The Lego Batman Movie

Legó-bíómynd(™) af þessari stærðargráðu er í eðli sínu eins æpandi og vörumerkja- eða leikfangaauglýsing getur orðið þegar hún er hönnuð fyrir kvikmyndahús. Samt er ekki til neitt sem heitir vond hugmynd, bara vond framkvæmd, og Phil Lord og Chris Miller sýndu það með The Lego Movie frá 2014 að þú gætir gert grillaða, bráðfyndna, skarpa og hjartastóra mynd úr svona vörukynningu.

Ekki sakaði það heldur ekki að Batman sjálfur, æðislega talsettur af Will Arnett, stal gjörsamlega senunni, með títanískt egó og bráðfyndna skíthælastæla. Myndin sló allavega svo hart í gegn að Legómyndir verða núna orðnar að sínum eigin geira næstu árin – og nei, það er ekki sanngjarnt að telja þessar billjónir tölvuteiknimynda þar sem kubbakarlarnir hafa beygjanlegri útlimi en þeir ættu að hafa. Fyrir mér eru sönnu Legómyndirnar bara tvær núna, þessar sem bera sig eins og þær séu stop-motion (…sem tæki ábyggilega svona 8-9 ár að gera!) en eru í raun tölvugerðar frá A-Ö – og kræst hvað þær eru báðar flottar, lifandi og löðrandi í sköpunargleði. Kubba-Batman mátti endilega fá sína eigin mynd, enda löngu kominn tími á að DC gefi út aftur eitthvað almennilega fjörugt! (Suicide Squad telst ekki með. Hún var bara… sorgleg) og Arnett ber hana prýðilega uppi ásamt sínum liðsauka.

thelegobatmanmovie_clip_snakeclowns

Við stjórnvölinn hér situr nokkur Chris McKay, sem vann að seinustu Legó-mynd og verið einn af aðstandendum Robot Chicken þáttanna. The Lego Batman Movie spilast að hluta til út eins og Deadpool fyrir smákrakka, endalaust gerandi grín að mýþólógíu sinni, eigin vitleysu, bíósögu Batman-myndanna og er algjörlega þakin litlum einkadjókum. Stundum fer myndin í „overkill“ í einkabröndurum og formúlu-útúrsnúningum (a la Deadpool), sem oftast gengur bara upp þegar myndir sem gera slíkt eru ekkert alltof háðar klisjum. Lego Batman-myndin sleppur ekki undan formúlum og byrjar aðeins að missa flugið undir lokin, en maður er hálfpartinn farinn að búast við því þar sem hún nær aldrei almennilega að toppa fyrstu 10 mínúturnar sínar hvort sem er. Þær eru frekar æðislegar.

Hins vegar er ofsalega krúttlegur kjarni á bakvið myndina líka. Boðskapurinn verður farinn að daðra við smá predikun en það er alveg fyrirgefanlegt því þessi Batman er að mestu samur sér og það eru teknir æðislegir útúrsnúningar á samband hans við Jókerinn og hvernig þeir fullkomna hvorn annan… eða ekki. Á meðan seinasta Legómynd snérist um það að hugsa út fyrir kassann undirstrikar þessi mynd mikilvægi fjölskyldna og hvernig hún getur komið í mörgum myndum. Þetta virkar ekki alveg eins vel og síðast, en sleppur þó.

Verandi Legó-mynd lætir þessi mynd sér það ekki nægja að drekkja sýningartímanum með helstu DC-persónunum, heldur fær Batti að glíma við fígúrurnar Voldemort, King Kong, Sauron, Gremlins‘a og margt fleira. Aðeins í Legómynd kæmist maður upp með svona franchise-mix. Það er samt frekar bömmerandi og skrítið hvað Justice League liðið er undarlega fjarverandi í þessu öllu. Þeir hefðu nú alveg getað haft miklu við þennan ruglaða lokaþriðjung að bæta, tala nú ekki um að samvinna þeirra er sterklega gefin til kynna í kynningarefnum fyrir myndina.

The Lego Batman Movie heldur ekki alveg sama dampi og „forveri“ sinn frá 2014, né nær hún að vera eins stöðugt fyndin eða snjöll. En mikið er hún samt drulluskemmtileg þrátt fyrir það; endalaust flippuð, flott til útlits og svona rétt að mestu stórvel heppnuð dótamynd (og dótamynd er hún með stolti!), sem er í senn það hressasta sem DC merkið hefur sent frá sér síðan Joel Schumacher setti nipplur á blökubúninginn.

 

7

 

Besta senan:
„No more crime!“ fagnar fjöldinn á meðan hann leggur allt í rúst.
Ég dó

…smá.

Sammála/ósammála?