-i frá brasilíska fótboltakappanum Neymar). Gott lið. Það er reyndar mismikið sem hver fær að gera, og Ip-maðurinn Donnie Yen fer létt með það að stela myndinni. Ruby Rose er stórfín til uppfyllingar með réttu hörkuna en Diesel-dýrkunin er of sterk til að grúppan njóti sín til fulls. Maður býst heldur ekki við öðru en flottum kúnstum frá manni eins og Tony Jaa, þegar honum er komið fyrir (með hryllilegan hárstíl reyndar) en það fer eitthvað óvenjulega lítið fyrir honum.

Hin frábæra Toni Collette kemur líka út eins og hún sé að farast úr leiðindum í hlutverki sem virkar eins og einhver hafi platað hana í. Það er reyndar partur af rullunni að vera þurr, en kommon! Og hvaða brandara sem myndin ákv að gera úr gestahlutverki Samuels Jackson misheppnast. Mér finnst eiginlega skondið líka að þessi mongó-mynd hafi gerst svo djörf að láta eins og Avengers-hetjurnar séu til í þessum heimi sem hún gerist í.
Öh….

xXx: Return of Xander Cage ætti að vera einnota, hraðskreitt og heimskulegt fjör en skransar í leit sinni að kúlinu og skilur bara eftir ljót bremsuför. Skulum gefa henni það litla hrós að hún er örlítið skárri en rusleintakið sem Ice Cube yfirtók árið 2005 – og það er sennilega Yen og Rose sem eiga allan heiðurinn þar. Frekar hefði ég verið til í að sjá Triple X-mynd þar sem þau væru í lykilfókus, með Xander Cage að spóka sig í uppsprengdu aukahlutverki. Við erum að tala um B-hasarmynd sem snýst öll um fólk sem elskar spennufíknina og að taka áhættu. Af hverju gekk þá svona illa að djúsa spennu í þetta eða taka áhættu?

 

vond

Besta senan:
Handsprengjuhittingurinn.

Sammála/ósammála?