Split

Það er erfitt að taka því ekki með miklum fyrirvara þegar fólk á alnetinu og víða hrósar nýrri ræmu frá M. Night Shyamalan og kallar hana „comeback-myndina“ hans. Seinast heyrðist eitthvað sambærilegt í kringum (grín?)hrollvekjuna The Visit og þótti mér persónulega sú mynd vera á meðal hans verstu, næstum því á pari við The Happening nema bara ekki nærri því eins fyndin – eða leiðinleg. Nú hef ég heyrt svipað sagt um Split, og fyrir utan ágætistilraun til að búa til/stækka ákveðinn „bíóheim“ og snargeðveika frammistöðu frá James McAvoy, sé ég ekki alveg hvaða mynd aðrir eru að horfa á.

Hér er nefnilega ein ólgandi slæm mynd á ferð. Athyglisverð á köflum, hressilega múdí svosem og daðrar við ágætis þemur og klikkanir, en framvindan er undarlega óspennandi, steríl og viðburðarlítil. Efniviðurinn er truflandi en nálgunin er á tíðum eins og Shyamalan sé að rembast til þess að soga allan kraft úr honum og drekkja honum í staðinn með vondum samræðum og þar inniföldum glötuðum exposition-díalog. Í besta falli er þetta magnað demó-vídeó til þess að sýna hvað McAvoy getur lifað sig sterkt inn í (mörg) hlutverk (samtímis), en meira að segja á því sviði finnst mér myndin svíkja áhorfandann svolítið.

Shyamalan getur ekki kallast annað en merkilegur kvikmyndagerðarmaður, til hins betra eða verra, því fyrst og fremst REYNIR hann að gera eitthvað ferskt og persónulegt við fínar hugmyndir. Hins vegar, eftir að Signs kom út, hefur mér þótt bölvun hvíla á manninum sem lýsir sér þannig að hann kafnar í eigin metnaði og egói, verður þá fyrir vikið bara áttavilltur, steiktur og með nánast engan fókus á því hvað hann vill raunverulega segja eða gera við myndirnar sínar. Það er eins og hann skrifi einungis eitt draft af handritum sínum og kalli það gott.

Einu sinni átti Shyamalan framtíðina alla fyrir sér og ýmsir fóru að nota stóru orðin (svosem „næsti Spielberg“ eða Hitchcock), en hlutirnir sem hann var býsna góður í fyrst – m.a. að byggja upp lágstemmda spennu, fletta ofan af dulúð, stilla upp klæðskerasniðið andrúmsloft eða leikstýra barnleikurum – hafa farið hratt fölnandi með hverju verkefni. Sjálfur á ég erfitt með að trúa því að maðurinn sem gaf okkur The Sixth Sense og Unbreakable (hans besta – umhugsunarlaust!) skuli seinna meir hafa misst öll tök á því að finna sannfærandi frammistöðu í ungu fólki með myndum eins og The Last Airbender eða After Earth.

Að kalla Split bestu mynd leikstjórans í áraraðir er eins og að segja að betra sé að láta einhvern míga á fótleggina þína frekar en ofan mytti. Shyamalan eyðir miklu púðri í mannránsplott þar sem þrjár stelpur eru haldnar fastar. Hins vegar er ekki nema áhugi fyrir einni þeirra, þýðandi að hinar tvær falla rakleiðis í gleymsku og gengur voða illa að vera annað en slétt sama um örlög þeirra. Samt er nógu mikil áhersla á persónuleikadauðu stelpurnar til þess að við fáum aldrei að kynnast nema brot af þeim einstaklingum sem skiptast á meðvitund McAvoy. Sagan vill meina að þarna í honum séu rúmlega 20 persónuleikar, en varla helmingur þeirra einstaklinga sem fylgja honum er nafngreindur – og helmingurinn af þeim helmingi virkar eins og sami karakterinn.

Sagan fyllir líka upp í framvinduna með mikilvægum flassbakk-senum sem Shyamalan rétt skimar aðeins yfir.  Mesta kjötið í sögunni er þar að finna en Shyamalan ruglar saman „less is more“ nálgun og ófullnægjandi kitli. Bláendirinn trekkir upp (…ég viðurkenni) smáááá spennu fyrir áframhaldið, hvernig sem það mun spilast út, en atriðið sem er hérna klesst aftan á myndina er þvingað og býsna hallærislegt.

Split er fyrir hina allra hörðustu Shyamalan-aðdáendur, þó ég hafi ekki hugmynd um hvort þeim hafi farið fækkandi eða óútskýranlega fjölgandi gegnum árin. En hún virkar ekki sem sjálfstæður þriller og virkar enn púðurlausari sem eins konar „origin“ saga. Væri ekki fyrir McAvoy einan (eða… tólf) og mjög sannfærandi grátur frá Anyu Taylor-Joy (sem var FRÁBÆR í The Witch) væri þessi mynd frekar mikil tímasóun.


Besta senan:
Hedwig tekur dansinn.
Segjum það bara.

Sammála/ósammála?